Dollý spáir fyrir árinu 2023

„Ertu með helvítis pödduna … aftur,“ dæsti vinkona mín þegar ég hringdi til hennar á Teams 30. desember. Margir vinir Dollýar (ég og hinar í saumó) rákum upp stór augu og eyru þegar hún sagðist ætla að fara á námskeið í Teams hjá Endurmenntun Háskóla Íslands í haust. Dollý sem þoldi ekki tölvur og er búin að halda því fram í mörg ár að eina alvöru tölvan sem hún þurfi sé kristalskúlan hennar og spáspilin. „Hvað heldur þessi útlenski Gúggl að hann sé? Völva kannski!,“ sagði hún og frussaði restinni af piparkökum frá í fyrra út um annað munnvikið.

„Já ég fékk Covid aftur í gær, fyrirgefðu ég ætlaði að koma og með þessa dýrindis flösku af kanadísku Crown Royal viskýi sem lýtalæknirinn þinn bað mig um að færa þér!“ Það kom móða á myndavélina hjá vinkonu minni þegar hún hvæsti á mig „Lýtalæknir, ertu að segja að ég sé ljót!!“ Mér brá dálítið og ákvað að gera mér upp svakalegt hóstakast og vonaði að hún myndi gleyma þessu með lýtalækninn. Þegar ég hafði jafnað mig spurði ég varlega „Ég var að spá, má ég fá dreitil af viskýinu svona í lækningarskyni?“ „NEI kemur ekki til greina – þú getur fengið þér Jón á Röltinu eða einhvern annan sora, ertu ekki búin að missa bragðskynið hvort eð er?“ – „Æ, ég sleppi þessu bara,“ muldraði ég og bætti við „eigum við ekki bara að byrja?“ – „Jú gerum það, ljúkum þessu af,“ það var ekki laust við pirring í röddinni hjá vinkonu minni að komast ekki í kanadíska viskíið, en svona er lífið stundum!

Síðasta spá

– Hvernig gekk mér í fyrra?, spurði Dollý og lygndi aftur augunum.

Bara nokkuð vel myndi ég segja. Árið var þokkalegt og langt í frá eins gott og flestir vonuðu, veðurfarið var stórfurðulegt hitamet og kulda, úrhellisrigningar og snjókoma sem engan enda virðist ætla að taka. Loftslagsmálin voru sannarlega í brennidepli. Þú sagðir frá einstöku góðverki sem við myndum verða vitni að og þau voru reyndar mörg á árinu. En góðverkið sem þú spáðir fyrir um var sjálfsagt þegar Villi á Benzanum stökk út og slökkti í strætó.

– Hann er einstakur hann Villi minn, muldraði Dollý og skellti mynd upp að myndavélinni.

 – Já ok, áttu bara mynd af honum! … Þú nefndir málefni KSÍ og spáðir fyrir um brotthvarf háttsetts einstaklings þar innanhúss – það hefur líklega verið Eiður Smári – en breytingarnar sem þú spáðir hafa látið á sér standa nema þær komi í kjölfar skýrslu Grétars Rafns? Þú sagðir einnig að sannleikurinn myndi birtast hjá konum innan knattspyrnuhreyfingarinnar og landsliðsstelpurnar hristu heldur betur upp í málunum í tengslum við töluna 100. Þú sagðir líka að stelpurnar okkar myndu ekki ná inn í 8 liða úrslitin  á EM en vera ansi nærri því og það var heldur betur raunin. Englendingar urðu Evrópumeistarar kvenna en náðu ekki titlinum á HM karla eins og þú spáðir. Breiðablik varð Íslandsmeistari í karlaflokki en Blikastelpur í þriðja sæti í tveggja liða deild!

Árið 2023

Dollý kom sér vel fyrir við kristalkúluna sína og hóf síðan upp raust sína.

„Þetta verður skemmtilegt ár, árið 2023. Mun skemmtilegra en árið 2022, sem þó var ágætt svona í baksýnisspeglinum. Menn mega ekki taka lífinu of alvarlega. Hún Edda Björgvins vinkona mín sagði við mig einu sinni að maður ætti aldrei að taka sjálfa sig of hátíðlega og besta grínið er á sinn eigin kostnað. Það léttir á streitu og gefur manni eitthvert vítamín sem lætur konu brosa oftar og lengur. Ég er þess vegna alltaf að gera grín að sjálfri mér – sjáðu bara,“ sagði Dollý og gretti sig svo hressilega að ég fór að hugsa um viskýið … og lýtalækninn!

Veðrið

„Veðrið í sumar á Íslandi verður með eindæmum, það verður almennt gott um allt land en eins og alltaf skiptast á skin og skúrir og öfgar í veðrinu verða stærri og meiri en við höfum hingað til kynnst. Snjórinn sem hún þekur landið mun sitja sem fastast og ekki fara alveg fyrr en komið verður fram undir Páska. En þá hlýnar hressilega og sólin mun skína skærar á Íslendinga en nokkru sinni fyrr.

Talandi um Sólina. Hún á eftir að vera í brennidepli á árinu 2023. Bæði vegna ofboðslegra hita víða um jarðarkringluna og einnig vegna óhemju mikilla sólstorma sem munu geysa og færa okkur magnaðri Norðurljós en nokkru sinni. En það verða aðrar afleiðingar og verri sem menn eru farnir að óttast í alvöru að rafsegulbylgjur frá Sólinni muni skemma innviði milljóna þjóða og valda rafmagnsleysi víða um veröld.

Og talandi um Sólina – þurrkar munu herja á Jörðina sem aldrei fyrr á árinu 2023 og valda gríðarlegri hungursneyð og eymd um jörðina miðja. Það mun knýja þá sem þar búa til að flýja ýmist í norður eða suður og á þeim slóðum finnst mörgum nóg komið.

Stjórnmálin

Bjarni, Katrín, Ingi Ljósm.:Stundin

Þetta verður erfitt ár fyrir stjórnmálamennina okkar og líf ríkisstjórnarinnar mun hanga á bláþræði. Það er ekki síst vegna afstöðu til vindorkuvera annars vegar og vegna móttöku flóttafólks hins vegar. Bjarni Benediktsson er búinn að fá nóg af því að vera talinn gunga innan Sjálfstæðisflokksins fyrir að taka ekki fastar á málefnum spítalans, orkuiðnaðarins og flóttafólks á sama tíma og Katrín Jakobsdóttir er orðin þreytt á að vera talin gunga innan VG fyrir að taka ekki fastar á nákvæmlega sömu málum. Á milli þeirra stendur hann Ingi vinur minn og biður sína ráðherra um að hafa sig hæga á meðan samherjar hans í ríkisstjórn fremja sitt japanska harikiri. Hann mun svo á seinni helmingi árs miðla málum og mér sýnist ríkisstjórnin muni lifa af árið 2023.

Það sama verður ekki sagt um meirihluta í mörgum sveitarfélögum. Meirihlutaskipti verða í nokkrum sveitarfélögum á Suðurlandi, mér sýnist að það eigi við um sveitarfélög sem hafa stafinn H í nafninu sínu eða í einhverju framboða á svæðinu. Allavega kemur stafurinn H sterkt fram.

Þetta verður skemmtilegt ár hvað stjórnmálin varðar hér heima – mikið um allskyns uppákomur sem stjórnmálamenn vildu helst ekki lenda í en almenningur elskar. Hneykslismál, framhjáhald og græðgi munu koma upp, góða fólkið verður alsælt með margt af þessu og eyða ófáum klukkustundum á samfélagsmiðlum við að ausa úr réttlátum skálum reiði sinnar.

Ameríka

Donald Trump fer mikinn í henni Ameríku og Biden mun eiga undir högg að sækja. En honum mun berast hjálp úr óvæntri átt því Musk bannar Trump á Twitter – aftur – og reyndar mun Musk breyta nafni Twitter yfir í Tesler og ætlar með því að vísa í gullkálfinn sinn Tesluna. Aðeins þeir ríku og máttugu munu fá aðgang að Tesler en Trump hefur ekki skilað skattframtölum þennig að enginn veit hvort hann sé ríkur yfirleitt og Musk bannar hann. Hins vegar fá Kínverjar óheftan aðgang að Tesler og verður þetta fyrsta alþjóðlegi samfélagsmiðillinn sem fær að vaða um í Kína óritskoðaður.

Umhverfismál

Umhverfismálin öskra á mig úr öllum áttum, ekki bara það að við þurfum að flokka rusl á annan hátt heldur en áður heldur líka þurfum við að fara betur með þá hluti sem við eigum nú þegar og endurvinna þá eins vel og mögulegt er. Jörðin okkar er að niðurlotum komin vegna illrar meðferðar og við þurfum að fara að bera ábyrgð á okkur sjálfum og framtíðar kynslóðum. Neysluhyggjan hefur náð hámarki sínu og stjórnvöld um allan heim fara að leggja á nýjan skatt, svokallaðan framleiðsluskatt, á vörur sem að öllu jöfnu mætti endurvinna. Á það við um húsgögn, fatnað og farartæki svo eitthvað sé nefnt.

Það verður allt vitlaust hérna heima vegna aukinna sorphirðugjalda og munu ákveðin hverfi í Reykjavík (101 og 107) líta út eins og Napolí á tímum verkfalls sorphirðufólks. Rusl út um allt og góða fólkið veit hreinlega ekki hvað það á að gera við ruslið sitt. Fjórar tunnur við hvert hús sem verða vigtaðar þegar þær eru sóttar er nokkuð sem sumir höndla ekki. En svo lengi lærir sem lifir segir einhversstaðar eða eins og Edda mín segir „kona þarf að búa yfir æðruleysi gagnvart skoðunum og þörfum annarra og það má alls ekki láta áreiti frá öðrum koma sér úr jafnvægi.“

Rafvæðing farartækja mun aukast og nú fara að birtast farartæki sem eru í raun eins til tveggja manna bílar sem ná 50-90 km. hraða á klukkustund. Þessir bílar mun slá í gegn í Kína, Indlandi, Evrópu og Ameríku þar sem vetur eru ekki svo harðir.

Hér á landi verður farið fram á það að þessir bílar megi aka um á hjólreiðastígum fyrst um sinn og verður það samþykkt svo fremi sem ökumenn aki þeim ekki hraðar en á 40 km. hraða.

Íþróttir

Árið 2023 verður stórkostlegt íþróttaár fyrir Íslendinga. Handboltadrengirnir slá taktinn strax í janúar með mögnuðum árangri á HM, ég sé gyllta áru í kringum liðið. Þessu verður fylgt eftir hér heima þar sem við munum verða vitni að ótrúlegri úrslitakeppni bæði í handbolta og körfuknattleik. Vetrarólympíuleikarnir munu líka efla stolt Íslendinga, sem þó er ærið fyrir, Guðmundur Ágúst mun ná góðum árangri á nokkrum golfmótum og Íslendingar ærast úr fögnuði yfir úrslitum í Meistaradeildinni í fótbolta.

Valur mun ráða ríkjum í handboltanum og Breiðablik í fótboltanum og í körfubolta öllum að óvörum.

Í Englandi verður Arsenal Englandsmeistari bæði í kvenna og karlaflokki í fótbolta.

Náttúruöflin

Náttúruöflin verða þokkalega góð við okkur á árinu ef undan er skilið veðrið og allt sem fylgir því. Það verður vissulega eitthvað af jarðhræringum, en við því er að búast, hins vegar sé ég ekki nein eldgos að þessu sinni – en hvað veit ég?

Kóngafólkið

Blessað kóngafólkið. Hann Kalli gamli er ekki nema 74 ára gamall. Hann verður kóngur í Bretlandi næstu 15-20 árin, sama þótt fólkið vilji hann burt sem allra allra fyrst. Hann mun lifa Kamillu konu sína en hún verður heldur heilsuveil á árinu eftir stanslausar reykingar og almenna óhollustu í gegnum tíðina.

Elsku Vilhjálmur verðandi konungur, Prinsinn af Wales, mun slá ítrekað í gegn á árinu, ekki síst vegna barna sinna og eiginkonu og það mun gera karli föður hans dálítið gramt í geði. Sá gamli er nú þegar búinn að svipta Andrés bróður sinn öllum konunglegum undanþágum og það sama mun sonur hans Harry þurfa endanlega að gera, enda veit Kalli sem er að Harry er alls ekki sonur hans og hefur ekki dropa af bláu blóði í æðum sínum.

Í Danmörku mun verða brátt um hana Margréti Alexandrínu Þórhildi elsku vinkonu mína og mér sýnist að ég þurfi að hverfa til gamla höfuðstaðarins þegar líður að hausti og fylgja henni síðasta spölinn. Friðrik krónprins er ekkert ólíkur kollega sínum Vilhjálmi, að vera vel virtur og dáður í heimalandinu. Það mun verða mikið um dýrðir þegar hann verður krýndur konungur og umsvifalaust verður hann vinsælasti konungur álfunnar, Karli okkar til mikils ama og leiðinda.

Annað

Verðbólga í heiminum mun ná nýjum hæðum í hinni vestrænu veröld og hér á Íslandi nær hún í tveggja stafa tölu fyrri hluta ársins. Tásumyndir frá Tene eru hin raunverulega orsök og Seðlabankinn mun meina flugfélögunum að fljúga með Íslendinga þangað. Það gerir ekkert til því Íslendingar munu í sumar fara umvörpum til Póllands þar sem verður bæði hlýtt og gott að vera og ekki síst ódýrt!

Stríðið í Úkraínu heldur áfram eitthvað fram á nýtt ár. Vesturveldin hafa haldið í sér um margra mánaða skeið en svipleg andlát alls kyns óligarka í Rússlandi síðustu mánuði hafa verið þess valdandi að ráðamenn á Vesturlöndum halda að sér höndum enda vita þeir sem er að leigumorðingjar fara á milli landa eins og ekkert sé. En að lokum fær almenningur í Rússlandi nóg og hermenn í rússneska hernum hætta, gefast upp, láta sig hverfa í svo miklum mæli að Pútín ræður ekki neitt við neitt. Það mun því komast friður á í Úkraínu eftir stríð sem hefur tekið alltof mikið af mannslífum og valdið alltof miklu tjóni um alla veröldina.“

Crown Royal

„Getur þú sent mér þessa viskýflösku vinan?“ spurði Dollý skyndilega og slökkti svo á Teams fundinum. Sama hvað ég reyndi að hringja oft þá svaraði hún ekki svo ég náði ekki að segja henni að líklega yrði það að bíða fram á nýja árið þegar paddan væri farin til síns heima.

„Gleðilegt ár,“ hvíslaði ég um leið og ég slökkti á tölvunni.

Gleðilegt ár!

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu