Hrákaka frá himnaríki
Í dag lagði ég í hrákökusmíð. Ekki á hverjum degi sem ég geri það en í dag var greinilega rétti dagurinn enda hundleiðinlegt veður úti og ekkert skemmtilegra að gera en þetta.
Ég byrjaði á því að gera botninn en í hann fór eftirfarandi hráefni:
- möndlur
- döðlur
- vanilla
Þessu mixaði ég saman í matvinnsluvél þar til ég var komin með þokkalegan graut. Þá flatti ég þessu út í bökunarform sem ég hafði klætt með plastfilmu og stakk inní ísskáp.
Þá gerði ég súkkulaðikrem en í það notaði ég:
- lífrænt 70% súkkulaði með expressóbragði
- kókosolíu
Þetta bræddi ég saman í örbylgjuofninum og leyfði að kólna aðeins áður en ég tók botninn út og hellti súkkulaðinu yfir. Þá fór kakan aftur í ísskápinn.
Á meðan kakan harðnaði var ég að vafra um á vefnum og sá uppskrift að einskonar frauðkremi sem innihélt kasjúhnetur, frosin jarðarber og eitthvað eitt í viðbót sem ég man ekki hvað er. Hvað um það, ég átti jarðarber í frystinum, möndlumjólk í ísskápnum og banana. Mér datt því í hug hvort ég gæti ekki búið til frauð úr þessu.
Það var því haldið aftur í eldhúsið. Ég mixaði saman 1 banana, slatta af frosnum jarðarberjum og u.þ.b. einn bolla af möndlumjólk. Þetta varð ekki eins þykkt og ég hefði viljað þannig að ég læddist í skápinn minn, sótti þar 1 blað af matarlími, mýkti það í vatni og leysti síðan upp í örlitlu volgu vatni.
Þessu blandað ég saman við bananann og jarðarberin, hellti í skál og setti í ísskáp til að setjast. Ég ætla svo að brjóta kökuna ofaní formin og borða með skeið.
Ég hugsa samt að þegar ég geri þessa köku aftur (því það mun ég gera þá ætla ég að byrja á kreminu, setja það í fallegt form, gera botninn og hvolfa stífu kreminu ofaná hana þegar hún er tilbúin.
Eins og nærri má geta þá fylgir þessu engin mynd, enda uppskriftin aðeins á hugmyndastigi en það sem ég hef smakkað af henni er dásamlegt, já himneskt alveg hreint 🙂