Saltkjöt og baunir
Í allmörg ár hef ég boðið systkinum mínum og börnum þeirra til mín í saltkjöt og baunir á sprengidag. Er þetta nú orðið að hefð sem ég hef ekki í hyggju að láta af.
Ég bý nú aðeins í 3ja herbergja íbúð en samt hafa 20-30 manns rúmast þar ágætlega enda má segja að einskonar vaktaskipti eigi sér stað, sumir koma snemma og aðrir seinna. Við samnýtum diska og svo er bara vaskað upp þegar hver og einn hefur lokið sér af. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi!
Ég beiti ósköp hefðbundnum aðferðum við að útbúa saltkjötið og baunasúpuna. Sýð 2-3 feita bita í súpunni og bæti soði úr kjötpottinum í súpuna til að gefa henni kraft. Alltaf set ég 2 -3 lauka í súpuna og er jafnvel farin að setja þá heila útí enda er súpan soðin svo lengi hjá mér að þeir leysast upp í öreindir sínar.
Það má kannski segja að sérstaða mín í þessum rétti felist í því að ég mauksýð kjötið þannig að það beinlínis dettur af beinunum. Beikon nota ég sparlega, mér finnst það ekki nauðsyn og það er ekki stórmál ef ég gleymi að setja það með í innkaupakörfuna.
Baunirnar er ég löngu hætt að leggja í bleyti. Þær fá langan suðutíma eins og allt annað (3-4 tíma) og eftir um 2ja tíma suðu stappa ég þær í pottinum með kartöflustappara og leysi þær þannig upp.
Í ár koma 23 í mat til mín. Ég keypti rúm sjö kíló af kjöti, þar af vel af síðubitum sem við systur elskum, 3 poka af baunum, 3 lauka og pakka af beikoni. Ég er ekki viss um hvort ég nota allar baunirnar en ég nota líklega bara 2 lauka og hluta af beikoninu.
Myndir koma inn síðar.