30 ára stúdent

1983
Útskriftarárgangur 1983, 30 árum síðar. Einstaklega fallegur hópur, gáfaður og svona líka bráðskemmtilegur.

 

Í formála Fagurskinnu sem gefin var út 1983 segir svo: „Ekki er nema eðlilegt að fjögur mikilvæg þroskaár í lífi ungs fólks skilji mikið eftir. Ótal mörg atvik verða minnisstæð, bæði brosleg og alvarleg og svona rit kemur aldrei til með að gefa nokkra heildarmynd og varla hugmynd um hvernig samband fólks er og andrumsloft innan veggja skólans.“

Þessi orð eiga sér svo sannarlega stað í raunveruleikanum. Þessi fjögur ár sem við eyddum innan veggja, ekki þessa húss, heldur hússins hér örlítið vestar í götunni eru sannarlega minnisstæð og við öll getum sjálfsagt rifjað upp bæði brosleg og alvarleg atvik sem áttu sér stað á námstíma okkar.

Við minnumst kennaranna okkar sem hvert um sig hafði sinn karakter og náðu misvel til okkar nemendanna. Ingólfur skólameistari var okkur eilíf uppspretta margskonar hugsana, sem ekki snerust allar um námið en þegar kappinn steig út af skrifstofu sinni og inní skólastofur til að lýsa lífinu á tímum rómverja, þá gat maður ekki annað en hrifist með. Hann snerist í hringi eins og kringlukastari á Ólympíuleikum, varpaði kúlu og kastaði spjóti og gott ef hann barðist ekki líka við ljón og maður sá fyrir augum sér Athon, Artimes og sjálfan Davíð. En svo opnuðum við auðvitað augum.

Gísli Ólafur reyndi af fremsta megni að kenna okkur DOS og leiðarlýsingar með strætisvögnum urðu að afleiddri algebru, Þór sagði okkur frá stærðfræði- og eðlisfræðikenningum og þau Allan, Elísabet, Guðrún og Sólveig höfðu hvort sinn háttinn á í þýskukennslunni en  Sólveig náði a.m.k. okkur stelpunum á sitt band þegar hún söng fyrir okkur í flestum tímum – líklega til að róa okkur aðeins og fá okkur til að þegja smá stund.

Við megum ekki gleyma Finnboga Rúti, sem bað okkur um að fara varlega með heftarana svo við þroskaheftum okkur ekki,  Jóa jarðfræði, sem aldrei fór í mútur, og vini okkar allra, Móla – hver gleymir því þegar það leið yfir Tótu og Móli vakti hana til lífsins með því að lyfta upp fótleggjum hennar og biðja hana um að hjóla. Þegar Tóta vaknaði og sá aðfarir Sigurðar vildi hún helst falla aftur í yfirlið.

„Fjör kenni oss eldurinn, frostið oss herði“ þuldi Jónas heitinn Finnbogason og við áttuðum okkur á mikilvægi þessara orða og Jónasar nafna hans Hallgrímssonar við Ferðalok þess fyrrnefnda.

Sumum kennurum viljum við þó helst gleyma en aðrir standa framar í hugskoti okkar og fremstir meðal jafningja eru þau Ingibjörg stærðfræðikennari, Neil, sem kenndi okkur ensku og við villtumst milli þess að lesa um Morðið á Níl eða skeggið á Neil, og Þorsteinn Helgason sögukennari. Þessu fólki eigum við mikið að þakka, jafnvel þó við höfum fæst þurft að diffra eða heilda eftir að námi okkar hér lauk, en mörg okkar eru orðin fullfær um að rífa kjaft á ensku og sögu okkar í þessum skóla gleymum við svo sannarlega ekki.

Þá má ekki við þessi tímamót gleyma því fólki sem sá um að við héldum áfram að læra þó ekki værum við innan kennslustofanna. Sigríður ritari tók okkur alltaf vel, nema þegar okkur tókst að skemma fyrir henni fjölföldunarvélina – sem ég man ekki lengur hvað hét og Guðjón … já Guðjón, hvað skal segja. Hann kenndi okkur að bera virðingu fyrir bæði lifandi og dauðum hlutum og var alltaf til í að spjalla um það sem á daga okkar dreif.

Í fyrrnefndri Fagurskinnu má finna ummæli umsjónarkennara okkar um bekkinn og hér verður gripið aðeins niður í þau skrif. Þorsteinn Helgason segir að 4-E hafi verið prúður bekkur sem hafi átt við spilafíkn að etja, sem jafnvel hafi borið „sögu- og listaáhugann ofurliði“. Og Þorsteinn bætir við „Hver er sál bekkjarins? Eru það stúlkurnar sem er snyrtilega raðað vinstra megin í stofunni eða piltarnir sem eru á víð og dreif hægra megin og aftast? Er það Hrund, sem flutti snjallar ræður um ákveðið kennslufyrirkomulag um daginn og fékk bekkinn á sitt band, eða er það Tómas sem sagði hálfa setningu og fékk ráðið öllu að lokum? Hér bera menn ekki harm sinn og gleði á torg. Er þó margur gleðimaður í hópnum eins og ég varð var  við meðan ég gætti siðferðis á böllunum.“

Jónas Finnbogason skrifaði ummæli um 4. bekk M og hóf pistil sinn á þessum orðum: „Kjartan, Kjartan hvar er kladdinn?“ – Ekki skrýtið að Kjartan hafi verið falið að halda utan um kladdann í þessum bekk enda kom miklu síðar í ljós, jafnvel heilum 30 árum síðar í ljós, að hýsti mikla gáfumenn, en það vissum við hin ekki fyrir. En Jónas lýkur umsögn sinni um bekkinn með því að segja „Og tíminn líður á þessum frostkalda þriðjudagsmorgni eða eins og skáldið sagði: Svo lítil eru takmörk þess sem tíminn leggur á oss hann tekur jafnvel sárustu þjáninguna frá oss.“

Nafna mín Haraldsdóttir fékk það vandasama verkefni að tjá sig um 4-N. En hún hafði orðið þess heiðurs aðnjótandi að við, sem þá skipuðum 3-N, kenndum henni allt sem kunna þurfti til að verða kennari hér í MK. Tókst okkur svo vel upp að hún kennir hér enn – og sér ekki eftir neinu. Ingibjörg kunni líka gott að meta og fer fögrum orðum um bekkinn „Kom fljótlega í ljós að hann var afbragð annarra bekkja og til alls vís. Hróður hans barst víða og um tíma var útlit fyrir að aðrar deildir þriðja bekkjar tæmdust, því allir vildu (að sjálfsögðu) komast í náttúrufræðideildina. Svo fór að lokum að færri komust að en vildu og herma illar tungur að þeir Gísli og Þór hafi bókstaflega orðið að binda nemendur sína fasta við stólana til að hindra þá í að skipta um deild.“

Já svona var þetta krakkar mínir – vorið 1983, þegar við útskrifuðumst var aðeins ein útvarpsrás á Íslandi og ein sjónvarpsrás. Tölvur voru að koma til sögunnar og það var í lagi að aka um á 10-15 ára gömlum bílum. Hringvegurinn var ekki malbikaður og það voru enn þrjú á í að Gleðibankinn opnaði.

Fyrir hönd okkar í 8. útskriftarárgangi MK, þakka ég fyrir þetta boð og vona að vegur og dáð Menntaskólans í Kópavogi eigi eftir að dafna enn frekar. MK lifi.

Undirrituð samdi og flutti þessa ræðu í húsakynnum MK,
17. maí 2013 við 30 ára endurfundi.

032
Náttúrufræðideidlin
033
Eðlisfræðideildin
045
Ívar, Neil, Guðrún og Ingó
025
Hrund og Rúna
043
Neil, Guðrún og Ingó
046
Arinbjörn og Hrund
047
Bjarki og Helga
051
Helga, Ásdís, Stefán og Hrund
053
Helga og Hrund

 

059
Nonni, Guðrún og Ingó
040
E-bekkurinn
030
N-bekkurinn
028
Máladeildin
Neil, Sif, Ýr, Rúna, Bjarki og Jói

 

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu