Tignarleg höfuðborg
Sigling til Gozo og Comino
Fyrir þá sem vilja ekki vera þar sem allir aðrir eru er tilvalið að fara í siglingu til Gozo og Comino. Enn sem komið er hefur ferðamennskan ekki sett svip sinn að neinu ráði á eyjarnar en þó hafa heyrst kvartanir frá Maltverjum um að Gozo sé að verða fullmikill ferðamannabær. Höfuðborg Möltu, Valletta, er tignarleg. Hún er fyrsta skipulagða borg Evrópu en gamla höfuðborgin, Mdina sem einnig gengur undir nafninu “Hljóða borgin”, var flutt af miðri eyjunni niður til strandar á miðri sextándu öld. Var hún skipulögð og byggð af riddurum hinnar heilögu reglu St. Johns en hentugra þótti að verja eyjuna við ströndina en inni í landi þar sem höfuðborgin hafði verið til þess tíma.
Kristaltær sjór
Áhugafólk um köfun ætti að finna eitthvað við sitt hæfi á Möltu, þar er sjórinn víðast hvar kristaltær og er tilvalið fyrir byrjendur og lengra komna að reyna með sér í Miðjarðarhafinu, úti fyrir ströndum Möltu.Á Möltu, sem hlaut sjálfstæði frá Breska heimsveldinu árið 1964, er að finna fjöldann allan af enskuskólum enda er enska annað tveggja opinberra tungumála sem talað er á Möltu. Hitt er maltverska, sem er einhvers konar afbrigði af arabísku.
Verðlag á matvöru er afar hagstætt á Möltu og auðvelt er að finna ýmis klæði og skó sem eru á hagstæðara verðlagi en á Íslandi.
Fjölmargir góðir veitingastaðir eru á Möltu en sá sem heillaði mest í dvöl minni þar var Zest í St. Julians. Klassaveitingastaður þar sem austrið mætir vestrinu í matargerð. Þarna var hægt að fá rétti frá hinum ýmsu heimshlutum en kjúklingaréttir, kanína, sushi og núðlur voru einstaklega ljúffeng, sem og réttir þar sem önd var uppistaðan. Glæsilegar innréttingar spilltu ekki fyrir andrúmsloftinu og þjónustan var öll til fyrirmyndar.
Tilvalið er að taka flugið til London með annaðhvort Icelandair eða Icelandexpress og fljúga þaðan til Möltu t.d. með flugfélaginu Air Malta. Samanlagður flugtími í þessum ferðum er um 6 klukkustundir. www.airmalta.com www.visitmalta.com www.malteseislands.com www.alliancemalta.com/zest.htm