Sérlega góð kjöt og kartöflusúpa
Ég rakst á þennan tengil um daginn. Þarna er myndband af því hverig búa má til úrvalssúpu úr hamborgarahrygg og kartöflum. Mér leist ákaflega vel á uppskriftina og ákvað að slá til. Ástæðan var einföld, ég átti til allt nema kjötið í súpuna. Það fékk ég í Iceland, niðursneiddur hamborgarhryggur sem kostaði 600 krónur og mér sýnist að dugi í súpu fyrir 8 til 10 manns.
Ég notaði eftirfarandi hráefni í súpuna sem dugði mér í tvær máltíðir:
- 1 laukur (frekar lítill)
- 2 gulrætur
- 1 sellerístöngull
- 3 meðalstórar kartöflur
- 2 hvítlauksgeirar (hefði dugað 1 því þessir voru dálítið sterkir)
- 2 kjúklingateningar
- 3 sneiðar af hamborgarahrygg
- Salt, pipar og chilli duft
- Ólífuolía
Ég byrjaði á því að brytja grænmetið niður í álíka stóra bita (frekar smátt samt) og “svissa” í góðum potti með ólífuolíunni (ca. 2 matskeiðar), leyfði þessu að malla í ca. 10 mínútur meðan ég brytjaði kjötið og flysjaði kartöflur sem ég skar niður í álíka stóra bita
Þá setti ég hvítlaukinn í pottinn, hefði átt að nota aðeins annan geirann því þessi laukur var ekki nógu ferskur og varð á köflum dálítið ráðandi í súpunni og svo kjötið. Leyfði þessu aðeins að rífa sig og bætti þá í vatni ásamt 1 kjúklingateningi frá Knorr en mér fannst bragðið ekki nógu kröftugt þannig ég bætti öðrum tengini og meira vatni út í súpuna.
Loks setti ég kartöflurnar út í og leyfði þessu að malla við hægan hita í um 15 mínútur. Kryddaði að smekk og stappaði þetta síðan með kartöflustöppu.
Í stuttu máli – frábær og einföld súpa sem hlýjar vel á köldum kvöldum.