Steik og Guinness pæ – hó hó og hæ

Jæja, ég eldaði steik og guinness pæ í kvöld enda kom Bubba systir í mat og hún (eins og ég) elskar svona breskan pöbbamat.

Það tekur tíma að elda þetta en það er samt hryllilega einfalt að elda. Það sem þarf er:

 • nautagúllass eða nautastroganoff í hæfilegu magni
 • 1 lauk – skorinn smátt
 • 1 hvítlauksrif (meira eða minna ef þú vilt)
 • gulrætur – skornar í bita
 • sellerístöngul – skorinn í bita
 • hveiti
 • worchester sósu ca. 2 matskeiðar
 • olíu til að steikja uppúr
 • súputening
 • tómatpúrré – ca. 2 matskeiðar
 • 1 ds. af Guinness bjór (400 ml)
 • salt
 • pipar
 • smjördeig (fæst frosið í flestum matvöruverslunum)
 • grænar baunir … hér er best að nota frosnar baunir en ekki Ora

Jæja, þetta er einfalt. Þú tekur kjötið og þerrar það setur það síðan í skál og þekur það með hveiti. Þá hitar þú pönnu eða góðan þykkbotna pott og steikir kjötið úr olíu þannig að það brúnist. Það festist alltaf á botninum hjá mér en reyndu að koma í veg fyrir það. Þegar þú ert búin að brúna kjötið þá tekur þú það uppúr pottinum / pönnunni og steikir laukinn létt, setur selleríið útí og hellir úr dósinni í pottinn. Ef þú ert bara með tvo í mat eins og ég þá má taka smá til hliðar af bjórnum og drekka meðan þú eldar.

Þessu næst er worchester sósan og tómatpúrréið sett útí ásamt súputeningnum, piprað vel og sett klípa af salti. Þá er lækkað niður í neðsta straum á hellunni og þetta látið sjóða í ca. 1 – 1 1/2 tíma. Ef þetta verður of þunnt þá er gott að þykkja þetta aðeins með sósujafnara áður er rétturinn er borinn fram.

Ég keypti smjördeigsplötur og setti þær frosnar á smjörpappír og bakaði í ofninum við 200 gráður í um 20 mínútur. Grænmetið var frosið og ég rétt sauð uppá því áður en þetta var borið fram … með þessu er að sjálfsögðu drukkinn Guinness bjór!

Steik og Guinness pæ

 

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu