Sóley Stefánsdóttir – minning
Viðhorf
Þú segir: Á hverjum degi
styttist tíminn
sem við eigum eftir
Skref fyrir skref
færumst við nær
dauðanum
– en ég þræði dagana
eins og skínandi perlur
upp á óslitinn
silfurþráðinn
Á hverju kvöldi
hvísla ég glöð
út í myrkrið:
Enn hefur líf mitt
lengst um heilan dag.
Vilborg Dagbjartsdóttir (Síðdegi, 2010)
Þá hefur hún Sóley okkar þrætt síðustu perluna upp á silfurþráðinn sinn. Eftir situr stórfjölskyldan og vinafjöld sem sakna og minnast einstakrar konu sem vann alla á sitt band með kærleika og góðmennsku. Sóley var auk þess einstaklega skemmtileg kona, hún kom jafnt fram við alla, unga sem aldna, ríka sem fátæka og hvar sem menn stóðu í ímynduðum virðingarstiga samfélagsins.
Við sem þekktum Sóleyju vorum sérlega heppin að hafa kynnst henni og fengið að fylgja henni um stund. Hjá mörgum var hún fyrst konan hans Guðmundar Oddssonar. En það tók ekki langa viðkynningu þar til við áttuðum okkur á að Guðmundur var mikið fremur maðurinn hennar Sóleyjar. Hún var sú sem hélt föstu taki í silfurþræðina þeirra og saman þræddu þau perlur sína og dætranna upp á órofa bandið. Nú hefur einn þráðurinn í samofnu bandinu þeirra slitnað.
Sóley var meðlimur í tipphópnum Til sigurs sem hittist á hverjum laugardagsmorgni í Smáranum til spjalla og tippa á leiki í enska boltanum. Við viðurkenndum strax að enski boltinn var aukaatriði og megnið af vikulegu gjaldi fór í að efna til árshátíðar hópsins. En við fengum samt einu sinni 12 rétta og kættumst mjög.
Sóley var einnig meðlimur í kvennasveitinni Pigerne sem starfaði innan Breiðabliks á gullaldarárum meistaraflokks kvenna undir síðustu aldamótum og fékk þá mjög svo viðeigandi nafn „Sóley Søde“. Hún spilaði á gítar og var mjög músíkölsk, nokkuð ólíkt flestum öðrum meðlimum bandsins.
Það var þungbært að frétta af andláti Sóleyjar sem hafði barist af einstöku æðruleysi við sjúkdóm sinn síðustu fjögur ár. Tipphópurinn Til sigurs og kvennasveitin Pigerne senda Guðmundi, Stellu, Sigrúnu, Sunnu og fjölskyldum þeirra sínar dýpstu samúðarkveðjur. Minning Sóleyjar mun lifa með okkur öllum um ókomna tíð.
Ingibjörg Hinriksdóttir
Útför Sóleyjar fer fram frá Lindakirkju mánudaginn 16. september 2024 kl. 15:00.
Tipphópurinn á ýmsum tímum
Hér fyrir neðan eru tvö myndbönd þar sem Sóley okkar er auðvitað hrókur alls fagnaðar – ekkert að troða sér fram samt sko!