Chilli pottréttur
Ég hef alla tíð verið verið hrifin af mat sem er eldaður í einum potti. En til þessa hef ég aldrei búið til chilli. Í kvöld varð breyting þar á – ég lét mig hafa það að skella í minn eigin frumlega chilli rétt og niðurstaðan var mér sannarlega að skapi.
Eftirfarandi er um það bil það sem þarf í réttinn og ég myndi halda að þetta dygði fyrir 4-5.
- Nautahakk (1 pk)
- Kjúklingabaunir (1 dós)
- Gulrætur, sneiddar (4 stk)
- Sellerí, sneiddur (1-2 stönglar)
- Rauðlaukur, smátt sneiddur (1 stk)
- Hvítur laukur, smátt sneiddur (1 stk)
- Hvítlaukur, smátt sneiddur (4 rif)
- Chilli pipar, smátt sneiddur (2 stk)
- Taco krydd í pakka (ég notaði reykt chilli og hvítlauk)
- Tómat púrré (1 dós)
- Ólífuolía eða Isio 4
- Vatn
Laukurinn (allar tegundirnar) er sneiddur niður og mýktur í olíu í þykkbotna potti. Þá er kjötið sett útí og steikt með lauknum í ca. 5 mínútur áður en gulrætur, sellerí og chilli piparinn bætist við. Kjúklingabaunirnar eru skolaðar úr köldu vatni og settar útí pottinn. Því næst er kryddið sett útí en þá þykknar rétturinn og þá kemur vatnið sterkt inn. Þynnið réttinn þar til hann hefur náð þeirri þykkt sem þér finnst æskileg. Að lokum er tómat púrré sett útí pottinn og blandað vel saman við. Þetta er síðan látið malla í um 5-10 mínútur áður en það er borið fram með taco skeljum og sýrðum rjóma.
Verði þér að góðu.