Dollý spáir fyrir árinu 2013
Dollý spáir fyrir árinu 2013
Það var mugga úti þegar ég skrapp í heimsókn til Dollýjar vinkonu minnar. Það voru að koma áramót og ég skammaðist mín pínulítið fyrir það að hafa ekki komið oftar til hennar á árinu. En svona er tíminn fljótur að líða og allt árið hef ég óskað mér fleiri mánudaga, án sýnilegs árangurs – það er alltaf helgi!
Dollý var bara nokkuð hress þegar hún opnaði fyrir mér og ég sá það á henni að hún hafði styrkt ríkissjóð hressilega fyrir þessi áramót.
– Gakktu í bæinn góða mín, komdu inn!
Ég þakkaði fyrir mig, gekk inn, fór úr skóm og yfirhöfn og ætlaði að koma mér fyrir í eldhúsinu eins og venjulega. En Dollý var ekki á þeim buxunum.
– Hvað er að þér kona, heldur þú að ég bjóði þér ekki til stofu. Maður er nú enginn andskotans frummaður!
Það var ekki laust við hneykslun í röddinni og hún frussaði smá þegar hún sagði þetta.
– Komdu í stofuna, fáðu þér sæti. Hvað má bjóða þér? Ég á rautt, hvítt, bjór, sterkt, blandað, óblandað. Viltu kannski freyðivín?
Ég hugsaði mig um smá stund og sagði svo, ég held ég fái hjá þér einn bjór, ég geng bara heim á eftir.
Dollý hélt í áttina að eldhúsinu og ég heyrði hana muldra: „Gengur heim – þú, hruuuumpf, ég hef heyrt þennan áður.“
– Gjörðu svo vel ljúfan mín, sagði hún og sett fleytifullt glas á borðið fyrir framan mig. Slots, er það ekki þín tegund?
– Jú, mér finnst hann góður, sagði ég steinhissa á að hún hafi munað þetta.
Hún fékk sér sæti og sagði „Ég á fleiri ef þú meinar það að þú ætlir að ganga heim.“ Það var ekki laust við að ég sæi hana glotta bak við tennurnar.
– Ha, já takk, en þetta verður örugglega fínt bara.
– Sjáum til, sjáum til! En eigum við ekki að koma okkur að verki?
– Jú endilega, svara ég og kveiki á upptökutækinu.
– Hvernig gekk mér í fyrra? Spyr hún um leið og hún lygnir aftur augunum.
– Eeeee, ekkert sérstaklega vel, svara ég og þori eiginlega ekki að segja frá því að það gekk sama og ekkert upp af spánni hennar frá í fyrra.
– O jæja, o jæja. Maður getur ekki unnið alla leikina.
Hún lokaði nú augunum og skellti í sig vænum sopa af drykknum sem hún hafði í stóru glasi fyrir framan sig.
– Ahhhh, alltaf er þessi suðræna huggun nú góð, sagði hún og dró andann djúpt inn í gegnum nefið.
Árið 2013 verður sérstakt ár, það verður lengi í minnum haft. Afstaða tunglsins, stjarnanna og sólarinnar er alveg sérstök og ég er ekki frá því að Satúrnus muni sýna dýrð sína alla fyrri hluta ársins. Þá munu dagarnir 28. og 29. maí hafa alveg sérstaka þýðingu fyrir marga og tímamót sem þessir dagar marka munu verða með óvenjulegasta móti.
Nú er úti veður vott
Veðrið á árinu verður vott, leiðinlega vott. Það á þó ekki við um okkur hér uppi á Íslandi heldur sunnar í álfunni og víðar um jarðarkringluna. Það er eins og úthöfin hafi sogast upp í himinhvolfið og keppist nú við að ná aftur til jarðar. Jarðfræðingar, veðurfræðingar og loftskeytamenn munu standa algjörlega ráðþrota og skilja ekkert í því hvað er í gangi. Íbúar þeirra svæða sem verst verða úti munu þurfa að berjast fyrir lífi sínu á allan hátt. Það sem er verra er þó að öðrum íbúum jarðarinnar stendur næstum á sama. Margir eru orðnir ónæmir fyrir fréttum af hörmungum og hungursneyð, stríðum og uppreisnum og ýmsir hugsa að hver sé sjálfum sér næstur. Þetta er afsprengi græðgisvæðingarinnar í hinum vestræna heimi og þeir sem ekki hafa haft fyrir því að styðja við fátæka í öðrum heimshlutum munu nú fá að kynnast því hvar Davíð keypti ölið.
Á Íslandi verður veðrið svipað og á árinu 2012, leiðindi á norður og austurlandi en betra fyrir vestan og sunnan. Snjókoma mun ná nýjum hæðum í vetur og ég óttast að einhverjar hörmungar muni fylgja henni. Ég sé þröngan fjörð sem mér finnst vera fyrir austan en fjöllin eru svo há að það gæti allt eins verið vestur á fjörðum.
Jörð mun skjálfa
Jörð mun skjálfa hressilega með haustinu, ekki verður mannsskaði en eitthvert tjón verður þó á mannvirkjum og það mun taka tíma að bæta úr því. Höfuðborgarsvæðið er undir og það er ástæða til að hvetja fólk til að festa hillur og aðra muni sem geta hrunið í hristingnum.
Það kæmi ekki á óvart þó eldur risi úr jörðu fyrir norðan og austan okkur. Það er mikil spenna í jarðskorpunni og ef það fer eitthvað í gegn þá verður það seint á árinu, jafnvel ekki fyrr en snemma árs 2014. Mér sýnist það verða túristagos líkt og Fimmvörðuháls en þó mun nær byggð en það gos var.
Óhöppum í umferðinni mun fjölga á árinu og er þar mannfólkinu einu um að kenna. Bílar eru vanbúnir og ökumenn vanvirða sjálfa sig og þá sem eru í kringum sig með hegðun sinni. Þeirra skömm er mikil, gríðarmikil.
Blikur á lofti í fjármálum
Það eru ýmsir sem telja að bankakreppunni frá árinu 2008 sé lokið. En ekkert vita þeir þessir skrattar, segir Dollý eftir að hafa hellt sér í annað glas og tekið úr því gúlsopa.
– Viltu ekki annan bauk, hann er í ísskápnum frammi. Hún horfir beint í augun á mér og ég stend upp og sæki annan bauk. Þetta er fínn drykkur.
– Þetta vissi ég, muldrar hún og heldur síðan áfram með spána sína.
Bankakreppunni frá árinu 2008 er hvergi nærri lokið. Út um alla Evrópu og raunar allan heim eru menn að reyna að ná tökum á ástandinu og eru að átta sig á að endurnýjun á æðstu stöðum hefur ekki verið eins og menn töldu æskilegast. Grikkland og Ítalía eru í raun gjaldþrota og ríki eins og Frakkland og Þýskaland munu sjálf standa frammi fyrir umtalsverðum erfiðleikum. Þar, eins og í Bandaríkjunum, neyðast ríkisstjórnir til að skera niður þjónustu og hækka skatta langt umfram það sem ráðamenn hefðu viljað. En það verður að ná tökum á þessari óáran og hugarfarsbreytingar er þörf meðal æðstu ráðamanna. Á það við bæði um þá sem ráða ríkjum í opinbera geiranum sem og í einkageiranum.
Obama í vandræðum
Strax á fyrstu mánuðum ársins verður ljóstrað upp um mikið leyndarmál á æðstu stöðum í Bandaríkjunum og heimamenn þar munu eiga afar erfitt með að sætta sig við það sem þeir sjá og heyra. Þeir munu ekki sjá, heyra né vilja tala um þann vanda sem steðjar að þeim og það mun gera stjórnvöldum enn erfiðara fyrir að ráða við vandann. Barack Obama verður í stökustu vandræðum með að koma málum í gegnum þingið og hann mun þurfa að beygja verulega af stefnu sinni til þess að ná fram mikilvægum málum. Þröngsýni og þvermóðska Bandaríkjamanna ríður ekki við einteyming.
Dollý fussar og sveiar hressilega eftir þetta, fyllir enn á glasið og stingur úr því snarlega.
– Menn skulu ekki gleyma því að þeir uppskera eins og þeir sá og það verður raunin vestur í henni Ameríku. Það versta er þó að uppskeran fer ekki alltaf þangað sem hún á heima og raunir bitna gjarnan á þeim sem síst skyldi.
Hollywood
Það verður ógurlegur bruni í Hollywood og margar sögufrægar byggingar munu verða eldi að bráð. Kodak húsið, eða hvað það heitir þar sem óskarsafhendingin fer fram, stendur í ljósum logum. Það verður strax ráðist að þeim sem taldir eru bera ábyrgð á brunanum og menn líta strax í áttina að þeim sem Bandaríkjamenn hafa flokkað sem hryðjuverkamenn. Bruninn er þó ekki af þeirra völdum heldur annarra öfgahópa af hvíta kynstofninum í Bandaríkjunum og menn munu eiga erfitt með að horfast í augu við þá staðreynd.
Ein mynd mun slá allar aðrar út á árinu og sú mun sópa að sér verðlaunum og viðurkenningum annað hvort á árinu 2014. Þetta er mynd þar sem konur eru í öllum helstu aðalhlutverkum og verður mikið fár í kringum myndina, enda óvenjulegt að konur skipi svo stóran sess í myndum frá englaborginni.
Eitthvað verður um skilnaði meðal fræga fólksins en þó mun samband þeirra George Clooney og Juliu Roberts verða aðalslúðrið í Hollywood. En pervertaháttur og ýmiskonar óeðli mun líka verða efni slúðurblaðanna þar í landi og því miður mun alltof mikið af því sem þar er sagt eiga við rök að styðjast.
Dollý stynur núna eitthvað og lítur á mig. Hún er dálítið tóm til augnanna og sorgmædd. Mér bregður dálítið en sé svo að ástæðan er sú að flaskan sem hún hefur verið að fá sér úr er tóm. Ég spyr hvort ég geti sótt henni eitthvað að drekka.
– Ósköp ertu alltaf góð við mig vinan, segir Dollý og ég sé birta yfir henni. Það er önnur flaska af Southern Comfort í skápnum þarna í horninu, þú sætir kannski eina fyrir mig.
Ég snara mér yfir að skápnum og hálf bregður þegar ég sé fimm flöskur af suðrænni huggun í skápnum. Reyni samt að láta ekki sjást að mér er dálítið brugðið og færi henni flöskuna. Hún þakkar fyrir sig og hellir aftur í glasið sitt.
– Er það þá ekki aftur heim? spyr hún.
– Jú það væri nú ósköp gott, svara ég og bíð spennt eftir vangaveltum hennar um stjórnmál og okkar fræga fólk.
– Já, þú segir nokkuð, það væri gott ef það væri gott er það ekki?
Ég veit ekki hvort hún ætlist til að ég svari svo ég þegi smá stund, sem er eins gott því hún setur sig í stellingar og talar mjög ákveðið.
– Fólk er fífl, segi það og skrifa, fólk er fífl. Af hverju segi ég þetta? Líttu bara í kringum þig, sjáðu sóunina, sjáðu eyðsluna, sjáðu frekjuna, sjáðu kröfurnar sem standa allstaðar út úr fólki! Fólk er fífl.
Hér verður Dollý dálítið andstutt, hóstar hressilega og ég stend upp, sæki vatnsglas í eldhúsið og færi henni. Hún grípur glasið, horfir á það smástund og segir svo.
– Ætlar þú að drepa mig stelpa!!
– Ha, nei ég hélt það stæði svona í þér og það væri kannski hægt að laga það með smá vatnssopa.
– Alltaf þessi sama vitleysa í fólki að færa manni vatn ef manni verður eitthvað misdægurt, smá hósti og þá kemur fólk alltaf með vatn. Færðu mér brennivín og ég verð öll hressari.
Hún hvæsir á mig, horfir niður á borðið en lítur svo hægt upp og ég sé glettnisglampa í augunum á henni.
– Í alvöru, hvar stendur að það eigi að færa fólki vatn ef það stendur í því. Það er best að láta hóstann líða hjá og svo fær fólk sér það sem það langar í. Mig langar í suðræna huggun en ekki vatn. En nú ætla ég að halda áfram, ekki trufla mig.
Birta í kringum nýjan formann
Ég hörfa og fæ mér sæti á mínum stól eftir að hafa sótt mér þriðja baukinn í ísskápinn. Dollý hefur rýnt í glasið sitt þar sem ljósgulur vökvinn snýst, mér sýnist hún vera að lesa í hann.
Það verða hræringar í stjórnmálunum og menn munu grípa til allra ráða til að halda völdum. Á það við í öllum flokkum. Samfylkingin þín fær nýjan foringja. Það er þó ekki víst að þér verði að ósk þinni.
Dollý lítur upp og enn er þessi glettnisglampi í augunum hennar.
En samt finnst mér að nýjum foringja muni fylgja mikil gæfa og hann verður lengi á formannsstóli. Hann er kraftmikill, þrekvaxinn og fylginn sér. Það er mikil birta yfir þessum manni og blessun. Nú verður þú að lesa í það hvaða maður þetta er mín kæra, og ekki orð um það meir.
– Mér sýnist ég sjá sama mann og þú, segi ég lágt, en sé strax eftir því að hafa truflað drottninguna.
– Hvað þykist þú sjá, heyra í þér stelpa. Fussum svei.
Það verður samt mikið uppgjör innan Samfylkingarinnar í kjölfar landsþingsins og einhverjir munu ganga sárir frá borði. Menn hrúgast inní flokkinn hans Steingríms Hermannssonar.
– Guðmundar Steingrímssonar, segi ég og gríp svo fyrir munninn.
Ekki svo björt framtíð
Það verður uppgjör og menn flykkjast í flokkinn hans þarna Steingrímssonar og menn telja jafnvel að sá flokkur muni sópa að sér fylgi. Það má vera, en fylgið verður mun minna þegar talið hefur verið uppúr kjörkössunum heldur en áður en sett var í þá. Ýmsir telja það afleiðingu Besta flokksins í Reykjavík og fólksins fyrir norðan þar sem óreyndir einstaklingar komust að valdaborðum. Það hefur ekki alltaf verið góð lukka bak við þeirra ákvarðanir og skrautfjöðrum þeirra hefur fækkað heldur eftir því sem liðið hefur á kjörtímabilið. Menn sjá líka í gegnum það þegar flóttamenn úr fjórflokkunum eru að skipa sér saman á nýja lista. Þó maður flytji lögheimili sitt þá verður maður ekki nýr einstaklingur á eftir, ó nei.
Það sem fólk hefur helst lært á síðustu fjórum árum er að þó Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki við völd þá heldur veröldin áfram að snúast. Fjármálin fara ekki veg allrar veraldar og meira að segja útgerðarmenn halda áfram að gera út skipin sín. Menn hafa svo sem líka lært að þó vinstri flokkar séu við völd þá er verkalýðshreyfingin ekki með neina undirlægju gagnvart þeim.
Flett ofan af kennitöluflökkurum
Glæpamennirnir sem gjarnan hafa verið nefndir kennitöluflakkarar verða mikið milli tannanna á fólki á árinu. Fjölmiðlar hafa ekki undan að fletta ofan af fjölmörgum slíkum gjörningum þar sem menn flytja skuldir á gamlar kennitölur, setja þær í þrot og stofna svo nýjar án þess að þurfa að greiða nokkuð úr eigin vasa. Fólk fer líka að sjá að gjaldþrota kennitöluna þarf að gera upp á einhvern máta og þá er verið að seilast í vasann minn og vasann þinn. Eins og þar sé fé að finna!
Hér hussar í Dollý og hún skammtar sér enn á ný í glasið og biður mig um að fara fram í eldhús
– Ég á þar saltstangir og ídýfu, má ekki bjóða þér ljúfan.
Ég segist ekki slá hendinni á móti því, sæki umbeðinn varning og legg á borðið fyrir framan spákonuna sem er mikið niðri fyrir.
Kreppa og birta yfir Sjálfstæðisflokknum
Það er eitthvert ólán yfir silfurskeiðinni úr Garðabænum. Hann er sjálfsagt ágætlega ættaður hann Bjarni minn, en hann nær ekki nógu vel til fólksins, verkafólksins sem hafa stutt flokkinn hvað sem á dynur. Hvernig á það líka að vera þegar drengurinn hefur aldrei dýft höndinni í kalt vatn né pissað uppí vindinn.
Hér frussar Dollý svo agnir af saltstöngum sem hún hafði nýlega sett uppí sig lenda ofaní ídýfunni. Hún hrærir bara í dósinni og heldur áfram.
Það verður kosið um formann í Sjálfstæðisflokknum líka og Bjarni nær kjöri, en það stendur tæpt þó enginn hafi farið formlega gegn honum. Bjarni mun þó leiða flokkinn í gegnum kosningar en nær ekki þeim árangri sem hann ætlaðist til, en það situr í honum landsfundurinn og áður en árið er liðið mun hann hverfa af þingi til annarra starfa. Hanna Birna tekur við af honum og mótormunnurinn hennar mun njóta sín í þingsalnum skal ég segja þér. Það gustar af þessari konu í orðsins fyllstu merkingu. Hún mun reyna að keyra mál í gegn af hörku og ná sínu fram í flestum málum. Þó verður eitt mál henni afar erfitt og hún mun ekki fá mikla virðingu félaga sinna fyrir framgöngu sína þar. Sjálf stendur hún keik eftir og sér ekki eftir neinu. Það er ekki þeirra háttur, stjórnmálamannanna, að afsaka sig.
Þorgerður Katrín, sem horfin er af þingi, mun gagnrýna þessa framkomu harkalega og það mun koma upp krafa innan flokksins að hún gangi aftur til liðs við þingflokkinn, sem starfsmaður hans, en hún tekur það ekki í mál.
Sjálfstæðisflokkurinn mun ganga í gegnum innri krísu á árinu og ég fæ ekki betur séð en að það muni verða flokknum til góðs. Þó mun ríkja þar mikil sorg uppúr miðju ári þegar einn af forystumönnum hverfur af sjónarsviðinu.
Það er óvenju mikil birta samt í kringum þennan flokk sem ég skil ekki alveg. Annað hvort er þetta heilagleikinn sem stirnir á eða að hann nýtur blessunar einhversstaðar frá. En nú nenni ég ekki að tala lengur um þetta lið, segir Dollý og ég finn að henni er mikið niðri fyrir.
Vasaljósum veifað í Kópavogi
Svo horfi ég yfir til Kópavogs og sé ekki alveg sömu birtuna þar, nú hlær mín og skellir sér á lær. Nei þar er ekki mikil birta en menn veifa vasaljósum út um allar koppagrundir. Mér sýnist ljósin vera nærri því 10 svo það eru einhverjir fleiri að vinka þeim en íhaldið. Hahahaha, þetta er beinlínis fyndið. Þetta hef ég aldrei séð áður.
En það eru fleiri flokkar á þingi en Samfylking og Sjálfstæðisflokkur. Það verður mikil kreppa í kringum VG. Steingrímur er í vafa hvort hann eigi að bjóða sig fram aftur enda varð hann fyrir miklu áfalli þegar Björn Valur náði ekki kjöri í Reykjavík. Hann hefur verið að eiga við erfið vandamál í þjóðstjórninni, hann hefur verið í vandræðum með sitt fólk í flokknum og þar fyrir utan hefur heilsan verið að stríða honum og hann þarf að hugsa sig vel um hvort hann taki slaginn á ný. Mér sýnist hann þó gera það en það er öldungis ekki ljóst hvort hann ljúki kjörtímabilinu. Það verður kona sem tekur við af honum sem formaður, annað hvort á árinu 2013 eða 2014.
Forsetinn óþægur ljár í þúfu þingsins
Áhugi Íslendinga á stjórnmálum verður aldrei minni en í Alþingiskosningunum 2013 og verða tveir stærri flokkar og fjórir minni. Það veldur enn meiri ólgu og deilum en við höfum séð og þessu fólki er algjörlega fyrirmunað að vinna saman að hagsmunum þjóðarinnar. Ríkisstjórnin sem verður mynduð 2013 mun ekki sitja lengi og forsetinn verður stöðugt að setja ofaní við hana. Já hann heldur áfram að seilast í völdin Bessastaðabóndinn og verður óþægari ljár í þúfu Alþingis en nokkru sinni fyrr.Hér tekur Dollý sér góða pásu. Hún hallar sér aftur í stólnum og lygnir aftur augunum. Opnar þau svo skyndilega og spyr hvort ég sé ekki ennþá að fylgjast með íþróttum?
– Jú, ég geri það nú, svara ég.
Þetta verður ekkert sérstakt íþróttaár hjá okkur Íslendingum. Engir stórir sigrar sem munu bera af á árinu á alþjóða vettvangi en baráttan hér heima verður bráðskemmtileg bæði vor og haust í boltagreinunum. Einn ungur handknattleiksmaður vekur verulega mikla athygli í Þýskalandi og körfuboltastrákur mun slá í gegn í bandarískum háskóla. Á frjálsíþróttavellinum sýnist mér að kastari ná góðum árangri en sá fellur síðan á lyfjaprófi og verður okkur ekki til sóma.
Á menningarsviðinu heldur Baltasar Kormákur áfram að gera góða hluti í Hollywood en hljómsveitin Of Monsters and Men leggur upp laupana þegar líður á árið. Hún kemur þó saman aftur um áramótin 2013-2014 og slær í gegn á heimavelli að þessu sinni. Ólafur Darri mun fá fjölmörg tilboð um kvikmyndaleik í stórum myndum. Hann þarf að hafna nokkrum boðum enda er hann heimakær og vill ekki eyða svona miklum tíma fjarri fjölskyldu sinni og vinum. Það er oft þannig með stóra menn að þeir eru litlir inní sér og það á við um Ólaf Darra.
Ákærur og dómar
Einn stór maður til mun verða mikið í sviðsljósinu, sérstakur saksóknari. Hann heldur áfram að ákæra menn og dómstólar munu hafa mikið að gera við að dæma menn og aðra vegna bankahrunsins. Sýknað verður í nokkrum stórum málum en eitt mál mun þó standa uppúr og verða mikið í umræðunni. Þar hljóta menn þunga dóma og almenningur sem hefur krafist réttlætis sér loksins ljós í myrkrinu. Það er þó aldrei neitt ljós við það að menn séu dæmdir í fangelsi og fögnuðurinn verður skammvinnur hjá mörgum.
Tímamót á árinu
Dollý horfir nú á mig nokkuð rannsakandi og segir svo, það verða tímamót hjá þér.
– Já ég get ekki neitað því, segi ég. Sérðu eitthvað í sambandi við það?
– Þú heldur partý!
Dollý spáir fyrir árinu 2013 (pdf skjal)