Kartöflusalat Lúðvíks
Höfundur: Lúðvík E. Gústafsson
1 kg soðnar salatkartöflur (bestu fáanlegur hér á landi eru franskar Ratte kartöflur, eru svínslega dýrar núorðið, e.t.v. betra að styrkja heimalandbúnað.)
Sjóða þær fyrst og láta þær kólna áður en salatgerðin hefst.
2-3 epli, eftir stærð og smekk, ekki súr (semsé ekki þessi eiturgrænu).
5-6 súrar gúrkur, líka eftir stærð og smekk
1-2 harðsoðin egg
hálfur til einn rauðlaukur
til að krydda nota ég salt, pipar, karrý (má ekki verða of áberandi), majoran
Brytja niður öll hráefnin, hella yfir svolitla olíu (má vera olívu, en aðrar tegundir einnig hæfar) til að koma í veg fyrir að kartöflubitarnir loði of mikið saman. Hella einum bolla af grænmetiskrafti yfir allt, svo að salatið verði blautt. Það getur þurft að bæta við öðrum bolla ef manni finnst salatið ennþá of þurrt. Bæta við kryddunum og einnig smá af ljósu ediki, hvítvins- eða sherryedik t.d.
Gera þetta daginn fyrir neyslu, þ.e. láta öll efnin blandast vel og taka á sig bragðefnin. Því gæti verið að daginn eftir þurfi að bæta við kryddi. Auðvitað má bæta við öðrum kryddtegundum, eftir smekk, svo sem steinselju.
Guten Appetit!