Perlubygg með kjúklingi

Er það ekki akkúrat núna, um áramót, sem hollustan ræður ríkjum? Það er þannig í mínu tilfelli og ekki bara það, ég reyni yfirleitt að standa við hollustueiðinn og helst árið um kring.

Í dag rétt skrapp ég heim eftir vinnu og náði þá að taka tvö úrbeinuð kjúklingalæri úr frystinum hjá mér. Þá fór ég í hugleiðslu og kom ég heim sársvöng rétt fyrir 20:30. Ég gaf mér því ekki langan tíma til að elda en lærin voru þiðin og tilbúin til eldunar. Það var því ekki um annað að ræða en gera eitthvað gáfulegt úr þeim.

Ég ákvað að sjóða kjúlingalærin og ætlaði að setja kjúklingatening í pott en komst þá að því að ég átti ekki kjúklingatenging þannig að grænmetisteningur varð að duga. Lærin fóru í pottinn en þá fyrst fór ég að spá í hvað ég ætti að hafa með þeim. Ég mundi þá eftir dásamlegu perlubyggi sem ég keypti á matarmarkaði í Hörpu í sumar og ákvað að sjóða mér lítinn skammt af þeim. Eitthvað varð ég að hafa með og það eina sem mér datt í hug var að brytja gulrót smátt og setti í pottinn með bygginu þegar þau höfðu soðið í um 10 mínútur, en þau þurfa 15 mínútna suðutíma.

Í restina tók ég kjúklinginn úr soðinu, brytjaði hann smátt, bætti útí byggið og færði yfir í skál. Eitthvað fannst mér þetta bragðlítið þannig að ég greip krydd úr hillunni, aromat (ég veit ekki það hollasta sem til er) og bragðbætti réttinn.

Ljómandi gott fannst mér – já ljómandi bara.

Perlubygg

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu