Bragðgóð og einföld fiskisúpa

Það var tilraunaeldhús heima hjá mér þriðjudaginn 27. október 2010. Ég átti nýjan og girnilegan lúðubita í ísskápnum og mig langaði til að búa til fiskisúpu, sem ég hafði aldrei búið til áður. Ég leitaði á netinu að fiskisúpum, sem allar áttu það þó sameiginlegt að hafa skelfisk meðal hráefnis. Slíkt gæðafæði set ég ekki inn fyrir mínar varir enda gæti þá orðið heldur brátt um mig. En ég fékk ágæta hugmynd um hvað ég gæti sett í súpuna mína. Á endanum var niðurstaðan þessi.

Hráefni:
50 gr. smjör til steikingar
15 cm púrrulaukur
1 stk. laukur
3 stk. meðalstórar gulrætur
500 gr. kartöflur
2 stk. fiskiteningar
1-1,5  ltr. vatn
0,5 ltr. rjómi/matreiðslurjómi
3 tsk. karrý
salt og pipar
Fiskur eftir smekk.

Skerðu púrrulaukinn og laukinn smátt og gulræturnar í þunnar sneiðar. Bræddu smjörið í potti og leyfðu karrýinu að steikjast þar smá stund. bættu síðan lauknum í pottinum. Gættu þess samt að ekki sé svo mikill hiti í pottinum að laukurinn brúnist. Bættu gulrótunum í pottinn og leyfðu þessu að malla í nokkrar mínútur. Settu vatn smátt og smátt í pottinn og leyfðu suðunni að koma upp. Bættu fiskiteningunum í pottinn og kryddaðu með salti og pipar. Afhýddu kartöflurnar, skerðu í bita og bættu í pottinn. Leyfðu þessu að malla í smá stund, 10-20 mínútur, eða þar til laukurinn er maukaður og kartöflurnar soðnar. Hér er rétta tækifærið til að smakka súpuna til, bæta við kryddi ef þarf en athugaðu að bragðið á eftir að breytast nokkuð annars vegar þegar þú setur rjómann í pottinn og hins vegar þegar fiskurinn fer útí.

Settu rjómann útí og leyfðu suðunni að koma upp. Brytjaðu fiskinn í mátulega munnbita og settu útí pottinn. Hér kemur loka smökkunin og súpan borin fram. Gættu þess að ofsjóða ekki fiskinn, hann gæti orðið þurr.
Borið fram með góðu brauði.

Verði þér að góðu.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu