Spírað morgunkorn

Undanfarið hef ég ekki getað dásamað nóg námskeiðin hjá sprotafyrirtækinu Fyrirmig (http://fyrirmig.com). Þar hef ég lært ýmislegt um hollustu og þá aðallega hráfæði sem byggir m.a. á því að neyta þess sem kallað er „ofurfæða“ í mun meira mæli en ég hef gert áður.

Eitt af því sem kallað hefur verið ofurfæða eru allskonar spíruð fræ. Ástæðan ku vera sú að spíruð fræ eru lifandi og leysa úr læðingi allskyns ensím sem hjálpa til við meltingu og upptöku næringarefna úr fæðunni.

Á námskeiðunum komst ég sannarlega að því að hráfæði þarf alls ekki að vera vont, hver maular ekki agúrku, vínber, melónu, gulrætur, epli eða rófur og finnst það gott? Þetta er hráfæði. Svo ef maður bætir því við að kaupa bara lífrænar vörur þá hefur maður aukið hollustu þessa til mikilla muna – og allir verða glaðir.

En ég hef líka lært að með því að meðhöndla þessar vörur á ákveðinn hátt má auka endingartíma þeirra til mikilla muna, m.a. með þurrkun. Uppskriftin hér að neðan felur það í sér, þetta kann að hljóma flókið og erfitt en trúið mér, þetta er ekki svo mikið mál. Eina sem maður þarf að gefa sér dálítið vel af er tími!

Í morgunkornið þarf eftirfarandi:

Uppskrift

  • 6 dl útvötnuð, spírað og þurrkað bókhveiti    
  • 2 dl útvötnuð, spíruð og þurrkuð sesamfræ
  • 2 dl sólblómafræ, útvötnuð, spíruð og þurrkuð
  • 1 dl graskersfræ útvötnuð, spíruð og þurrkuð
  • 4 dl kókosmjöl
  • 2 dl döðlur
  • 2 dl gojiber
  • 2 dl trönuber eða rúsínur
  • ½ dl hrákakó
  • 3 tsk vanilla
  • 3 tsk kanill
  • 1 tsk maca
  • 1 tsk frjókorn
  • 1 tsk salt

Aðferð
Leggðu fræin í vatnsbleyti, sjá tímalengd í töflu hér neðar
Þegar fræin hafa spírað, þá skaltu skola þau og þerra.
Gott getur verið að tæta aðeins graskersfræin í matvinnsluvél með döðlum og rúsínum.
Heltu afganginum af blöndunni út í og þurrkaðu í ofni.
Þú getur notað venjulegan ofn og haft smá op ef þú átt ekki þurrkofn.
Stilltu á 45°C í u.þ.b. 18-24 klst. eða þangað til þetta er alveg þurrt.
Geymdu í glerkrukku með góðu loki.

Ég á ekki þurrkofn, ég á ekki einu sinni blástursofn, en ég get stillt ofninn minn á aðeins meiri hita en hér er talað um, set hann á ca. 60-70°C, sting skafti á trésleif í ofnhurðina og set ofnplötur efst og neðst í ofninn. Ég gæti þess vel að róta aðeins í morgunkorninu öðru hvoru því það þornar venjulega fyrst út á köntunum á plötunni og svo læt ég ofnplöturnar skipta um stað þannig að ekki komi bara hiti að ofan eða neðan á sömu plötuna allan tímann. Þetta tekur ekki svona langan tíma og talið er hér að ofan. Þetta er yfirleitt orðið þurrt hjá mér eftir ca. 5-7 klst. Ef ég þarf að skreppa þá slekk ég á ofninum en skil hann eftir hálfopinn (með sleifinni) og kveiki svo aftur þegar ég kem heim.

Spírunartími er eftirfarandi:

Picture

 

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu