Bráðhollur fiskur í ofni
Í kvöld tók ég skafið úr skápnum tilraunaeldhús. Af því það er mánudagur ákvað ég að prufa að gera eitthvað gott og bráðhollt úr fiski sem ég átti í frystinum og viti menn – þetta var svona líka asssgoti gott!
Í réttinn notaði ég:
- Ýsu, roðlaus og beinlaus
- Kartöflur, afhýddar og skornar í bita
- Gulrætur, flysjaðar og skornar í bita
- Púrrulauk, sneiddan í þunnar sneiðar
- Ost (ég átti bara frosna sneið af brauðosti sem ég notaði)
- Sítrónuolíu (smá slettu)
- Sveppasósu úr pakka
- Salt
Ég byrjaði á því að gera grænmetið klárt, raðaði því síðan í botninn á eldföstu móti og setti smávegis af sítrónuolíu yfir. Fiskinn skar ég í bita og lagði ofaná grænmetið. Þvínæst hrærði ég saman sveppasósu úr pakka og vatni og hellti yfir fiskinn í fatinu. Þar á eftir sáldraði ég osti sem ég hafði mulið niður beint úr frystinum yfir herlegheitin.
Ég setti álpappír yfir fatið (til að halda soðinu inni) og bakaði í 200°C ofni í ca. 20-25 mínútur.
Ég færði fiskinn og grænmetið uppá disk og hrærði síðan í soðinu sem var eftir í eldfasta mótinu. Við það þykknaði sósan/soðið og ég hellti því yfir fiskinn á diskinum mínum.
Geggjað!
ps. ég ætlaði að taka mynd af þessum huggulegheitum en græðgin bar mig ofurliði og ég var búin að gúffa þessu í mig áður en mér gafst ráðrúm til að draga fram myndavélina ;-).