Himnasalir

-í takt við Kópavog-

Hátt – hátt
uppí skýja geymum
rísa himnasalir.

Háreist hús
hallir – kot
höfðingleg slot
og ekki.

Milli húsa liggja
breiðgötur
mjógötur
og stöku öngstræti.

Húsin eru hvítmáluð
í bólstruðum röðum
óreglulegum
aldrei beinum.

Á einu horninu hefur
framtakssamur maður
opnað sérverslun.

Á hverjum degi koma til hans
hvítklæddir viðskiptavinir
þeir heilsa
með vonarglampa í augum
vissir um góð kaup.

Í hvítum hillum
eru skínandi fjaðrir
gullslegnir geislabaugar
og vandaðar hörpur í stíl.

Gjaldmiðlinum er jafnt skipt
milli viðskiptavina
þeir bera hann með sér
hvert sem þeir fara.

Hann er í hjarta þeirra sem
kærleikur, bjartsýni
von og trú fyrir framtíðina.

Og í huga þeirra sem
minningar,
uppgjör við fortíðina.

Kaupmaðurinn
þiggur sitt lítið af hvoru
fyrir vörur sínar
og gefur til baka með brosi á vör.

Þetta ljóð er samið um borð í flugvél á leiðinni heim úr einhverri ferðinni sem ég fór á árinu 2002, örugglega með einhverju landsliðinu! Ég sendi það inní keppnina Ljóðstafur Jóns úr Vör, sem er ljóðasamkeppni sem Kópavogsbær efnir til en þeim leist ekkert á þetta. Hvað um það. Mér finnst ljóðið gott!

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu