Í minningu vinar – Friðjón Fannar Hermannsson
Í hverfulleika lífsins, hvergi finn ég skjól
hamingjan er ekki öllum gefin.
Því hugsa ég um ljósið er leggst ég í mitt ból
hvort lýsi það að morgni, þar er efinn.
Í dag fékk ég fréttir af óvæntu fráfalli vinar míns Friðjóns Fannars Hermannssonar. Hann var einn af strákunum mínum í Ekkó. Fjörmikill drengur, stuttur í annan endann en þeir voru svo sem fleiri þannig í þessum hópi. Hjálpsamur var hann og duglegur, enda skáti og félagsmálatröll hið mesta. Strax þarna, þegar hann er 13-15 ára gamall var ljóst að hann yrði, er hann yxi úr grasi, drengur góður eins og sagt er í Íslendingasögunum.
Friðjón var alltaf kankvís við gamla leiðbeinandann sinn úr Ekkó og Þinghól. Við hittumst gjarnan á vellinum, eitilharðir Blikar bæði tvö, og þó það liðu mánuðir og jafnvel ár var alltaf stutt í brosið, knúsið og krafturinn sá sami og í Ekkó forðum.
Friðjón er einn þeirra sem skilur eftir sig margar góðar og ljúfar minningar. Hans verður sárt saknað.