Grænmetisréttur sem er ekkert grín
Vá maður hvað ég eldaði góðan mat í kvöld. Fyrir viku síðan sagði Rut Steinsen, vinnufélagi minn og handboltasnillingur, mér frá geggjuðum grænmetisrétti sem hún hafði eldað. Í hann notaði hún eggaldin, kúrbít, tómata, hvítlauk, papriku, sveppi og lauk. Ég gat að sjálfsögðu ekki farið eftir þessu og gerði eftirfarandi:
- eggaldin
- brokkolí
- gulrót
- rauð paprika
- sellerí
- hvítlaukur
- ólífuolía
- hvítlauksolía frá Pottgöldrum
- parmessan ostur
- salt
- pipar
- túrmerik (já nota það í allt þessa dagana)
Ég sneiddi eggaldinið niður langsum eftir ávextinum, brytjaði brokkolí og skar papriku (sem ég hafði reyndar grillað í ofninum áður og flett húðinni ofanaf), gulrót og sellerí í frekar þunnar sneiðar. Tók eitt hvítlauksrif, marði það og sneiddi niður. Þetta setti ég í ofnfast mót og staflaði hverju ofan á annað, en þegar ég sá að það virkaði ekki þá tók ég ofnfasta mótið úr ofninum, setti bökunarpappír í ofnskúffu og dreifði úr þessu þannig að á hverri sneið af eggaldin var smátterí af öllu hinu.
Ofaná þetta setti ég ólífuolíu og hvítlauksolíu, salt, pipar og túrmerik og bakaði í ofninum við 180 gráður í um 45 mínútur. Þá tók ég þetta aftur úr ofninum sneiddi parmessanost ofaná og bakaði aftur í 10-15 mínútur eða þar til osturinn var bráðinn.
Ok, ég svindlaði smá og henti einu kebabbuffi, sem ég átti frosið, inní ofninn með þessu og borðaði með. En það þarf þó alls ekki.
Geggjað gott – og óendanlega heilbrigt!