Dollý spáir fyrir árinu 2014

Ég trúði því varla að sá tími ársins væri kominn þar sem ég skundaði í heimsókn til Dollýjar vinkonu minnar. En þangað hef ég komið á hverju ári síðustu sjö ár. Já áttunda árið var að renna upp og kvíðahnúturinn sem gjarnan hefur verið í maga mér þegar ég hef litið við var víðsfjarri.

DollyDollý tók mér fagnandi, knúsaði mig og kyssti um leið og ég heyrði hana muldra, “ætli hún hafi minnkað?”. Ég lét sem ég hefði ekki heyrt þetta enda búin að fá hundleið á þessum athugasemdum eftir framköllun ársins. Hún bauð mér þvínæst til sætis í stofunni og mætti með bjór í glasi handa mér. Ég afþakkaði pent og spurði hvort hún ætti ekki vatn.

-Vatn! Hvað meinar þú kona. Ef ég á að spá fyrir þig þá verður þú að gjöra svo vel og drekka mér til samlætis. Ég hef fylgst með þér á árinu og líst ekkert á þetta kjaftæði í þér að borða þetta helvítis hráfæði alltaf hreint.

– Ég borða nú ýmislegt annað, muldraði ég en áttaði mig þó fljótlega að hún myndi ekkert hlusta á mig frekar en fyrri daginn.

Spáin gekk þokkalega

-Hvernig gekk mér í fyrra, spurði Dollý og starði djúpt í augun á mér.

-Þér gekk bara þokkalega. Árið verður lengi í minnum haft og veðrið var ákaflega vott um alla jarðarkringluna. Það var mikill snjór á Norðurlandi en sem betur fer var lítið um snjóflóð. Þó skalf jörð ekki mikið þetta árið og enginn eldur reis úr jörðu. Pervertaháttur náði nýjum hæðum, þó ekki vestur í Hollywood heldur hér heima og í Englandi.

Þú hafðir rétt fyrir þér með hræringar í stjórnmálunum og sumir myndu segja að menn hafi gripið til allra ráða til að halda völdum. Einnig hefur Björt framtíð Guðmundar Steingrímssonar notið talsverðs fylgis þó það hafi verið heldur minna en útlit var fyrir um tíma. Bjarni náði kjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins og hann situr þar enn, sem er annað en þú spáðir.

Þú hafðir rétt fyrir þér með að tveir flokkar eru stærri en hinir fjórir minni sem eru á þinginu. Þú sagðir að árið yrði ekkert sérstakt íþróttaár en í raun var þetta mikið íþróttaár. Já og ég hélt partý, sagði ég og brosti.

Dollý frussaði framaní mig og hvæsti “Það var ekki verið að bjóða MANNI!”

Við þessu átti ég ekkert svar og sá þann kost vænstan að segja ekkert, enda virtist Dollý ekki muna að hún mætti algjörlega óboðin í veisluna. Ég þagði.
Maður lærir smá saman!

Pólitískt ár

Eftir að Dollý hafði sent mér drápsaugnaráð lyngdi hún aftur augunum og sagði hægum róm

-Eigum við ekki að drífa í þessu.

-Jú endilega, sagði ég og kveikti á upptökutækinu.

see_hear_speak_1-Árið 2014 verður afar pólitískt ár hér heima. Það eru jú sveitarstjórnarkosningar og það verða víða gríðarleg átök. Stjórnmálin verða persónulegri og harðskeyttari en nokkru sinni og athugasemdakynslóðin mun láta mikið að sér kveða. Hafa í frammi allskyns fullyrðingar sem standast enga skoðun. En þetta er afleiðing af því sem gerðist hér á síðasta ári, menn lofa og lofa og standa svo ekki við neitt.

Reykvíkingar, sem hafa tekið Besta flokkinn í sátt, vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga fyrst Jón Gnarr er ekki í boði. Þeir kaupa ekki Björn Blöndal né Heiðu Kristínu en treysta heldur ekki gömlu fjórflokkunum. Píratar munu koma á óvart og beita óhefðbundnum kosningaáróðri. Þeir verða hinir raunverulegu sigurvegarar kosninganna og ná inn manni. Þeir muna þó ekki setjast í meirihluta í borginni að þeim loknum.

Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki ná þeim árangri sem margir væntu eftir magurt gengi síðustu ár og áratugi, hann mun þó bæta við sig manni frá því sem nú er. Flokknum tekst illa að fela valdabaráttuna innan flokksins og armur Guðlaugs Þórs mun ná heljartökum á flokknum og hafa í hótunum við þá sem ekki eru með þeim í liði. Að sama skapi verður árangur VG og Samfylkingar ekki eins og væntingar stóðu til. Mér sýnist þó að þeir haldi sama fjölda borgarfulltrúa og nú er og munu Björt framtíð og Samfylkingin mynda meirihluta í borgarstjórn.

Kjörsókn í Reykjavík verður með minnsta móti, traustið til stjórnmálanna er þverrandi og það sést vel á því hversu margir, eða fáir, mæta á kjörstað. Það er eins og menn gleymi því að þetta fólk sem fer í pólitíkina það vill vel, það vill vel, sagði Dollý og dæsti.

Hún leit síðan á mig og ég sá blik í augum hennar, skyndilega segir hún.

southern_comfort_manhattan-Hvernig er það eiginlega, á ekkert að bjóða manni drykk, frekar en í þetta helvítis afmæli?

-Ha, jú auðvitað. Ég kom með jólavín sem ég bjó til. Viltu smakka það?

-Jólavín … hvur andskotinn er það eiginlega. Láttu mig fá flöskuna.

Ég gerði eins og ég var beðin um og rétti henni flöskuna. Hún lyfti flöskunni upp að ljósinu og hnussaði.

-Það tók því nú varla að koma með þetta smáræði.

Jag vill leva jeg vill dö i Norden

Því næst tók hún gúlsopa beint úr flöskunni, fyrst tók ég andköf enda vínið sterkt og þvínæst tók Dollý andköf, hóstaði, lyfti flöskunni aftur upp að ljósinu og sagði svo:

-Þetta er ágætt, minnir mig á Gammel dansk. Ja for helvede, nu tænker jeg om
Danmark. Du gamle du fria, du fjällhöga nord!

-Þetta er reyndar sænski þjóðsöngurinn, segi ég og sé samstundis eftir því þegar ég fæ enn eitt augnatillitið frá vinkonu minni sem heldur áfram að syngja. Ég sé þann kost vænstan að taka undir með henni í lokalínunni:

-Ja, jag vill leva jag vill dö i Norden!

Kratarósin

Dollý brosir blítt og klárar úr flöskunni. Ég sé að vínið svífur hratt á hana og spyr hana út í önnur sveitarfélög en Reykjavík.

-Hvaða asi er þetta kona. Og hvað meinar þú “önnur sveitarfélög”? Þú ert bara að meina Kópavog er það ekki?

-Jú, ég hef auðvitað mikinn áhuga á Kópavogi, viðurkenni ég.

-Þar er sami grautur í sömu skál, segir Dollý, en ég sé glampann í augunum á henni. Hún er að stríða mér.

-Það er náttúrulega sjónarsviptir af Gunnari Birgissyni. Hann hefur nú verið MAÐURINN í Kópavogi í yfir 20 ár og ég held að Kópavogsbúar viti ekki hvað þeir hafa átt fyrr en þeir missa hann Gunnar minn.

Litlausi bæjarstjórinn

Mér bregður dálítið við að heyra Dollý tala svona hlýlega til Gunnars, en veit
þó að henni hefur verið hlýtt til hans á sinn undarlega hátt.

-Litlausi bæjarstjórinn mun ekki ná árangri enda erfiðar hann ekki mikið drengurinn sá. Hann telur sjálfan sig eiga fyrsta sætið hjá íhaldinu í Kópavogi en öllum að óvörum þá fellur hann niður í þriðja sætið í prófkjörinu og í framhaldinu lætur hann sig hverfa af vettvangi. Karlmaður sem er mikið innvinklaður í íþróttastarf og hefur talsverða peninga á milli handanna mun ná fyrsta sætinu og miðaldra kona mun fylgja honum. Saman ná þau þokkalegum árangri og munu sitja í meirihluta í Kópavogi næsta kjörtímabil.

-Með hverjum? Spyr ég.

-Með hverjum, með hverjum segir þú, með hverjum? Er það ekki milljón dollara
spurningin ljúfan mín, segir Dollý og neitar að láta nokkuð uppi um það.

-Hvað með flokkinn minn? spyr ég lágum rómi.

-Flokkinn þinn! Þú átt ekkert góða mín, ekkert. Hvurslags orðbragð er þetta?

-Mig langar bara að vita hvernig Samfylkingunni mun ganga í Kópavogi, segi ég
og er einhvernvegin hvergi bangin.

-Þetta fer allt einhvernvegin, segir Dollý. Hvorki mjög vel né mjög illa.

-Hvað getur þú ekki sagt mér eitthvað fleira en það, þetta gæti hver sem er
sagt! Segi ég og er dálítið pirruð.

-Hvurslags frekja er þetta í þér stelpa, hvæsir Dollý en muldrar svo, eða á ég kannski að segja kerling eins og Pétur gerði hér um árið. Ég sé hana brosa bakvið tennurnar og kýs að þegja.

-Þetta fer allt einhvernvegin, en þrír flokkar af þeim sex sem nú sitja í bæjarstjórn þurrkast út. Og Guðríður verður formaður kennaranna. Það ætti að gleðja þig!

-Já, nei, nei, það gerir það svo sem ekki og þó, muldra ég en spyr svo. Hvað segir þú mér af veðrinu og náttúrunni?

-Nú spyrðu réttrar spurningar, það var mikið. segir Dollý og dæsir.

Ég nældi mér í hálsbólgu og komst ekkert út í dag. En af svölunum mínum um miðjan daginn blasti þetta við. Get ekki sagt að þetta hafi verið skemmtileg heimsókn í garðinn!

-Veðrið verður heldur hagstæðara í sumar en í fyrra, en við megum ekki gleyma því Íslendingar að hér geta veður orðið válynd með næstum engum fyrirvara. Því miður munu nokkrir fara flatt á þessu og mér sýnist að einhverjir muni verða úti á árinu 2014. Það er nokkuð sem á ekki að geta gerst nú um stundir, en þegar menn fara ekki varlega og jafnvel glæfralega þá getur þetta því miður orðið niðurstaðan. Náttúran tekur bara það sem henni er fært og ef menn gæta ekki að sér geta þeir endað bæði dauðir og náttúrulausir.

Dollý dæsir, rýnir í kristalskúluna sína, tekur vænan sopa af annarri flösku sem hún dró upp undan stofuborðinu og heldur síðan áfram.

-Menn eru ennþá að hafa áhyggjur af Kötlu gömlu, en hún lætur ekkert raska ró sinni. Allra síst spádóma um slíkt. Hins vegar verða hamfarir á stað sem ekki hefur verið þekktur fyrir slíkt hingað til og menn átta sig loksins á því að náttúran öll er ein heild. Ef eitt fer af stað þá hnikast allt til.

Íslendingar halda áfram að væla yfir veðrinu, en á meðan þeir dunda sér við það mun sólin brosa við þeim, það eina sem þeir þurfa að gera er að fara aðeins út fyrir þægindahringinn, já út fyrir bæinn og þá geta þeir notið einstakrar veðurblíðu. En við erum svo sjálfhverf að við getum ekki notið blíðunnar af því hún er ekki í bakgarðinum hjá okkur. Þessi þjóð er að verða náttúrulaus á svo marga vegu að mér stendur ógn af því.

Annars verða náttúruöflin frekar blíð við okkur á árinu 2014, það verður ekki of hlýtt og ekki of kalt, heldur eitthvað þar á milli og fólk mun fussa og sveia. Það verður enda uppselt í allar sólarlandaferðir á árinu og þó flugfélögunum fjölgi þá mun verðið ekki lækka, heldur hækka, enda er fólk tilbúið að greiða næstum því hvað sem er til að komast til fyrirheitna landsins, þar sem eilíf sól skín. Eins og slíkt land sé til!

Fræga fólkið í útlöndum

Enn sýpur Dollý á flöskunni, yglir sig en lítur svo blíðlega á mig með spurn í augunum.

-Hvað með fræga fólkið? Brad Pitt, George Clooney, Juliu Roberts, Angelinu
Jolie og félaga. Hvað með kvikmyndagerðarfólkið íslenska og útlenda?

Dollý skiptir um svip og hvæsir á mig.

Roberts Clooney-Hvurslags spurningaflóð er þetta eiginlega góða mín. George Clooney gengur loksins í hjónaband, með fjallmyndarlegum karlmanni og fellur í algjöra ónáð í Hollywood fyrir vikið. Hans tími er löngu liðinn og hann á sér ekki viðreisnar von. Julia Roberts mun hins vegar leika í bráðskemmtilegri mynd, sem átti að vera gríðarlega dýr en endar sem block buster ársin, fyrir sama og engan
pening.

Erlendir leikstjórar halda áfram að koma hingað til lands og gera myndir í íslenskri náttúru og við munum sjá enn fleiri fræga en nokkru sinni. Og líklega verður Kaffi París bókað langt framí tímann fyrir kvikmyndatöku.

Baltasar Kormákur heldur áfram að gera góða hluti í Hollywood og nýtur mikillar virðingar vegna þess að hann getur gert frábærar myndir fyrir lítinn pening. En Benedikt Erlingsson verður sá sem slær í gegn og mun hann fylgja eftir Hollywood endurgerð af myndinni Hross í Oss, sem mun hljóta heitið Only One Horse í henni Ameríku.

Það fjarar heldur undan tónlistarfólkinu okkar en þó mun Hjaltalín slá í gegn í Asíu og verður það ekki síst ljósa síða hárið hans Högna til þess að Asíubúar verða afskaplega mikið hugfangnir af hljómsveitinni.

Pólitíkin er allsstaðar eins

-En hvað með útlönd, pólitíkina þar?

Pólitíkin í útlöndum er ekkert öðruvísi frá pólitíkinni hér skal ég segja þér. Þar verða sviptingar og ég sé mikið ófriðarbál í Rússlandi og í Búlgaríu. Stjórnvöldum gengur illa að ráða við allskonar minnihlutahópa sem vaða uppi með leiðindum og dónaskap. Rússar munu hins vegar taka mjög fast á þeim sem ætla sér að raska ró þeirra sem sækja vetrar Ólympíuleikana og verða þeir gagnrýndir mjög fyrir óbilgirni og skepnuskap. Þeir munu ekki láta segjast og halda sinni ógeðfelldu stefnu. Fyrir vikið mun Alþjóða Ólympíunefndin sitja undir miklu ámæli fyrir gunguskap og munu allmargir háttsettir embættismenn innan IOC þurfa að segja af sér.

29. janúarÁ Norðurlöndunum verður líf og fjör. Í Danmörku mun eitt gríðarlega stórt hneyksli skekja þjóðina og í Svíþjóð verður farið að leita logandi ljósi að mikilli hetju til að taka við sem formaður í Demókrataflokknum. Leitin mun bera árangur og nýr framtíðarleiðtogi mun taka við. Það fylgir mikil gæfa þessari persónu og mun hún reynast okkur Íslendingum ákaflega vel.

-Hvað með íþróttirnar, sérðu eitthvað þar?

Dollý horfir á mig í smá stund, hún er hálf tóm til augnanna, lygnir þeim svo aftur og segir hægum róm.

-Auðvitað sé ég eitthvað þar. Þetta verður einstaklega dapurt íþróttaár hjá boltagreinunum hér heima. Engin stór afrek unnin í handbolta, fótbolta eða körfubolta. En einstaklingar í íþróttum munu vinna mörg afrek, sem ekki verður tekið vel eftir. Aníta mun ekki ná sér á strik í frjálsíþróttunum en það mun önnur ung stúlka gera og hún mun vekja gríðarlega mikla athygli almennings. Þá mun kraftlyftingamaður slá í gegn og verða í 2. eða 3. sæti í keppninni um sterkasta mann heims.

Þú gleðst þó yfir því að Arsenal verður meistari í Englandi.

Fjármálasnillingar finnast víða

Við vinnum líka í keppninni um Ungfrú heim og svo munum við eignast okkar fulltrúa á forsíðu Vouge. Gríðarlegt hneyksli kemur upp í kjölfar þess enda er ekkert ókeypis hér í þessum heimi.

-Hvað með fjármálasnillingana okkar, halda þeir áfram að slá í gegn?

-Fjármálasnillinga, huhhh … það eru nú meiri snillingarnir eða hitt þó heldur. En já auðvitað höldum við áfram að trúa því að við séum mest og best í fjármálum eins og áður. Núna fer mest af snilldinni fram innan veggja Kvíabryggju og þar verða haldin námskeið sem talsvert af þekktu fólki mun sækja. Já það munu í alvöru vera haldin námskeið í fjármálalæsi á Kvíabryggju hvort sem þú trúir því eða ekki. Annað eins hefur nú gerst!

Ég kinka kolli og samþykki það sem Dollý segir, enda er þetta sennilega ekki vitlausasta sýnin sem hún hefur fengið um ævina.

Hneykslismál innan dómstólanna

blint réttlæti-Það kemur upp eitthvert hneykslismál í tengslum við dómstólana hér en aldrei þessu vant munu Íslendingar vinna vel úr því máli, af skynsemi og yfirvegun þannig að eftir því verður tekið.

Davíð Oddsson lýkur loksins við að skrifa bókina góðu og mun hann þar svara Össuri Skarphéðinssyni og Steingrími Sigfússyni fullum hálsi. Þá verður hann óvenju vondur við konur – en það munu ekki vera ný tíðindi.

Sátt mun nást um nýjan landspítala en síðan mun málið koðna niður og enn verður notast við úreltar og löngu úr sér gengnar byggingar um a.m.k. einn áratug. Merkilegt að stjórnmálamenn skuli alltaf þurfa að þrasa um smáatriði en ná ekki sátt um það sem máli skiptir. En við erum smásálir – segi það enn og aftur við erum smásálir.

Íslendingar tæknilegri en fyrr

Umferðarslysum mun fækka á ný og löggjöf gagnvart ölvunar- og hraðaakstri verður hert. Það er gott enda eitt af fáum málum sem algjör samstaða mun nást um innan Alþingis.

Ríkisútvarpið mun ganga í endurnýjun lífdaga og sífellt fleiri fara að stilla inná Rás 1 til að sýna fólkinu þar samstöðu. Stjórn RUV mun sjá að menningarhlutverk útvarpsins er vanmetið og bæta í fjárveitingu til stöðvarinnar.

Íslendingar verða tæknilegri með hverjum deginum sem líður og mörg fyrirtæki á sviði hugbúnaðar munu ná nýjum hæðum á árinu. Þetta verður til þess að enn á ný mun þjóðin ofmetnast og telja sig besta í heimi, a.m.k. miðað við höfðatölu. Sumt breytist aldrei.

Hvað með mig?

Ég sé að spólan í tækinu er farin að styttast í annan endann og ætla að biðja Dollý um að hinkra aðeins en þá verður mér litið framan í hana og sé ég að augnlokin eru farin að þyngjast. Ég flýti mér því að spyrja hana síðustu spurningarinnar.

-Sérðu eitthvað af mínum högum?

-Já ég átti eftir að segja þér það að árið byrjar vel, þú gengur í gegnum mikla hreinsun og uppskerð eins og þú sáir. Þú finnur frið í sálinni og gæfan verður þér hliðholl. En farðu þér hægt mín kæra – það er auðvelt að brenna út ef þú ætlar þér of stóra hluti. Ekki taka of mikið inná þig og mundu að brosa á hverjum degi. Þú þarft að takast á við nýjar áskoranir og taka áhættu í lífinu. Það skilar árangri á endanum. Blessi þig elskan mín!

Hér slokknar hreinlega á vinkonu minni og ég geri það sem ég gert svo oft áður, ég styð hana inní rúm, slekk á kertunum og læsi á eftir mér þegar ég geng út í náttmyrkrið.

-Blessi þig Dollý mín og takk fyrir kvöldið.

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu