Sætbakaðir lambaskankar (lambaleggir)
Eins og þið vitið sjálfsagt þá var ég svo heppin að vinna 15 kg. af frábæru lambakjöti á FB í desember. Ég er vitaskuld óskaplega þakklát þeim á www.lambakjot.is fyrir að velja mig og ég lofaði að gefa þeim uppskriftir að lambakjöti sem ég elda og heppnast vel.
Í kvöld bauð ég uppá sætbakaða lambaskanka og ég verð að segja að þeir heppnuðust frábærlega vel. Ég byrjaði á því að leita eftir uppskriftum á netinu og fann m.a. tvær slíkar á lambakjot.is, ég las þær yfir og gerði síðan mína útgáfu sem fylgir hér með og er fyrir tvo.
Innihald
- 2 lambaleggir
- 1 laukur
- 1 sellerístöngull
- 1/2 sellerírót
- 1 hvítlauksrif
- 8 döðlur, steinlausar
- 1 ds. tómatpúrré
- 1 lambateningur
- 1/2 vatn
- salt
- pipar
- hveiti
- olía til steikingar
Ég byrjaði á því að dusta smá hveiti á lambaleggina, þá brúnaði ég þá við háan hita í þykkbotna potti í smjöri og ólífuolíu, saltaði og pipraði. Þá tók ég leggina/skankana og lagði þá til hliðar. Lækkaði hitann á hellunni og saxaði allt grænmetið frekar gróft og steikti í pottinum. Bætti smá salti og pipar saman við og setti í einn lambatening. Þá opnaði ég eina litla dós af tómatpúrré og bætti við. Setti ca 1/2 lítra af vatni saman við og sauð í smástund.
Ég á tanginu frá Emile Henry og notaði hana í þetta sinn, en í raun má setja leggina í hvaða eldfasta mót sem er ef það er gott lok á því. Þegar ég var búin að smakka sósuna til með salti og pipar leyfði ég henni að sjóða smá stund og hellti henni síðan yfir leggina (sem voru tveir í mínu tilviki), bætti döðlunum saman við og setti í ofn sem var við ca 150-175 gráður. Þessu leyfði ég að malla í ca. 2 klst.
Þetta bar ég fram í tangine-unni og gerði kartöflumús með. Dásamlegt!