Persónukjör
Ekki man ég eftir því að hafa verið í jafnmiklum erfiðleikum með að finna mér stað á hinu pólitíska litrófi eins og fyrir þessar kosningar. Samt er ég búin að setja niður lista þar sem ég tel upp nokkur þau atriði sem ég legg áherslu á í þessum kosningum:
- Landspítali við Hringbraut strax
- Úrbætur í húsnæðismálum, lifandi leigumarkaður
- Sanngjörn renta af auðlindunum
- Böndum komið á ferðamannaiðnaðinn
- Úrbætur í öldrunarmálum, mannsæmandi framkoma við eldri borgara
- Hófleg stefna í innflytjendamálum þar sem áhersla er á mannúð
- Rætt verði af alvöru um gjaldeyrismál og íslensku krónuna
- Kosið um aðildarviðræður við ESB
Sjálfsagt eru fleiri atriði sem ég gæti talið upp hér en eitt nefni ég þó sem mér finnst að eigi klárlega að vera framarlega á listanum góða og það er að kosningalöggjöfinni verði breytt í átt að persónukjöri. Ég er sannfærð um að margir kjósendur eru í sama vanda og ég, veit ekki alveg hvaða lista það á að kjósa því bæði eru ekki öll stefnumál flokksins manni að skapi og svo leynast þar einstaklingar sem ekki hafa nægilega skemmtilegan og góðan kjörþokka (kurteislega orðað – þú mátt nota hvaða orð sem þú vilt en ég treysti því að þú vitir hvað ég á við).
Það eru 11 listar í framboði – ellefu (eða eru þeir tólf?)!
Sumir geta ekki kosið A listann því þar er Páll Valur í framboði, aðrir geta ekki kosið B því þeir vilja að Willum þjálfi KR, C listinn er ómögulegur því Óttarr er pönkari og svo framvegis. Allir sínar hafa ástæður og eiga til þess fullan rétt. En það eru líka sumir sem vill helst kjósa þessa þrjá einstaklinga því þeir treysta þeim best allra, en geta það ekki því þeir eru ekki í “réttum” flokki.
Ég vildi gjarnan geta raðað saman því fólki sem ég treysti best til að stýra þjóðarskútunni og þér að segja þá er ég í þessum vandræðum vegna þess að á flestum listum eru einstalingar sem ég ber ekki fullt traust til.
Ég vil geta kosið fólk sem mér finnst deila skoðunum með mér sama hvar í flokki það stendur. Hver og einn stjórnmálamaður á að vera bundinn af sinni eigin sannfæringu en ekki festur á klafa flokksins. Ég er sannfærð um að ef tekið verði upp persónukjör þá muni stjórn landsins verða mun betri en áður. Persónukjör verður til þess að stjórnmálamennirnir okkar muni vanda sig meira, bæði innan þings og utan.
Þeirra eigin heiður er að veði.