Síðasti besti kossinn

Arinbjörn Sigurðsson skipstjóri

Arinbjörn Sigurðsson, skipstjóri og frændi minn, lést í gærkvöldi, laugardaginn 10. október 2009. Addi frændi, eins og við nefndum hann jafnan, var eini albróðir mömmu minnar og sá sem ég hélt mest uppá sem barn og unglingur. Hann var svo yndislegur maður, hlýr og góður. Á þessari stundu leitar hugurinn til þess tíma sem við krakkarnir fórum með mömmu og pabba vestur á Seltjarnarnes til að heimsækja Adda og Lilju. Addi tók okkur alltaf opnum örmum, kallaði á okkur og bað um “besta kossinn”. Undantekningarlaust hlupum við systurnar í faðm hans og kysstum hann með okkar “besta kossi” á kinnina og hann brosti til okkar, allan hringinn.

Addi var fengsæll skipstjóri, ég fylgdist spennt með skipafréttum og heyrði af hverri stórsölunni hjá honum í Kúxhafen, Húll og Grímsbý. Ég var svo ákaflega stolt af því að eiga svona flottan frænda sem var ekki aðeins harðduglegur heldur færði hann tekjur í þjóðarbúið og af honum voru fluttar fréttir í útvarpinu.

Addi var aldrei nefndur á nafn öðruvísi en að skeyta “og Lilja” aftan við. Lilja var hans stoð og stytta. Það var ekki alltaf létt að vera ein heima með börnin þegar eiginmaðurinn sigldi um heimsins höf. Eftirá að hyggja held ég hún hafi stundum tekið andköf þegar allur barnaskarinn hennar mömmu ruddist innúr dyrunum en alltaf tók hún okkur fagnandi þó ekki hafi hún fengið eins góða kossa frá okkur og Addi frændi fékk.

Síðast þegar ég sá Adda frænda var hann á spítala helsjúkur af því meini sem síðar dró hann til dauða. Þar sem ég sá hann liggja í rúminu gekk ég til hans og kyssti hann mínum allra besta kossi á kinnina. Hann var bara nokkuð hress og vildi endilega að mamma aðstoðaði hann við að borða eftirréttinn sem í boði var á spítalanum. Það var falleg sjón að sjá þau systkinin þarna saman. Mamma að mata veikan bróður sinn og hann leit á mig með glettnisglampa í augum þegar hún stakk uppí hann bleikum búðingi. Hann sagði líka að nú væri komið að henni að greiða til baka þau skipti sem hann mataði hana þegar hún var lítil stúlka.

Mömmu þótti undurvænt um Adda bróður sinn og nú er hún ein eftir af þeim systkinum öllum Addi, Ulla, Siggi, Helga og Sjana hafa öll kvatt þetta jarðlíf. Þau voru samrýmdur og sterkur systkinahópur og það voru forréttindi að fæðast inní svona góðan hóp. Fyrir það þakka ég, í hjarta mér er gleði yfir því að hafa átt svona flottan frænda og í kveðjuskyni sendi ég honum minn allra besta koss.

Hvíldu í friði kæri frændi.

Farðu í friði

Við fæðumst til að ferðast meira,
fæðing dauði er ferðalag.
Margra bíður sultur seyra
en sumum gengur allt í hag.

Öll við fáum okkar kvóta
af meðlæti og mótlæti.
Flest við munum einnig hljóta
okkar skerf af ástinni.

Farðu í friði góði vinur
Þér fylgir hugsun góð og hlý.
Sama hvað á okkur dynur
aftur hittumst við á ný.

Úr hjarta mínu hverfur treginn
er ég hugsa um hlátur þinn.
Bros þitt veitti birtu á veginn
betri um stund varð heimurinn.

Farðu í friði góði vinur
Þér fylgir hugsun góð og hlý.
Þar til heimsins þungi dynur
þokar okkur heim á ný.

Sólin skín á sund og voga
sumar komið enn á ný.
Horfið burt í bláum loga
stjörnublik á bak við ský. Lag og texti: Magnús Eiríksson

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu