Spá Dollýjar fyrir árið 2012

Ég lofaði spádómi Dollýjar í kvöld. Hér er fyrsta uppkast frá konunni. Ég er nokkuð viss um að ég náði ekki að slá öllu inn og áskil okkur báðum rétt til að bæta í og lagfæra orðaval fram til kl. 15 á morgun, 31. desember.
 

Það var varla að ég sæi í gegnum hríðina þegar ég kom að húsinu sem Dollý dulræna býr í. Engin stæði voru við húsið en verslunarmiðstöðin í nágrenninu hafði látið ryðja planið hjá sér og ég var ekki ein um það að nýta mér þau stæði sem þarna buðust, án þess að eiga viðskipti við verslanirnar í húsinu. Ég var með hríðarkófið í fangið og á leiðinni hugsaði ég hvort árið hafi verið Dollý gott og hvað hún myndi segja mér um framtíðina.

Útidyraljósið var slökkt og það leið dágóð stund áður en hún svaraði dyrabjöllunni. „Gakktu inn ljúfan mín, ég hef beðið eftir þér“ heyrðist í gegnum dyrasímann. Ég dustaði af mér mesta snjóinn, skildi skóna eftir fyrir utan dyrnar og gekk inn. Það var kveikt á jólaseríum út um alla íbúð og greinilegt að hún hafði lagt mikið í að hafa allt sem huggulegast í kringum sig. „Það er búið að vera svo mikið myrkur eitthvað, svo ég skrapp á útsölu í vikunni og keypti nokkrar seríur. Mér finnst þetta allt annað líf og ég á svo erfitt með að þola myrkrið, nema þegar ég sef,“ sagði Dollý um leið og hún hellti kaffi í bolla án þess að spyrja hvort ég vildi. Svo gekk hún fram í eldhús og hellti rauðleitum drykk í tvö staup.

„Viltu ekki eitthvað til að hressa þig,“ spurði hún.

Leigubílstjórar verða líka að lifa

„Ha, jú takk, en ég er sko á bílnum, hann er hér hjá verslunarmiðstöðinni,“ svaraði ég hikandi. „Blessuð vertu það er ekki eins og ég ætli að hella einhverju í þig, svo má alltaf hringja í leigubíl. Leigubílstjórar verða líka að lifa!“ Það var ekki laust við að ég heyrði hneykslunartón í rödd hennar.

Hún settist niður, dró upp kristalskúluna sína og um það leyti sem fyrsti sopinn úr staupinu rann ofaní hana heyrðist dulítil stuna og hún lygndi aftur augunum. „Þetta gekk vel hjá mér í fyrra. Ég hef fylgst með þessu og sumt af því sem ég spáði fyrir árið 2010 rættist á árinu 2011. Það er eins og ég sjái of langt fram í tímann. Ég ætla því að leyfa kúlunni að ráða meira núna, frekar en tilfinningunni eins og svo oft áður,“ sagði hún og leit skyndilega upp. „Ætlar þú að spyrja mig að einhverju eða á ég að láta gamminn geysa?“

„Skjóttu bara,“ sagði ég og sá samstundis eftir því, enda ekki viss um að hún áttaði sig á því að ég var ekki að meina það í bókstaflegri merkingu.

Mér að óvörum hirti hún ekki um orð mín heldur hallaði sér fram á borðið og spurði hvort það væri kveikt á upptökutækinu.  Ég var fljót að kveikja og sagði svo „já þú mátt byrja.“

„Árið 2012 verður ákaflega erfitt ár. Ekki endilega fjárhagslega, nei miklu frekar að því leyti að það verða svo miklar breytingar – spennan í þjóðfélaginu heldur áfram að vera mikil, en samt öðruvísi en áður. Ástæður hrunsins, hins svokallaða hruns eins og sumir segja, koma alltaf betur og betur í ljós og spennan verður ekki síst vegna þess að samfélagið veltir því fyrir sér hvort aðalleikararnir muni sjá gjörðir sínar í ljósi afleiðinganna eða hvort menn haldi áfram að horfa fram á veginn eins og ekkert hafi í skorist. Þeir eru ófáir sem vilja halda ótrauðir áfram, því syndir fortíðarinnar komi þeim ekki við. Þeir vilja halda áfram þar sem frá var horfið, án tillits til þess að nú eru allar aðstæður breyttar. Þetta á ekki bara við um Hannes, Sigurjón, Björgólf og Lárus. Þetta á líka við um Bjarna, Pétur, Tryggva, Sigmund og þá alla strákana sem finnst þeir vera svo klárir og hressir.

Spurning um sannfæringu

Svo er það spurningin hvort Steingrímur, Jóhanna, Ögmundur, Guðbjartur og þau séu nægilega sannfærð um að þau ráði við verkefnið. Það eru nefnilega allir hræddir við að skapa fordæmi, fordæmi þess að menn skuli bera ábyrgð á gjörðum sínum, hvort sem þær eru beinar eða óbeinar. Ég er hreint ekki viss um að þau ráði við verkefnið, því miður.

Það er reyndar þannig að þeir sem eru í hlutverkum í dag eru ekki endilega þeir sem eru líklegastir til að koma á sátt og friði í samfélaginu. Tjónið sem varð í hruninu verður aldrei bætt. Alltof margir hafa flutt erlendis, gefist upp. Alltof margir neita að horfast í augu við einfaldan sannleika og trúa því að núverandi ástand sé raunverulega á ábyrgð núverandi stjórnvalda. En sumu fólki verður ekki bjargað, það er nú þannig.“

Hér tók Dollý sér smá hlé, andaði djúpt, horfði lengi í kristalskúluna og sagði svo. „Uppgjörið, sem allir bíða eftir verður ekki öllum að skapi. Það er eins og óveður geysi í kringum sérstakan saksóknara, en það er þungt í honum pundið en lundin hans er létt svo hann mun standa af sér ýmsa vinda. Hann stendur þó eftir nokkuð snauðari en áður en hann lagði af stað og það má segja að fjaðrir sem hann veifaði verði sumar hverjar rifnar af honum. Það er eins og það sveimi í kringum hann úlfahjörð, og hún er svöng.

Uppgjörinu lýkur ekki á árinu

Hann hefur penna, bók og vog að vopni en þar sem hann hefur bundið fyrir augun eins og gyðja réttlætisins þá nær hann ekki alltaf að sjá hvaðan að honum er sótt. Það er jafnvel sótt að honum úr óvæntri átt, þaðan sem menn áttu ekki von á öðru en að stuðningur væri. En því miður, þó peningar kaupi ekki allt, þá eru sumir falir fyrir peninga og upplognar vegtyllur og það mun koma í ljós. Maður (og mundu að konur eru líka menn) sem flestir trúðu að væri langt utan við hrunamálin kemur fram og bakkar upp helstu hrunverjana. Það verður mikið sjokk fyrir þjóðina og vegið verður að baráttuhug margra.

Uppgjörinu lýkur alls ekki á árinu 2012.“

Kosningar á árinu 2012

Ég sagði ekki orð, fann að það myndi aðeins trufla einbeitingu vinkonu minnar. En þegar við höfðum setið þarna hljóðar í um fjórar mínútur hvíslaði ég. „Hvað með kosningar?“

Dollý leit upp, horfði á mig í smá stund og sagði svo. „Það verða kosningar. En þó ekki fyrr en á haustdögum, jafnvel í byrjun vetrar. Það er alltof mikil ólga innan þessarar ríkisstjórnar til þess að hún lafi lengur. Það er eins og mönnum liggi á að koma höfundum hrunsins aftur að valdastóli. Minni kjósenda er stutt og menn horfa í hillingum til áranna uppúr aldamótum, þegar allt virtist leika í lyndi og Ísland var best í heimi. Ég sé það ekki með vissu hvor stjórnarflokkanna gefur eftir enda af nógu að taka úr báðum flokkum. Vald spillir – og það á við um einstaklinga innan þessara flokka eins og annarsstaðar. Samfylking og Vinstri grænir eiga þó ekki mikla reynslu að baki og það kemur aftan að þeim. Sá sem talaði um kattasmölun um árið mun eiga í ótrúlegu fári á árinu 2012 – ótrúlegu!

Ný ríkisstjórn á árinu

En kosningarnar munu koma nokkuð á óvart. Ný framboð munu koma fram en þau munu ekki hljóta mikinn hljómgrunn, a.m.k. ekki eins mikinn og margur ætlar. Ungt fólk mun flykkja sér að baki nýjum framboðum en eldra fólkið snýr sér aftur til gömlu flokkanna og sýna fáránlega hollustu við það sem þau hafa „alltaf“ kosið. En það má alveg og ég er ekki endilega viss um að það verði þjóðinni endilega til vansa.

Ný ríkisstjórn verður mynduð og mér sýnist sem þrír flokkar muni skipa sér í hana. Forystuvandi í Sjálfstæðisflokknum mun bíta í skottið á þeim og halda þeim utan ríkisstjórnar enn um sinn. Þeir munu þó gera hosur sínar grænar fyrir öllum mögulegum framboðum og hafa alla anga opna, en án árangurs. Það kemur þeim illa að á sama tíma og kosningar eru leggur sérstakur saksóknari fram ákærur og þar munu verða fyrir menn, nátengdir flokknum og það bitnar á Sjálfstæðisflokknum.

Reyndar mun Framsókn ekki koma mikið betur út úr skoðun sérstaks saksóknara en þeirra fólk er meira og minna hætt á þingi og það verður ekki eins afdrifaríkt. Hins vegar mun einn fylgismanna þess flokks lenda í persónulegum vandamálum sem mun ná hámæli á vordögum og því verða kjósendur ekki búnir að gleyma þegar kemur að kosningum. A.m.k. ekki í hans kjördæmi. Framsókn mun lenda í nokkrum vanda vegna nýrrar stefnu sem flokkurinn hefur tekið og það verður ekki vinsælt meðal almennings þó vissulega muni einhverjir taka upp hanskann fyrir flokkinn.

Klofningur víða

Samfylkingin mun verða nálægt klofningi en þegar Jóhanna stígur til hliðar mun flokkurinn fá nýjan formann sem mun sýna af sér allt öðruvísi stjórnun en Jóhanna hefur sýnt. Þessi nýi formaður hefur með sér nýjan varaformann, einstakling sem ekki hefur verið mikið í sviðsljósinu en er samt vel þekktur innan flokksins. Það er mikil birta yfir þeim einstaklingi og mér sýnist að sá muni taka við keflinu innan nokkurra ára.

Vinstri græn ná ekki vopnum sínum á árinu. Steingrímur er mjög þreyttur og hefur ekki lengur þá útgeislun sem hann hafði í stjórnarandstöðunni. Hann mun samt halda um taumana í flokknum en nokkrir þungavigtarmenn hverfa þaðan. Mér sýnist jafnvel að þeir stofni nýjan flokk, sem verður líkur Framsóknarflokknum að nokkru leyti, opinn í báða enda, þjóðrækinn og harðlega andsnúinn aðildarumsókn að ESB.“

Dollý lítur upp þegar hér er komið sögu og spyr mig hvort ég sé ekki fylgjandi aðildarumsókn að ESB? „Tja, þarf ég að svara þér,“ spyr ég og reyni að víkja mér undan spurningunni. „Já, hvað heldur þú kona, ekki ertu skoðanalaus?“ hvæsir hún á mig – ósátt við svarið. „Ég vil sækja um en ég segi ekki hvort ég muni styðja umsóknina fyrr en ég sé samninginn,“ svara ég samvisku minni samkvæmt.

„Framsóknarsvar!“ frussar hún á mig og lítur aftur í kúluna sína.

Hlægjandi alla leið í bankann

„Viltu ekki vita eitthvað annað en um pólitík“ spyr hún. Þegar ég jánka því heyri ég hana humma með sjálfri sér lagið hans Mugisons … Stingum af. Mér rétt tekst að hindra það að skella uppúr sem er eins gott því hún hvessir á mig augum og segir „Anna Mjöll fær milljónir á milljónir ofan frá gamla karlinum í Ameríku. Það hlægja allir að henni hér heima en hún hlær alla leið í bankann, sátt við sitt!

Mugison verður tengdur við hneykslismál á árinu, hann sem heillaði þjóðina uppúr skónum á árinu 2011 verður ekki eins mikill sonur þjóðarinnar á árinu 2012. Hann sleppur þó með skrekkinn en laskað mannorð.

Það verður gríðarlega mikið um fíkniefnaneyslu meðal þeirra sem telja sig hipp og kúl og nokkrir þjóðþekktir einstaklingar verða flæktir í slík mál. Holdið er líka veikt og fleiri og fleiri flækjast í mál sem flestum finnast ósiðleg, óviðurkvæmileg og subbuleg þar sem kynlíf, fíkniefni og óhóf skipa stóran sess. Klámvæðingin meðal ungs fólks er óeðlileg og það mun berlega koma í ljós gríðarmikið bil milli hinna eldri og þeirra sem yngri eru í afstöðu til máls sem varðar klámvæðinguna eða kynlíf. Þetta verður subbulegt, en umræðan sem fram fer í kjölfarið mun verða okkur til góðs þegar upp er staðið.“

Hún lítur skyndilega upp og biður mig um að fylla aftur í staupið sitt sem hún hefur ekki snert í nærri 40 mínútur. Ég geri það og skenki sjálfri mér lögg til viðbótar ásamt því að setja kaffi í bollana okkar.

Náttúruhamfarir á árinu

„Náttúran verður erfið við okkur á árinu,“ segir hún. „Ég er þó ekki viss um að Katla gjósi, eða hvort það verður stór jarðskjálfti, snjóflóð eða eitthvað annað. 14. apríl er samt dagur sem við þurfum að hafa gætur á. Já, 14. apríl, það kemur mjög sterkt fram.“

Hér lítur hún upp í loft – teygir svo úr sér og segir. „Kannski er það þó alls ekki tengt náttúrunni, en dagurinn sá verður færður til bókar í árbækur framtíðarinnar.“

„Hvað með útlönd, bresku konungsfjölskylduna, Danmörk, Grænland, Austur Asíu. Er ekki eitthvað að gerast þar?“ spyr ég eins og einhver fáviti.

„Hvað heldur þú kona, auðvitað verður fullt að gerast þar. Þýskaland verður mikið í umræðunni og einhverra hluta vegna munu þeir verða höfuð andstæðingar margra annarra Evrópuþjóða. Það er ekki eins og Þjóðverjar séu ekki vanir því að verða andstæðingar annarra í Evrópu, en núna er það af öðrum forsendum en áður. Þeir munu ekki hefja það „stríð“ – en það verður ráðist á þá, þó það verði ekki endilega í bókstaflegri merkingu.

Sundrung í Evrópu

Angela Merkel hverfur af valdastóli og í hennar stað kemur ungur og myndarlegur maður. Þá verða breytingar í Frakklandi en ekki nær hún Eva Joly neinum frama þar þó margir á Íslandi muni kjósa það. Ítalía verður í algjörri upplausn og Grikkir munu eiga í gríðarlegum erfiðleikum. Evrópa og Evrópusambandið mun eiga undir högg að sækja og þegar Spánverjar lenda í djúpri kreppu með hruni banka þar í landi þarf sambandið að róa hreinan lífróður. Þá koma Norðurlöndin sterk inn. Ísland með sína reynslu af kreppu verður þar meðal forystulanda og Norðmenn með allan sinn olíuauð sömuleiðis. Það verða hins vegar Svíar sem munu leiða samstarf Norðurlandanna til bjargar Evrópu. Já, Svíar þó erfitt sé að trúa því.

Það verða loksins þjóðhöfðingjaskipti í Bretlandi. Elísabet Englandsdrottning mun komast í guðatölu meðal þegna sinna. Hún klæðist svörtu og líklega mun mikill harmur hrjá hana á árinu. Hún mun um margt minna á Viktoríu sem klæddist svörtu um áratuga skeið eftir að maður hennar lést og henni mun líka illa sú samlíking og situr ekki undir henni þegjandi.

Sigrar Færeyinga

Færeyingar munu vinna sigra á árinu á íþróttasviðinu og vekja mikla athygli og öfund hér uppi á Íslandi. Íslenskt landslið mun tryggja sér sæti á virtu stórmóti og miklar væntingar verða gerðar til þess liðs. Spennan sem verið hefur milli íþróttahreyfingarinnar og menningar mun halda áfram og ótrúlegasta fólk mun tjá sig um þau mál öll. Það verður hvorki íþrótta- né listafólki til sóma.“

Kipptu í spottann minn

Hér sé ég að það er farið að draga af Dollý en ég get ekki setið á mér að spyrjast fyrir um Júróvisíon.

„Uss … við erum alveg úti á túni. Menn gera kröfu um að GusGus fari sem okkar fulltrúar en ég sé það samt ekki gerast – sé reyndar engan árangur þar. Líklega vinna Eistar í þetta skiptið með laginu „Pull my string“ eða eitthvað svoleiðis og Íslendingar verða fljótir að snúa út úr því. Baggalúkur snarar textanum, Kipptu í spottann minn, og það verður sumarsmellurinn hér heima næsta sumar!“  Dollý skellti uppúr en vildi ekki segja mér meira um textann hjá þeim í Baggalúti.

„Hvernig verður lista og menningarlífið?“ spyr ég og finn að það er farið að draga af henni.

„Okkur mun alltaf farnast vel þar. Við erum svo sjálfhverf „Ísland best í heimi!“ … þetta slagorð fellur aldrei úr gildi. Við munum slá í gegn í tónlistinni – eða það höldum við – en svo kemur á daginn að frægðin var heimafengin og viðkomandi listamenn gera kröfu um að ríkið borgi fyrir gríðarlega mikinn kostnað sem lagt var í vegna útrásarævintýris listamannanna. Já þetta verður enn eitt hneykslið sem við þurfum að klást við. Það er eins og við lærum aldrei.“

Hér horfir Dollý á mig tómum augum og spyr: „Er þetta ekki orðið gott?“

„Jú, ég held það bara“ svara ég og stend upp. Er reyndar steinhissa á að vinkona mín hefur ekki fengið sér nema einn kaffibolla og eitt og hálft staup af líkjör. Hún er þreytt, það eru áramót framundan og hún virðist bíða þess að komast undir sængina sína.

Ég stend því upp. Kyssi hana létt á vangann og býð henni góða nótt um leið og ég óska henni farsældar á nýju ári. „Takk sömuleiðis ljúfan mín,“ segir hún og lokar á eftir mér hurðinni.

Já Dollý er góð kona.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu