“Svefnbærinn” Kópavogur

“Svefnbærinn” Kópavogur?

Við Kópavogsbúar höfum löngum mátt sætta okkur við það að bærinn okkar hefur verið kallaður “svefnbær”, og að íbúar hans sækja flesta sína þjónustu og starfsemi út fyrir bæinn. Þannig hafa þeir talað sem ekki þekkja, en við sem hér búum vitum að Kópavogur er bær sem er fullur af lífi. Meðal þeirra sem hafa lagt sitt af mörkum við það að móta þennan bæ er Rannveig Guðmundsdóttir, félagsmálaráðherra.

Rannveig ­ sannur Kópavogsbúi!

Rannveig er sannur Kópavogsbúi. Hún áttil lengi sæti í félagsmálaráði Kópavogs og í bæjarstjórn. Hún hefur jafnan borið hag þess bæjarfélags fyrir brjósti og það var Kópavogsbúum mikið fagnaðarefni þegar hún tók sæti á þingi. Þá þótti mörgum tími til kominn að Kópavogur ætti fulltrúa á Alþingi Íslendinga.

Rannveig ­ ráðherra

Nú á haustdögum tók Rannveig að sér það erfiða verkefni að taka við ráðherrastól í félagsmálaráðuneytinu. Það var eftir erfiða tíma hjá Alþýðuflokknum og þá sérstaklega hér í Reykjaneskjördæmi. Á sínum stutta valdatíma í ráðuneytinu hefur Rannveig sýnt það og sannað að hún er þess fullmegnug að takast á við þá miklu ábyrgð sem því fylgir að sitja á ráðherrastól. M.a. tókst henni að leysa þá erfiðu deilu sem var á milli sveitarfélaganna og ríkisins um 600 milljóna króna greiðslu til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þetta var deila sem sem margir töldu einungis leysta með valdboði ríkisins á hendur sveitarfélögunum.

Rannveig er góður kostur!

Í prófkjörinu 21. til 22. janúar nk. eiga Kópavogsbúar góðan kost. Eftir Georg Washington er haft að heiðarleikinn væri ekki aðeins það besta, heldur það eina rétta í pólitík. Þau sannindi hefur Rannveig Guðmundsdóttur, félagsmálaráðherra, haft að leiðarljósi á sínum langa ferli í íslenskum stjórnmálum. Kópavogsbúar og aðrir Reyknesingar, styðjum Rannveigu í fyrsta sætið á lista Alþýðuflokksins ­ Jafnaðarmannaflokks Íslands fyrir alþingiskosningarnar á komandi vori!

Höfundur er skjalavörður.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. janúar 1995

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu