Atvinnumálin í öndvegi

Atvinnumálin í öndvegi Bæjaryfirvöld í Kópavogi þurfa nú þegar, að mati Ingibjargar Hinriksdóttur, að koma upp miðstöð fyrir atvinnulausa. “ATVINNULEYSI er minnst í Kópavogi af stóru sveitarfélögunum,” sagði Gunnar Birgisson, formaður bæjarráðs Kópavogs, á opnum framboðsfundi í Þinghólsskóla 16. maí sl. Með þessum orðum er hann sennilega að vísa til þess að mikið hafi verið gert í atvinnumálum í Kópavogi á síðasta kjörtímabili. En er það svo?

Staðreyndin er sú að það hefur ekkert verið gert í atvinnuskapandi verkefnum í Kópavogi. Ársreikningar Kópavogskaupstaðar sýna svo ekki verður um villst að framlag bæjarins til atvinnumála hefur ekki verið neitt. Á sama tíma hafa bæjarfélög eins og Hafnarfjörður og Akureyri farið af stað með stórátök í málefnum atvinnulausra.

A-listi jafnaðarmanna leggur mikla áherslu á að Kópavogskaupstaður komi til móts við atvinnulausa, m.a. með því að aðstoða fyrirtæki við vöruþróun og markaðssetningu framleiðsluvara sinna. Með því skapast fleiri varanleg atvinnutækifæri í bænum og atvinnuleysi minnkar.

Jafnaðarmenn í Kópavogi leggja einnig á það mikla áherslu að nú þegar verði gripið til úrræða fyrir atvinnulausa einstaklinga í bænum. Það er alveg ljóst að það er ekkert kappsmál fyrir atvinnulausa að búa í því bæjarfélagi þar sem atvinnuleysi er mikið eða lítið. Sú staðreynd er þeim lítil sáluhjálp. Bæjaryfirvöld þurfa að koma nú þegar á fót miðstöð fyrir atvinnulausa, þar sem áhersla er lögð á að skapa þeim aðstæður til að vinna að hugðarefnum sínum, t.d. smíðum, saumum eða öðru handverki. Þar verði atvinnulausum jafnframt sköpuð aðstaða til að leita sér að vinnu. Það er nefnilega staðreynd að margir atvinnulausir einstaklingar hafa ekki efni á að kaupa dagblöðin eða hringja í fyrirtæki til að spyrja fyrir um vinnu, hvað þá að ferðast um og fara í viðtöl. Þessir einstaklingar eiga það inni hjá samfélaginu að þeim sé hjálpað, ekki á morgun eða næsta dag, þessi aðstoð þarf að skapast í dag. Á það leggur A-listi jafnaðarmanna í Kópavogi áherslu.

Félagsmál unglinga í ólestri

Félagsmál unglinga hafa mikið verið í umræðunni í Kópavogi, ekki síst vegna þess að einungis ein félagsmiðstöð er starfandi í bænum. Sú félagsmiðstöð er staðsett í Þinghólsskóla, í Vesturbæ Kópavogs, og var komið á fót í tíð síðasta meirihluta.

Það efast enginn um mikilvægi þess að búa vel að unglingum í Kópavogi. Mikilvægi félagsmiðstöðva og útideildar sem forvarnar gegn vímuefnanotkun og afbrotum unglinga er gríðarlegt. Þess vegna leggja jafnaðarmenn áherslu á að félagsmál unglinga hafi forgang á komandi kjörtímabili. Það þarf að endurvekja starf útideildar, sem lögð var niður af núverandi meirihluta, og koma á fót félagsmiðstöðvum í öllum grunnskólunum, sem hafa 6.­10. bekk. Jafnframt þarf að koma á fót félagsmiðstöð miðsvæðis í bænum og er þá hús Krossins í Auðbrekku, sem bærinn er nýbúinn að festa kaup á álitlegur kostur.

Það þarf að tryggja það að forvarnarstarf gegn vímuefnum og afbrotum unglinga sé öflugt í Kópavogi. Á það leggur A-listi jafnaðarmanna í Kópavogi áherslu.

Höfundur skipar 5. sætið á A-lista í Kópavogi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. maí 1994

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu