Siðferðisþrek þingmannsins
Þingmaðurinn nefnir í upphafi greinar sinnar málefni fyrirtækis dóttur bæjarstjórans, það sem mikill styr stóð um skömmu áður en FME vék stjórn LSK frá. Það var gott hjá honum að nefna því þegar málefni LSK komst í hámæli lá þegar fyrir krafa frá samstarfsflokki sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Kópavogs að bæjarstjórinn viki sæti vegna þess máls. Og bæjarstjórinn var á förum að kröfu framsóknarmanna. Engu að síður lítur þingmaðurinn svo á að það hafi verið að kröfu Samfylkingarinnar sem bæjarstjórinn vék. Samfylkingin er ekki í meirihlutasamstarfi í bæjarstjórn Kópavogs og hefur því ekkert úrslitavald um það hvort bæjarstjórinn segir af sér eða ekki, slíkt er alfarið á forræði Framsóknarflokksins.
Jón Gunnarsson, tók sæti á Alþingi Íslendinga árið 2007 og hefur stutt Sjálfstæðisflokkinn og forystusveit hans í gegnum súrt og sætt um árabil. Alþingismaðurinn Jón Gunnarsson hefur ekki minnst einu orði á siðferðisþrek sitt og félaga sinna, þeirra sem seldu íslensku bankana, sem lögðu af Þjóðhagsstofnun og stjórnuðu bæði forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti á þeim tímum sem kallaðir voru „mestu uppgangstímar Íslandssögunnar“ – hvert er þeirra siðferðisþrek?
Er nema von að illa sé komið fyrir þjóðinni þegar siðferðisþrek sjálfstæðismanna er mælt í því hversu oft og mikið þeir fara á svig við lög.
Höfundur er varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. júlí 2009