Stelpum bannað að spila í takkaskóm á grasi

„Stelpum var bannað að spila á takkaskóm á grasi.“ – Kópavogsblaðið

Ingibjörg Hinriksdóttir.

Ingibjörg Hinriksdóttir er ein þeirra sem hvað ákafast hafa rutt brautina fyrir knattspyrnu kvenna hjá Breiðabliki.

Kópavogur er vagga knattspyrnu kvenna á landinu og Ingibjörg Hinriksdóttir er ein þeirra sem hvað ákafast hafa rutt brautina hjá Breiðabliki. Sjálf vill hún þó gera sem minnst úr því. „Brautryðjandinn er eiginlega Valdi gamli vallarvörður á Vallargerðisvelli sem árið 1969 vildi að stelpur í Kópavogi fengu að æfa fótbolta. Synir hans; Valdimar, Brynjar og Sigurjón fengu að æfa og leika knattspyrnu en dætur hans; Rósa og Kristín Silvía sátu eftir. Þær vildu líka spila fótbolta og Valdi hleypti þeim út á völlinn.

Valdimar Kristinn Valdimarsson, heitinn, eða Valdi vallarvörður eins og hann var oftast nefndur er lengst til vinstri á þessari mynd ásamt stúlkum í einum af fyrstu árgöngum í yngri flokka starfi Breiðabliks í knattspyrnu kvenna. Goðsögnin Haraldur Erlendsson er lengst til hægri.

Valdimar Kristinn Valdimarsson, heitinn, eða Valdi vallarvörður eins og hann var oftast nefndur, er lengst til vinstri á þessari mynd ásamt stúlkum í einum af fyrstu árgöngum í yngri flokka starfi Breiðabliks í knattspyrnu kvenna. Goðsögnin Haraldur Erlendsson er lengst til hægri. Mynd úr safni Breiðabliks.

Sjálf var ég í austurbænum og tók þátt í að stofna ÍK árið 1976 með pabba mínum, Hinriki Lárussyni, og fleirum. Hann hefur aldrei verið sérlegur aðdáandi Breiðabliks og vildi frekar að ég léki mér í fótbolta á skólalóðinni eða með strákunum í ÍK. Þar vorum við nokkrar eins og Magga Sig og einhverjar fleiri og seinna komu til liðs við okkur leikmenn eins og systurnar, Þóra og Ásthildur Helgadætur, sem varla stóðu út úr hnefa á þessum tíma.“

Fyrsta Gull- og silfurmótið
Ég hafði farið á nokkrar æfingar hjá Breiðabliki, gat náttúrulega ekki mikið svo ég tók dómaraprófið árið 1982. Örfáum árum siðar efndu þeir Sigurður Steinþórsson og Sveinn Skúlason til æfingamóts fyrir ungar stúlkur, sem þeir nefndu Gull-og silfurmótið, í höfuðið á verslun Sigurðar, Gull- og silfur. Dætur þeirra fengu nefnilega ekki að fara á nein æfingamót á meðan jafnaldrar þeirra og bekkjarbræður fóru á Pollamót í Vestmannaeyjum. Svona þróast þetta. En þetta voru auðvitað aðrir tímar. Á þessu fyrsta móti var bara einn flokkur sem keppti og aðeins fjögur eða fimm lið. Allur ágóði af fyrstu mótunum fór í að senda Blikastelpur í viku æfingaferð til Laugavatns. Síðar tók knattspyrnudeild Breiðabliks yfir þetta mót og ágóðinn dreifðist í allt yngri flokka starfið. Mótið, sem núna heitir Símamótið, er gríðarlega umfangsmikið batterí í dag.“

Breiðablik árið 1972

Breiðablik alltaf barist fyrir jafnrétti
Hvers vegna náði knattspyrna kvenna að festa svona djúpar rætur í Kópavogi?
„Það tel ég að megi meðal annars rekja til þess að Gull- og silfurmótið, sem við köllum Símamótið í dag, náði mjög fljótt að festa sig í sessi auk þess sem fyrsti gullaldartími Breiðabliks var einmitt á þessum árum. Þær urðu Íslandsmeistarar 1977, ´79, ´80, ´81, ´83 og ´90 og unnu tvöfalt ´81, ´82 og ´83. Það hafði gríðarlega mikið að segja. Breiðablik var, að ég tel, fyrsta félagið til að bjóða upp á yngri flokka þjálfun í knattspyrnu kvenna og er nú með alveg niður í 8. flokk. Áður voru bara tveir flokkar sem æfðu; meistaraflokkur og „yngri.“ Breiðablik hefur alltaf staðið sterkt við bakið á rétti stelpna til að iðka knattspyrnu og barist fyrir jafnrétti. Stelpum var til dæmis bannað að spila á takkaskóm á grasi undir lok síðustu aldar, vegna þess að vallarstjórar, sem margir hverjir eru einstaklega sérlundaðir menn, töldu að þær skemmdu það meira en strákarnir. Að hugsa sér, einföld eðlisfræði um hraða, þyngd og fallþunga er fljót að afsanna slíkar kreddur! En svona var þetta. Það hefur kostað blóð, svita og tár að breyta viðhorfum en sem betur fer er staðan gjörbreytt núna.“

Hvernig voru fyrstu gull- og silfurmótin?
„Mótið var fyrst á Smárahvammsvelli og óx út frá því. Það var rosalega gaman. Ég fyllti bílinn minn af Tommahamborgurum, sem var nú aðallinn þá, eftir keppnisdaginn og mætti með á kvöldvöku í Digranesinu. Linda P, alheimsfegurðardrottning, afhenti verðlaun og Maggi Scheving sýndi þrekæfingar. Þetta var sko ekkert slor,“ segir Ingibjörg og brosir. „Það er margs að minnast og flestar bestu knattspyrnukonur landsins hafa stigið fyrstu skrefin sín á mótinu okkar hér í Kópavogsdalnum. Ég man sérstaklega eftir hvað flest lið voru skíthrædd að mæta ÍBV, hérna um árið. Þær voru þá ekki eiginlega að fara að spila gegn ÍBV heldur miklu frekar gegn Margréti Láru sem þær réðu ekkert við. Auk hennar má nefna og Þóru Helgadóttur, Katrínu Jónsdóttir, Ásthildi, Möggu Óla, Söru Björk og margar fleiri. Þær léku allar hér á mótinu. Það jákvæaðasta í þessu er að hér er uppeldisstöð knattspyrnu kvenna á Íslandi og mun vera um ókomna tíð. Símamótið er „fyrst og fremst.“ Fyrsta mót sinnar tegundar og langfremst á landinu. Mótið hefur fest sig svo í sessi að hér mæta fyrrum leikmenn á mótinu með dætur sínar og hafa jafnvel mætt hér í mörg herrans ár, sem leikmenn, þjálfarar og nú mæður. Hér mætast kynslóðirnar og það er svo merkilegt að það er alltaf sólskin þegar þetta mót fer fram. Ég man eftir nokkrum mótum þar sem sólin skein frá fimmtudegi en uppúr klukkan þrjú á sunnudegi fór að rigna en það var bara til að vökva vellina,“ segir Ingibjörg Hinriksdóttir.

Þessi grein birtist í Kópavogsblaðinu 16. júlí 2014.

 

„Stelpum var bannað að spila á takkaskóm á grasi.“

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu