Kjúklingur með Marókkósku ívafi – held ég!
Tilraunaeldhúsið í kvöld, 29. janúar, var heldur betur gott! Reyndar alveg æðislegt.
Eins og venjulega segi ég ekkert til um hlutföll, það verður hver og einn að finna út fyrir sig sjálfur en það sem ég notaði var:
- kjúklingabringa, skorin í munnbita
- hvítlaukur, skorinn smátt (ég nota þessa rauðu í tágarkörfunum)
- laukur, skorinn í báta, ca. 1 cm á breidd
- spínat
- rúsínur
- rauð paprika, í bitum
- sæt kartafla, skorin í þunnar sneiðar ca 2 cm á breidd
- lime, í sneiðum
- hvítlauksolía
- ólífuolía
- hot garam masala krydd
- salt
- ég vildi að ég hefði sett smá engifer með í þetta og þá hefði ég líklega raspað það.
Ég byrjaði á því að smyrja eldfast mót með hvítlauksolíu, þar setti ég neðst hvítlaukinn, þá laukinn, þvínæst setti ég kjúklinginn og kryddaði hann með hot garam masala kryddi (en líklega hefði farið betur á að setja spínatið á laukinn og svo kjúllann), þá paprikan, kartöflurnar og rúsínurnar (ég setti sem sagt spínatið efst). Meðfram öllu stakk ég einni sneið af lime (af því ég eldaði bara eina bringu) sem ég hafði skorið í fjóra bita og gaf hún óskaplega góðan keim í réttinn.
Þá hellti ég smá ólífuolíu ofaná spínatið (kartöflurnar og rúsínurnar), pakkaði eldfasta mótinu inní álpappír og setti í ofninn sem ég hafði hitað í 200 gráður og bakaði í klukkustund. Þá tók ég mótið út úr ofninum hellti hálfu glasi af vatni yfir og setti aftur inní ofn í 20-30 mínútur (án álpappírsins).
Kryddhrísgrjónin á ég til í stórum bauk, ég sauð þau bara eins og venjulega og setti neðst á diskinn og kjúklingaréttinn þar ofaná. Það er ég viss um að þetta væri himneskt með góðu baguette brauði!