Grillað lambafillet með dásemdar salati
Í gærkvöldi hitti ég vinkonur mínar Ástu B. og Dísu í Hárný. Tilgangur hittingsins var að horfa á landsleikinn hjá strákunum en svo gleymdum við okkur við mat og drykk.
Ég tók svo fína mynd af matnum á símann minn að ég varð að skrifa niður “uppskriftina” en samt er þetta eiginlega ekki alveg uppskrift. Meira svona hugleiðing.
Þannig var að ég hef margoft fylgst með matreiðsluþáttum, lesið matreiðslubækur og flett upp uppskriftum á netinu. Alltaf öðru hvoru hef ég rekist á uppskriftir þar sem búið er til dásemdar salat og svo er kjöt borið fram með salatinu, ýmist í salatskálinni sjálfri eða til hliðar. Í gær langaði mig í svona mat.
Ég kom við í Krónunni á leiðinni til Ástu og keypti:
- Lambafillet
- Spínat
- Rúkóla salat
- Jarðaber
- Bláber
- Papriku, rauða
Heima hjá Ástu var til ýmislegt fleira í salatið, s.s. kasjúhnetur og svo auðvitað krydd og olía og hún galdraði fram dýrindis marineringu á kjötið sem ég held að hafi að mestu innihaldið hvítlauk og ólívuolíu og svo auðvitað allskonar krydd. Við nýttum marineringuna líka á salatið sem dressingu og það var algjör snilld.
Hér að neðan má sjá mynd af dásemdinni – þetta var hrikalega gott!