Völukast úr glerhýsi

Undanfarin fjögur ár hef ég verið varamaður Samfylkingarinnar í Kópavogi í bæjarstjórn Kópavogs. Á þeim tíma hef ég átt hreint frábært samstarf við félaga mína í flokknum sem og marga aðra innan bæjarstjórnar Kópavogs og starfsmenn bæjarins. Fyrir það vil ég þakka.Innan bæjarstjórnarhóps Samfylkingarinnar í Kópavogi hefur ríkt einhugur og samstaða um flest mál en eins og í öllum þeim hópum þar sem fleiri en einn koma saman hafa komið tímar þar sem ekki næst full samstaða. Það er í lagi enda er Samfylkingin þannig flokkur að þar leyfist mönnum að hafa sínar skoðanir í friði. Stefna Samfylkingarinnar grundvallast á jafnaðarstefnunni sem lagt hefur grunninn að velferðarsamfélögum Norðurlandanna og Norður-Evrópu. Í þannig flokki er gott að vera.

Innan bæjarstjórnar Kópavogs hefur því miður ekki alltaf náðst samstaða þvert á flokka. Það gerðist þó um síðustu áramót þegar unnið var að fjárhagsáætlunargerð á einhverjum erfiðustu tímum sem íslenskt samfélag hefur staðið frammi fyrir. Samfylkingin, sem er í minnihluta í bæjarstjórn Kópavogs, vékst ekki undan ábyrgð og tók þátt í því að móta fjárhagsáætlun þar sem farið var í erfiðar aðgerðir, niðurskurð á flestum sviðum og öllum var þröngur stakkur sniðinn.

Við slíkar aðstæður geta alltaf komið upp ágreiningsmál um einstaka liði og svo var einnig nú. Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs, sem haldinn var þriðjudaginn 26. apríl sl. tók ég sæti í fjarveru oddvita okkar, Guðríðar Arnardóttur. Á dagskrá fundarins var m.a. mótmælabréf sem barst frá gestum sundlauga Kópavogs þar sem mótmælt var breyttum opnunartíma í sumar. Það vill svo til að þessum mótmælum er ég hjartanlega sammála. Mér finnst það skjóta skökku við að aðeins nokkrum árum eftir að Kópavogsbær gerðist aðili að þróunarverkefni þar sem sveitarfélög og Lýðheilsustöð taka höndum saman til að stuðla að aukinni hreyfingu og bættu mataræði barna, undir heitinu „Allt hefur áhrif – einkum við sjálf“, þá skuli aðgengi íbúa að sundlaugum takmarkað með skerðingu opnunartíma.

Það stóð ekki á svörum frá verðandi oddvita Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Kópavogs. Þarna sá hann leið til að slá pólitískar keilur og var óspar að benda á að Samfylkingin væri klofin í þessu máli, Samfylkingin hefði komið að gerð fjárhagsáætlunar og samþykkt hana og því væri stuðningur minn við mótmælin allt að því ómerkilegur!

Öðruvísi mér áður brá. Þarna flugu steinvölur úr glerhúsi sjálfstæðismanna sem sjálfir sitja í flokki þar sem allt logar stafnanna á milli. Oddvitinn nýi þorir sig vart að hræra af ótta við fráfarandi oddvita sem af öllum hefur gagnrýnt fjárhagsáætlun bæjarins meir en nokkur annar fulltrúi í bæjarstjórninni. Hvar er samstaðan á þeim bænum?

Hingað til og hér eftir er mér frjálst að hafa mínar skoðanir á öllum málum því félagar mínir vita sem er að mínar skoðanir byggjast á stefnu jafnaðarmanna og þó við stundum viljum fara hvert sína leiðina að settu marki þá stöndum við eftir sem órofa heild með stefnu jafnaðarmanna að leiðarljósi. Þannig fólki er gott að vinna með.

Höfundur er tækni- og upplýsingafulltrúi og er varabæjarfulltrúi í Kópavogi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. maí 2010

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu