Kjúklingalundir í raspi
Kjúklingalundir í raspi, bakaðar í ofni með Ljúflingi og chilisultu.
Þriðjudagur 3. janúar 2012
- Kjúklingalundir
- Egg
- Raspur
- Olía
- Ljúflingur (ostur frá Kú)
- Chilisulta
- Krydd (salt, pipar og hvítlaukskrydd)
- Hrísgrjón (kryddhrísgrjón)
Ég átti nokkrar kjúklingalundir í frystinum, þegar ég kom heim kl. 16.30 afþýddi ég þrjár lundir, skar hverja þeirra í þrjá hluta, baðaði þær uppúr eggjahræru og velti uppúr raspi sem ég hafði kryddað með salti, pipar og hvítlauksalti.
Ég setti smá olíu í botninn á eldföstu móti setti kjúklingabitana þar í og sneiddi svo nokkra bita (ekki of mikið) af Ljúflingi, sem ég átti í kælinum, þar ofaná. Þá setti ég smá slettur af chilisultu með í eldfasta mótið. Að lokum setti ég örlítið af ólívuolíu ofaná raspaðar lundirnar.
Þetta setti ég inní 220° heitan ofn og lét malla þar í 20-30 mínútur. Meðan kjúllinn var að bakast sauð ég smávegis af hrísgrjónum í litlum potti. Ég notaði kryddhrísgrjón sem ég hafði keypt í stórum dunki í Kosti, mjög góð.
Ég nota þá aðferð við að sjóða hrísgrjónin að láta suðuna koma upp í pottinum en slekk þá undir og leyfi grjónunum að malla á heitri pönnunni í a.m.k. 15 mínútur og hef lokið á pottinum.