Marokkósk lambatangína
Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að prufa eitthvað nýtt og framandi. Þess vegna gat ég ekki hugsað mér annað en að skella í eitt tilraunaeldhús fyrir ykkur á 200.is. Yfirleitt heppnast tilraunaeldhúsið vel hjá mér en örsjaldan hefur síminn hjá pizzafyrirtækinu bjargað mér fyrir horn. Að þessu sinni vildi ég bjóða ykkur í ferðalag til Afríku (þangað sem ég hef aldrei komið) og kaus því að gera marókkóskan lambapottrétt (tanginu).
Marokkósk lambatangína
Uppskriftin er fyrir 2
- 3-4 bitar af lambaframparti
- 2 msk olía
- 3 msk ólívuolía
- 0,5 tsk engifer (jafnvel meira)
- 0,5 tsk svartur pipar
- 1 tsk paprikuduft
- 1 tsk turmerik
- salt
- 3 gulrætur
- 2 laukar
- kúrbítur
- 2 hvítlauksgeirar
- kóríander og steinselja
- grænar baunir
- 2 tómatar
- 3 kartöflur
- hálft glas af vatni
Aðferð:
Fyrst er olíunni hellt í botninn á pottinum, þá er kjötið sett útí og velt uppúr olíunni.
Þvínæst er kryddið sett ofaná kjötið og því snúið þannig að kryddið fari á báðar hliðar.
Laukurinn er skorinn smátt og ofaná kjötið, gulrætur eru skornar endilangar og lagðar utan með kjötinu.
Þá eru grænar baunir (frosnar) settar ofaná kjötið (ég átti ekki baunirnar svo ég sleppti þeim).
Þessu næst eru kartöflurnar flysjaðar og skornar í tvennt eða þrennt og raðað utan með kjötinu.
Kúrbíturinn er afhýddur, skorinn í bita og settur í miðjuna og hvítlaukurinn stungið niður með.
Tómatarnir eru skornir í sneiðar og raðað ofaná kúrbítinn að þessu loknu er hinn laukurinn skorinn gróft og settur ofan á tómatana.
Loks er steinselja og kóríander sett á miðjuna og loks er Vatninu hellt til hliðar, saltað.
Lokið er þvínæst sett ofan á tanginuna/pottinn og eldað í ofni við 150 gráður um 90 mínútur eða þar til kjötið og grænmetið er steikt.