Himneskur og hollur kjúklingaréttur

Á dögunum fór ég á Gló og fékk dásamlega góðan kjúklingarétt. Það kom minni pínulítið og skemmtilega á óvart að Solla notaði kjúklingalæri í réttinn en ekki bringur eins og ég átti dálítið von á. Rétturinn var borinn fram með hrísgrjónum og baðaður í geggjaðri sósu sem ég kunni ekki almennileg skil á en innblásin af þessum rétti skellti mín í tilraunaeldhús í kvöld.

Innihald:

  • kjúklingalæri
  • sætar kartöflur
  • gulrætur
  • laukur
  • broccoli
  • rautt chilli
  • rjómaostur með hvítlauk
  • olía
  • turmerik
  • afrískt kjúklingakrydd
  • pipar
  • himmalaja salt
  • vatn

Aðferð:

Ég átti úrbeinuð kjúklingalæri sem ég hafði lausfryst og kippti þremur lærum úr frystinum. Ég setti smá olíu í botninn á steypta pottinum mínum og kveikti undir hellunni. Þá setti ég turmerik í olíuna, frosin lærin fóru þar ofaná og svo kryddaði ég lærin með afríska kryddinu.

Þá sneri ég mér að því að skera niður gulrætur, sætar kartöflur, chilli og lauk og setti í pottinn jafnóðum og ég lauk við að brytja. Ég velti bringunum í pottinum og þær brúnuðust ágætlega ásamt grænmetinu. Þá bútaði ég broccolí í réttinn, setti hálft box (lítið) af hvítlauks rjómaosti í ásamt eins og einu glasi af vatni. Eftir að suðan kom upp kryddaði ég með salti og pipar. Eftir að suðan var komin upp setti ég lokið á pottinn og setti inní 175°C heitan ofn og lét malla þar í um 15-20 mínútur.

Þetta bar ég fram með naan brauði, en klikkaði á hrísgrjónunum sem væru algjörlega fullkomin með þessum rétti.

Ef þetta væri borið á borð fyrir mig á veitingahúsi myndi ég líklega gefa honum 9,5 af 10 mögulegum. Frábær!!!

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu