Af hverju á ég að kjósa á laugardag?

xs-samfylkingin-300x300Það vita það allir að ég er mikill jafnaðarmaður og hef verið lengi. Stundum hef ég reynt að hafa áhrif á vini mína og fjölskyldu og reynt að sannfæra þau um að mín skoðun í stjórnmálum sé sú sem er skynsamlegust. Ég fór í framboð, var varabæjarfulltrúi í 4 ár, og hef sinnt ýmsum samfélagslegum verkefnum fyrir Samfylkinguna (áður Alþýðuflokkinn) á mínum 50 árum.

Það eru margir sem hafa mikla og djúpa sannfæringu fyrir stjórnmálum, en því miður virðist þeim þó fara fækkandi. Persónulega er ég ekki hissa á því. Stjórnmál hafa á síðustu árum þróast út í það að vera einn risastór skítapollur þar sem allt er leyfilegt. Menn komast upp með að ljúga, segja eitt í dag og annað á morgun, hafa þá skoðun sem er vinsælust á hverjum tíma og villa um fyrir kjósendum, ekki aðeins fyrir kosningar heldur alltaf! Já alltaf!

Heiðarleiki er að mörgu leyti farinn fyrir bí – öllum brögðum í bókinni er beitt til að veiða athygli, atkvæði og 15 mínútna frægð í fjölmiðlum. Þetta finnst mér óþolandi og hefur gert það að verkum að ég hef hægt og rólega dregið mig í hlé frá stjórnmálum. En ég hef þó ekki tapað þeirri sannfæringu minni að jafnaðarmennskan sé það stjórnarform sem henti samfélaginu best og ég trúi því að þeir sem bjóða sig fram og veljast til starfa í stjórnmálaflokkum sé upp til hópa gott fólk með góðan vilja.

Margir hafa sagt við mig, af hverju á ég að taka afstöðu til þessara framboða, er þetta ekki allt sami grautur í sömu skál. Fólk sem skarar eld að eigin köku og hugsar bara um botninn á sjálfu sér. Er ekki bara best að skila auðu?

Jú, það má mæta á kjörstað og skila auðu. En autt atkvæði, eða atkvæði sem ekki er greitt eykur á vægi þeirra sem velja. Líkurnar á því að ýmis tækifæris- og öfgaframboð nái árangri aukast. Er það það sem menn vildu þegar þeir ákváðu að greiða ekki atkvæði? Ég held ekki.

Það má ýmislegt um hinn svokallaða fjórflokk segja og sjálfsagt að ýmsar aðrar skoðanir komi fram. En allir fjórflokkarnir (D, S, V og Æ) telja sig höfða til breiðfylkingar fólks og allir flokkar segja að þar rúmist mismunandi skoðanir. Þessir fjórir ættu því að duga í ekki stærra samfélagi en Ísland er, hvað þá í samfélagi sem telur aðeins ríflega 30.000 íbúa eins og í Kópavogi. Það á ekki að þurfa flokksbrot eins og B, P, X og U (eða hvaða bókstaf sem þessir flokkar hafa) til að þjóna lýðræðinu í Kópavogi.

En svona virkar lýðræðið og niðurstaða mín er því sú að við eigum að fjölmenna á kjörstað og nýta atkvæðisréttinn. Kjósum rétt, kjósum eftir sannfæringu okkar og af því ég er ég þá hvet ég þig auðvitað til að setja X við S. En hvað sem þú gerir, kynntu þér stefnuskrá flokkanna og kjóstu. Þannig, og aðeins þannig, hefur þú áhrif.

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu