Það kemur leikur eftir þennan leik

Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með þeim viðbrögðum sem verið hafa við ágætum pistli Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu.

Í pistlinum fer Kolbrún fáeinum orðum um viðbrögð vinnufélaga sinna við þeim tíðindum að knattspyrnustjóri Manchester United ætli sjálfviljugur að taka pokann sinn og leggja skóna á hina margfrægu hillu.

Sjálf er ég mikil áhugakona um knattspyrnu en ég hef fyrir löngu gert mér grein fyrir því að knattspyrna er bara leikur. Félagið mitt heitir Breiðablik og ég hef mikinn áhuga á því að félaginu mínu gangi sem best í öllum leikjum og hjá öllum flokkum. Þar liggur mín ástríða.

Eina skiptið sem ég hef farið að vola vegna gengis míns liðs er þegar strákarnir urðu bikarmeistarar í fyrsta sinn, árið 2009, þá réði ég ekki við tilfinningarnar mínar og grét eins og smákrakki. Ég hefði sennilega orðið fúl út í Kolbrúnu ef hún hefði skrifað svona pistil um þessa viðkvæmni mína, þannig að kannski skil ég þessar miklu tilfinningar sem blómstruðu í Hádegismóum daginn sem skoski framkvæmdastjórinn tilkynnti um að hann ætlaði að setjast í helgan stein.

Samt ekki. Ég skil ekki að menn missi sig í “söknuði” yfir því að einn maður láti af störfum, fyrir aldurs sakir, hjá einhverju knattspyrnuliði í Englandi. Ég get alveg skilið að menn sýni Alex Ferguson virðingu og þakki honum fyrir vel unnin störf, en að breytast í “vælandi hjörð” – það er fulllangt gengið. Kannski er það nefnilega svo að þeir sem hæst hrína búi einmitt í “þröngum hugmyndaheimi” og hafi “takmarkað ímyndunarafl og láta eins og knattspyrna sé upphaf og endir alls”.

Krakkar mínir, munið að það kemur leikur eftir þennan leik. Knattspyrna er leikur, bráðskemmtilegur leikur, en upphaf og endir alls – ég held ekki.

Pistillinn birtist á www.fotbolti.net 14. maí 2013.

Blikar1979

Þessar fjórar; Jónína Kristjánsdóttir, Ásta María Reynisdóttir, Erla Rafnsdóttir og Ásta B. Gunnlaugsdóttir, voru tilbúnar í leik árið 1979 – síðan þá hafa verið spilaðir margir leikir og knattspyrnustjórarnir hjá Blikunum hafa komið og farið.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu