Við grátum

VIÐ GRÁTUMVið grátum þann sem kemst í kyrran garð
er kista felur von sem varð að engu,
við gátum fallna rós við rofabarð
og raunir manna sem hér veginn gengu,
við grátum jafnvel ást sem aldrei varð
og örlög þau sem fagrir draumar fengu.

Við grátum þegar brekkan brött og hál
fær bugað þá sem eiga hvergi heima,
við grátum ef við lofum lífsins bál
og látum okkar hjörtu þrá og dreyma,
við grátum stolt ef þraukar þakklát sál
og þegar gleðitárin um kinnar streyma.

Við grátum ef við þurfum sorg að sjá
og söknum þeirra helst sem veginn ruddu,
við grátum, afar þakklát fyrir þá
sem þráðu pláss í lífsins bókarskruddu.
Við grátum þegar vinir falla frá,
ef fækkar þeim sem okkur áfram studdu.

Kristján Hreinsson vinur minn sendi mér þessa línur 29. júní 2018 þegar ég setti inn eftirfarandi stöðufærslu á FB:

Lífið er svo hverfult.
Á innan við hálfum sólarhring hafa mér borist fréttir af því að tveir einstaklingar sem ég var svo lánsöm að fá að fylgja um stund hafi lotið í lægra haldi fyrir krabbameini.
Bæði eru yngri en ég, eiga maka og börn og bæði hafa háð hetjulega baráttu við krabbann síðustu ár.
Hjarta mitt er fullt af sorg vegna andláts þeirra en um leið er það fullt af þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast þeim báðum, hafa fengið að hvetja þau áfram í lífinu og átt örlítinn þátt í að móta þau sem manneskjur á uppvaxtarárunum.
Farið í friði elsku vinir – lífið er núna ❤

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu