Frábær fiskréttur í ofni með rótargrænmeti

Tilraunaeldhús í kvöld, 16. apríl 2012. Að þessu sinni hafði ég sankað að mér allskyns rótargrænmeti og svo átti ég ýsubita í frystinum. Þessu skellti ég saman í eldfast mót ásamt salti og karrý og úrkoman varð svona líka glæsileg.

Eftirfarandi hráefni notaði ég í réttinn:

  • gulrætur
  • kartöflur
  • sellerírót
  • sellerí
  • vorlauk
  • brokkolí
  • fiskbita
  • parmessanost
  • sítrónuolíu
  • ólívuolíu
  • salt
  • karrý

Ég byrjaði á því að afhýða gurót, kartöflu og bita af sellerírót. Ég sauð uppá þessu í smá stund, ca. 10 mínútur. Á meðan skar ég smávegis af brokkolí, sellerí og vorlauk og setti í skál. Þá brytjaði ég ýsubita niður og bætti í. Þegar rótargrænmetið var soðið bætti ég því í skálina og setti smávegis af sítrónuolíu og ólívuolíu yfir ásamt salti og karrý. Þessu hrærði ég saman og færði yfir í eldfast mót. Að lokum stráði ég smávegis af parmessanosti yfir og bakaði í ofni við 180 gráður í 15-20 mínútur.

Það hefði sennilega verið snjallt að setja smávegis af vökva með í eldfasta mótið, vatn, mjólk, rjóma eða jafnvel smurost en mér fannst þetta fínt samt enda las ég í dag á netinu að ólífuolía er ein af þeim fæðutegundum sem nefndar hafa verið ofurfæði (SuperFood).

Þetta var einkar gott og ég á klárlega eftir að gera þetta aftur og þá miklu mun meira af sellerírót sem var algjörlega mergjuð í þessum rétti.

 

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu