Eilíf ást

Ég man það svo vel er ég mætti þér fyrst
þú varst sorgmædd í framan og með tárin í hvörmum
og ég óskaði þess að þú yrðir um kyrrt
myndir erfiði gleyma í mínum ástríkum örmum
Ég vissi það þá og ég veit það í dag, ég elska þig alltaf.

En þú leist ekki á mig, bara strunsaðir stíf
já stór voru skref þín, sem hratt voru stigin
og ég fann að þig vantaði vin í þitt líf
þú vonaðist til hún hyrfi burt – lygin!
Ég vissi það þá og ég veit það í dag, ég elska þig alltaf.

Þú horfðir í fyrstu svo undrandi á mig
ég spurði mig sjálfan hvað flaug þér um huga
svo spruttu fram tárin er starði ég á þig
og ég sá að þig sorgin var hreinlega að buga
Ég vissi það þá og ég veit það í dag, ég elska þig alltaf.

Og þú sagðir mér sögu svo umbúðalaust
um samband sem byggt var á ást þinni og vonum
en það vantaði trúnað, það vantaði traust
og að tólf árum liðnum var ástin í molum
Ég vissi það þá og ég veit það í dag, ég elska þig alltaf.

Ég sagði ekki neitt, vildi ei svíkja það traust
sem þú sýndir mér þarna, eina nótt fyrir löngu
en minningin um þig vaknar hjá mér hvert haust
þegar hugsa ég um mína einmenningsgöngu
Ég vissi það þá og ég veit það í dag, ég elska þig alltaf.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu