Saltfiskur frá Apótekinu
Tipphópurinn Til Sigurs hittist heima hjá Ástu B (hvar annarsstaðar) eitthvert skiptið og gladdist saman (ekki þó yfir góðum árangri í tippinu – engin ástæða hafði gefist til þess) og bar húsfreyjan með dyggri aðstoð Sigfríðar fram þennan líka dýrindis saltfiskrétt. Hann lifir svo í minningunni að mér fannst tilvalið að fá uppskriftina hjá Siffu og leyfi mér að setja hingað inn til varðveislu og aðgengis. Uppskriftin er frá veitingastaðnum Apótekinu og birtist í gömlu Gestgjafablaði.
Saltfiskur með kardimommusósu, kartöflumús og beikoni
- 700 gr. vel útvatnaður saltfiskur
- svartur pipar, nýmalaður
- ólífuolía til steikingar
- 8-12 vorlaukar
Kryddið saltfiskinn með nýmöluðum svörtum pipar. Steikið hann í ólífuolíu á pönnu þar til hann er orðinn fallega gulllitaður og setjið hann síðan inn í ofn í nokkrar mínútur þangað til hann er eldaður í gegn. Hreinsið vorlaukinn og blancherið hann (skellið í sjóðandi heitt vatn í smástunnd) í saltvatni í 40 sekúndur. Steikið hann síðan í svolitla stund á pönnu.
Kartöflur og beikon:
- 4 stórar bökunarkartöflur
- 8-9 sneiðar beikon
- u.þ.b. 1 dl. rjómi
- væn klípa af smjöri
- salt og svartur pipar
Bakið kartöflurnar í ofni við 180°C í 1 klst. Saxið helminginn af beikokninu smátt og steikið það í potti þangað til það er orðið stökkt. Myljið beikonið. Takið kýðið af kartöflunum, maukið þær og setjið í pottinn með beikoninu. Setjið væna rjómaslettu og smjörklípu út í, hrærið þessu öllu vel saman og kryddið með salti og svörtum pipar.
Þurrkað beikon:
Takið 4 beikonsneiðar og leggið þær á smjörpappír. Bakið í ofni við 160°C þar til það er orðið stökkt. Þerrið á pappír.
Kardimommusósa:
- 1 hvítlauksrif
- 1 skalottulaukur
- smjör til steikingar
- 1 msk. kardimommur heilar,
- 2 dl. hvítvín
- 6 dl kjúklingasoð (eða soðið vatn og teningar)
- 60 gr. ósaltað smjör, kalt
Saxið hvítlauk og skalottulauk smátt og svissið (steikið við háan hita í stuttan tíma án þess að brúnist) í potti. Setjið kardimommur og hvítvín útí, látið suðuna koma upp og sjóðið niður um 2/3. Bætið kjúklingasoðinu út í og sjóðið niður um helming. Hrærið að endingu köldu smjöri saman við.
Jarðsveppaolía:
- u.þ.b. 1 dl grænmetisolía
- 1 jarðsveppur (truffla)
Rífið eða saxið jarðsveppinn smátt. Setjið hann út í grænmetisolíu og örlítið salt saman við.
Raðið til dæmis á diskinn á eftirfarandi hátt:
Setjið kartöflumúsina á miðjan diskinn og saltfiskstykki þar ofaná. Hellið sósu í kring, stingið einni beikonsneið lóðrétt ofan í fiskinn og dreypið jarðsveppaolíu á diskinn meðfram matnum.