Sókn er besta vörnin
„Með hvaða liði heldur þú?“ spurði vinkona mín mig fyrir nokkrum árum. Hún sjálf er eitilharður stuðningsmaður Liverpool, ein þessara sem má ekki missa af einum einasta leik og hélt því lengi fram að liðið hennar væri sigursælasta lið allra tíma og allt það sem púlarar kyrja jafnan á hátíðarstundum.
„Ég held eiginlega ekki með neinu liði,“ svaraði ég og ætlaðist til þess að það væri nóg að halda með Breiðabliki og Íslandi þegar kemur að fótbolta. En nei, ég var ekki látin í friði. „Þú verður að halda með einhverju liði. Annars getur þú ekki giskað almennilega á leikina í enska boltanum!“
Í nokkrar vikur þrjóskaðist ég við en gafst á endanum upp. Ég ætlaði þó ekki að halda með Manchester United, það væri eitthvað svo fyrirsjáanlegt. Auk þess vildi ég ekki gera henni það til geðs að styðja Liverpool, en ég gæti alveg hugsað mér að halda með liðinu á toppi ensku deildarinnar, sem var Arsenal.
Þetta var gott val hjá mér. Liðið „mitt“ varð tvöfaldur meistari undir stjórn Arsene Wenger og var klárlega að spila langbesta fótboltann. Í liðinu voru snillingar og baráttujaxlar eins og Martin Keown, Tony Adams, Lee Dixon og hinn hárprúði David Seaman stóð í markinu. Mér fannst mikið til koma til frönsku leikmannanna í liðinu Vieira, Petit og Anelka. Síðan þetta var hefur Arsenal fagnað tveimur deildarmeistaratitlum og verið meðal þriggja efstu liða í 10 ár af síðustu 13 árum og mér sýnist engin breyting ætla að verða þar á að þessu sinni.
Arsenal – Barcelona á morgun
Á morgun fer fram fyrri leikur Arsenal og Barcelona í Meistaradeild Evrópu, bestu knattspyrnukeppni í heimi. Það er leikur sem ég get ekki beðið eftir að sjá. Ekki aðeins vegna þess að þarna verður liðið mitt að spila heldur einnig og ekki síður vegna þess að þarna mætast tvö teknískustu lið knattspyrnunnar.
Þetta verður örugglega erfiður leikur fyrir mína menn enda hefur Barcelona á að skipa hreint frábæru liði og nokkrum af bestu leikmönnum heims; Messi, Iniesta og Pujol. Í liði Arsenal eru ekki nærri því eins stórar stjörnur en það mun áreiðanlega mikið mæða á þeim van Persie, Fabregas og Nasri.
Það er næsta víst að þessi leikur verður örugglega skemmtilegur og það kæmi mér ekki á óvart ef það rigndi mörkum. Bæði lið spila sóknarbolta, þjálfarar þeirra vita að sókn er besta vörnin og að þeir vinna ekki leiki nema leikmenn þeirra skori mörk. Ég ætla ekki að spá fyrir um úrslitin en ég ætla að spá skemmtilegum leik þar sem fótboltinn mun fá að njóta sín. Ég mun styðja Arsenal, alla leið, en ég mun ekki leggjast í sorg og sút þó liðið mitt lúti í gras.
Ég held nefnilega með Breiðabliki fyrst og fremst og þeir eru Íslandsmeistarar!
Greinin birtist á www.fotbolti.net 15. febrúar 2011.