Barbíkjú svínakjötssamloka
Manstu eftir barbíkjú svínakjötssamlokunni sem fékkst á Hard Rock í den? Hún er komin aftur elsku krakkar, hún er komin aftur!
Þú byrjar á því að kaupa þér svínasíðu í vandaðri verslun. Þú setur svínasíðuna í pott og hellir á vatni þannig að það fljóti yfir kjötið.
- svínasíða
- 2-3 lárviðarlauf,
- 4-5 negulnaglar
- 1 stjörnuanís
- nokkur piparkorn
- vorlaukur
- sellerí
- engifer (smá bita, þarf ekki að skræla)
- ýmislegt krydd sem þér gæti hugnast vel. Það er óþarfi að salta, það er nóg salt í barbíkjúsósunni sem kemur síðar.
Þetta er soðið í a.m.k. 2 klst. og það er gott að velta kjötinu í pottinum. Það þarf ekki að vera hár hiti á suðunni, best er ef það rétt mallar og tíminn er ekki mjög nákvæmur, þó er betra að hafa hann aðeins lengri en styttri.
Þegar kjötið er soðið tekur þú það uppúr pottinum og skerð ofan af því puruna og mestu fituna (eða alla fituna). Þú setur síðuna í eldfast mót, hellir góðum slatta af barbíkjú sósu (þá sem þér þykir best) yfir og lætur þetta malla í ofninum í ca. 30-45 mínútur til viðbótar. Þá tekur þú kjötið út, dregur fram tvo gafla og rífur kjötið niður með göfflunum í strimla. Ef það eru bein í kjötinu tekur þú þau að sjálfsögðu í burtu og setur kjötstrimlana í eldfasta mótið. Hellir meiri barbíkjú yfir og skellir aftur í ofinn, til að halda heitu.
Ef þannig stendur á þá má gera þetta allt daginn áður en samlokan er gerð en lýsingin á því kemur fram hér á eftir.
Pipar majones:
- Majones
- Sýrður rjómi
- svartur nýmalaður pipar
Þú hræri þessu saman og ekki spara piparinn. Þetta er mjög góð sósa, ekki ósvipuð þeirri sem er notuð á samlokurnar á KFC.
Samlokan er gerð úr hamborgarabrauði sem hefur verið hitað smá stund í ofni. Botninn á brauðinu er smurður með piparsósunni, þvínæst er sett salatblöð og tómatar ef vill, þá eru barbíkjú kjötstrimlarnir settir á brauðið (væn slumma) og ofaná það er settur slatti af piparsósunni og síðan lokað.
Þetta er hryllilega óhollt og gott.