Smjörsteiktur þorskur með grænmeti

Ég kom heim í gærkvöldi eftir vikudvöl á Tenerife. Hjá mér er það yfirleitt þannig að mig þyrstir í fisk eftir heimsókn til annarra landa og var dagurinn í dag engin undantekning. Í frystiskápnum mínum átti ég tvö stykki af þorski og kippti ég þeim út og setti í ísskápinn áður en ég fór í vinnuna í morgun. Var hann því þiðinn og fínn þegar ég kom heim eftir vinnu í kvöld. Á meðan ég var að ákveða hvað ég ætlaði að gera við fiskinn heyrði ég í Binnu systur minni og hún benti mér á að velta fiskinum uppúr hveiti og smjörsteikja á pönnu. Mér leist strax vel á það og úr varð að ég gerði þennan dýrindis góða og mátulega holla fiskrétt.

Smjörsteiktur þorskur

Innihald:

  • þorskur eða annar mjög góður fiskur
  • smjör (ósaltað)
  • hveiti
  • salt
  • pipar
  • hvítkál, gulrætur eða einhvert annað gott grænmeti.

Aðferð:

Skerðu niður grænmetið og settu í sjóðandi vatn – það er gott að salta vatnið smávegis en engin nauðsyn.

Veltu þorskinum uppúr hveitinu (ekki hafa of mikið hveiti á fiskinum en þó þannig að eitthvað sitji eftir á fiskbitunum). Bræddu smjör á pönnu og steiktu fiskinn á annarri hliðinni, kryddaðu hina með salti og pipar. Þegar þú snýrð fiskinum skaltu salta og pipra aftur (ekki of mikið samt) og ausa svo jafnt og þétt yfir fiskinn þar til hann er gegnsteiktur. Gættu þess bara að hafa hitann á pönnunni ekki of háan, þá brennur bæði smjörið og fiskurinn og það viljum við ekki.

Sigtaðu vatnið frá hvítkálinu og gulrótunum (grænmetinu) og settu á disk. Legðu fiskbitana þar ofaná og berðu fram með rúgbrauði.

Verulega gott – hollt og gott.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu