Það var létt yfir Dollý vinkonu minni þegar ég leit til hennar skömmu fyrir áramótin. Hún sönglaði „Ég er komin heim“ aftur og aftur, skenkti sér í glas en gleymdi alveg að bjóða mér með sér. Þegar ég var rétt að því komin að spyrja hvort hún ætti kaffi sagði hún „hvernig gekk mér í fyrra ljúfan“. „ Þér gekk bara vel“ sagði ég – „Auðvitað – en ekki hvað?“ sagði hún og ég sá bros læðast yfir andlitið á henni.
„En þú komst ekki til þess að ræða um árið í fyrra – eigum við ekki að snúa okkur strax að þessu,“ sagði Dollý og lagði niður nokkur spil á borðið fyrir framan sig. „Mér áskotnuðust þessi spil fyrir nokkrum árum og má til með að reyna þau núna.“
„Já endilega, eins og þú vilt,“ sagði ég en á sama tíma fékk ég illt augnaráð frá Dollý sem sagði „Auðvitað geri ég þetta eins og ég vil, er ég ekki spákonan!!? #%$&$# vitleysa er þetta“

Íþróttir

Svo var eins og slæða væri dregin yfir höfuðið á henni, hárið reis í allar áttir og hún lygndi aftur augunum. „Þetta verður gott ár fyrir íþróttafólkið okkar. Ég sé mikla sól og bjart yfir þeim. Kannski er sólin tákn um gull, kannski ekki. En þetta verður gott ár fyrir okkar fólk. Handboltadrengjunum mun ganga vel í byrjun árs og það rennur algjört handboltaæði á þjóðina. Guðni forseti verður á flestum leikjanna og mun ekki draga af sér í stuðningi sínum við þá.
Ólympíuleikarnir verða í sumar og þar mun okkar fólk standa sig vel og verða þjóðinni til mikils sóma. Eins og ég sagði áðan þá mun sólin skína á íþróttafólkið okkar og þetta verður sannkallað íþróttaár. Stelpurnar í fótboltanum komast á Evrópumótið 2021 og strákarnir verða ansi nálægt því að komast á EM 2020 – en það næst þó ekki því miður.“

Janúar og febrúar

Hér fær Dollý sér sopa, lítur á mig og segir „spilin vilja fara í gegnum hvern mánuð fyrir sig – þau eru ekki sami grautarhausinn og ég.“ Ég þori ekki öðru en að kinka kolli minnug útreiðarinnar sem ég fékk áðan og þess að gestrisni hennar var ekki eins og venjulega þegar ég kem til hennar.
„Janúar verður heldur friðsamur, ef litið er fram hjá frammistöðu handboltalandsliðsins. Veðrið verður til friðs og þar sem þingmennirnir okkar koma ekki til vinnu fyrr en undir lok mánaðarins þá verður fátt að frétta af þeim vígstöðvum. Það gerist ekkert í Samherjamálinu og nokkur mál sem hafa brunnið á þjóðinni verða sett í skúffu og margir vonast eftir því að þar muni þau gleymast að eilífu. En það mun komast upp um mikið undirferli í tengslum við afgreiðslu mála hjá ríkisstofnun og virkur í athugasemdum mun fara hamförum á samfélagsmiðlum, hinir réttlátu mæta fyrir utan stofnunina og mótmæla sem aldrei fyrr. Almenningur mun hins vegar loka blinda auganu – eins og alltaf … eða er það hitt augað, þetta sem sér! Æ hver veit? Færðu mér annan bauk ljúfan – mig vantar meira eldvatn. Já og fáðu þér endilega einn – ef hann er til,“ sagði hún lágum rómi og mér fannst ég sjá blik í auga. Það stóð á endum að aðeins einn baukur var í ísskápnum og færði ég henni hann um leið og ég muldraði „þetta er sá síðasti.“ „Hvað er þetta kona, opnaðu frystinn þar eru kippa – ég bara gleymdi að setja í ísskápinn í gær og vildi tryggja að ölið yrði nógu kalt.“ Hún hló hástöfum en grúfði sig svo aftur yfir spilin.

Mars og apríl

„Ég sagði áðan að strákarnir í fótboltanum kæmust ekki á EM 2020 en spilin mín segja mér að það verði mikil lukka yfir þjóðinni í mars – mér finnst eins og það sé ekki í íþróttum. Það mun gjósa hjá okkur á árinu 2020 og mér finnst eins og Hekla muni létta á sér. Til allrar lukku verður ekkert tjón á mönnum eða mannvirkjum en þar mun lukkan ráða för. Í mars eða apríl munu örlögin taka í taumana og Klaustursdónarnir fá makleg málagjöld -loksins. Þá verður ekki aftur snúið fyrir þá, það sama mun eiga sér stað gagnvart Samherjadúddunum en það mun þó taka mun lengri tíma en eitt ár. Apríl verður mánuður uppgjörs milli þeirra sem hafa staðið í deilum um langan tíma og menn munu fá makleg málagjöld – eða laun erfiðis síns.

Maí og júní

Skráðu hjá þér dagsetninguna 28. maí – þá mun verða stórfenglegur viðburður sem heimsbyggðin mun taka eftir. Líklega mun Karl bretaprins loksins taka við sem konungur eftir að foreldrar hans munu skilja við þetta jarðlíf með skömmu millibili. Elísabet mun sakna Filipusar svo mikið þegar hann kveður að hún mun ekki á heilli sér taka. Hún hafði þó vonað að hún myndi lifa son sinn en henni verður ekki kápan úr því klæðinu. En Karl mun ekki ríkja lengi, hann fer á fund feðra sinna í október og þá tekur Vilhjálmur við og hann mun ríkja langt fram að næstu öld … ekki alveg inn í 22. öldina en langleiðina. Það munu eiga sér stað miklir erfiðleikar í júnímánuði 2020. Hamfarahlýnun lætur ekki að sér hæða og hitar munu verða ofboðslegir í henni Evrópu. Fjöldi ferðamanna flykkjast til Íslands til að flýja hitana og koma hingað í það sem þeir kalla milt veðurfar en við köllum hitabylgju. Þetta verður ógurlegt ástand og hreint ekki skemmtilegt fyrir íbúa á Vestfjörðum þar sem mun rigna eldi og brennisteini og það sama á við um Norðausturlandið. Enn sem fyrr mun veðráttan leika Sunnlendinga best.
Í maí eða júní verður mannskætt slys sem mun hreyfa verulega við þjóðinni en meðal þeirra sem þar verða fyrir er þekktur einstaklingur, fjölmiðlamaður að mér finnst, og verður sorg þjóðarinnar ógurleg.

Júlí og ágúst

Um hásumarið kemur fram stórkostleg kona eða stúlka sem mun hrífa þjóðina og jafnvel heimsbyggðina með sér fyrir það hversu hreinskilin og hreinskiptin hún er gagnvart þeim standa höllum fæti í samfélaginu og samfélagi þjóðanna. Hún er ófeimin við að segja hlutina eins og þeir eru og það er ekki laust við að einhverjir stórbokkar muni hverfa ofan í holuna sína og láti sig hverfa af yfirborði jarðar um stundarsakir. Það er þeirra háttur, flestir vita upp á sig skömmina, en siðblindan er ótrúlegt fyrirbæri og úti í samfélaginu eru fjölmargir einstaklingar sem eru illa haldnir af siðblindu.
Þeir munu síðan skríða aftur úr holunum sínum þegar daginn fer að stytta og halda áfram á þeirri braut sem þeir þekkja, svikamylla og svínarí gagnvart náunganum, græða á daginn og grilla á kvöldin lýsir þessu fólki best.

September og október

Það verða kosningar í september, ekki venjulegar kosningar því Bretar vilja ganga inn í EFTA og það mun vera kosið um þá inngöngu hjá þjóðunum sem eru þar fyrir, Íslendingum, Norðmönnum, Sviss og Lichtenstein. Innganga Breta verður samþykkt og úr verður nýtt bandalag BREFTA þar sem Bretar munu fara mikinn og vilja strax ráða mestu. Þeim verður þó ekki alveg kápan úr því klæðinu og þær þjóðir sem eru þar fyrir munu standa sína plikt en óneitanlega munu þær hagnast verulega á þessu nýja bandalagi.
Í kjölfarið mun verðbólga fara af stað auk þess sem atvinnuleysi mun aukast sem og verkföll verða víða um samfélagið. Kennarar munu fara þar fremstir í flokki. Langþreyttir á því að vera í illa launuðu starfi og stöðugt bitbein samfélagsins og PISA kannana.
Í Hollywood munu íslenskir listamenn láta að sér kveða og njóta nokkurrar virðingar, það á þó ekki endilega við um þá sem eru á bak við myndavélar eða fyrir framan þær heldur allt eins á bak við tjöldin, við gerð tónlistar, klippingu og handritsgerð. Þessi afrek munu þó fara lágt hér heima, furðu hljótt reyndar. Íslendingar eru nefnilega svo grunnhyggnir að eðlisfari að þeir sjá ekki mikilfengleikann fyrr en þeim er bent á hann.

Nóvember og desember

Undir lok árs verður uppljóstrun svipuð því sem átti sér stað þegar komið var upp um framferð Samherja í Afríku og þessi verður hreint ekki minni en sú. Þar verður fyrirtæki eða einstaklingur flækt í ótrúlega flókið fjársvikamál sem teygir anga sína langt út fyrir landsteinana. Þetta er þó ekki dýpra en svo að þetta leyndarmál hefur verið þekkt meðal fjölmargra um langan tíma og menn munu keppast við að segja sig frá málinu. Þetta mál mun lifa eitthvað fram í desember en þá munu allra augu hefjast til himins þar sem verður gríðarlega mikið sjónarspil stjarna, tungls og sólar. Skýjadrífa af smástirnum mun falla til jarðar og einhverjir telja sig hafa fundið loftsteina í bakgarðinum sínum. Þeir verða þó færri en menn ætla, en eitthvað verður þó um að slíkir steinar komi í leitirnar. Þá munu Úranus og Júpíter stilla sér upp hlið við hlið um miðjan desember og skapa sjónarspil sem ekki sést á hverjum degi. Horfið á vestur himininn börnin góð og njótið þess að horfa á alvöru stjörnur en ekki þessar marklausu vestan úr Ameríku.

Umheimurinn, innanlands og utan

Hér tók Dollý sér létta kúnstpásu, fékk sér konfektmola og horfði djúpt í augun á mér. „Þó ég stilli þessu upp eftir mánuðum þá verður þú að muna að ég er er að spá fyrir um framtíðina og atvik framtíðarinnar koma ekki eftir pöntunum, hvorki mínum né þínum. Barn á að fæðast 40 vikum eftir getnað en það getur þó komið á 30. viku eða jafnvel þeirri 41. Sum börn koma jafnvel ekki í heiminn, því miður. Það sama á við um spána mína. Ég veit margt en sumt vill framtíðin ekki veita mér. Ég er mannleg þrátt fyrir allt!“ sagði Dollý og var alvarlegri á svipinn en ég átti von á.

„Heilt yfir verður þetta gott ár fyrir Íslendinga. Katrín stendur sig vel í forsætisráðuneytinu en samt nýtur hún ekki sannmælis og er það fyrst og síðast vegna flokkanna sem skipa ríkisstjórnina með henni. Katrín nær að róa óróleikaraddir innan annarra flokka og síns eigins flokks, en það kostar hana á köflum brosið, gleðina og taktana. Sem er miður því hún er svo dásamleg eins og hún er hún Katrín.
Íslendingum áskotnast gjöf af einhverju tagi á árinu 2020, ég sé ekki hvort það séu nýjar orkuauðlindir eða viðurkenning af einhverri sort, en þetta eykur þjóðarstoltið og samstöðu þjóðarinnar um stundarsakir.
Í Danmörku verða gríðarlegar breytingar á árinu 2020. Það verða þar náttúruhamfarir sem enginn sér fyrir það verða flóð sem leggja nánast heilt byggðarlag í eyði og sorgin þar verður gríðarleg. Þetta mun verða til þess að Danir taka umhverfismál á heimavelli föstum tökum, þeir setja lög og breyta sínum háttum. Danir verða fyrir öðru áfalli þegar dauðsfall verður í konungsfjölskyldunni og þjóðin verður fyrir hálfgerðu áfalli þegar upp kemst um skelfilega háttsemi þar sem reynt verður að ná völdum í stórfyrirtæki þar í landi. Þá munu Danir átta sig á hversu verðmæta og trausta vini þeir eiga meðal annarra þjóða á Norðurlöndum sem munu koma þeim til aðstoðar á ögurstundu.
Svíar sigla undir heillastjörnu á árinu 2020. Þeir hafa unnið sér inn virðingu þjóðanna í gegnum tíðina og það mun koma berlega í ljós á árinu þegar þeim verður falið stórt hlutverk á alþjóðlegum vettvangi. Það eru margir sem líta svo á að Svíþjóð sé heimili friðar og sáttar en þar eins og víðast annars staðar eru framin myrkraverk sem ekki þola dagsins ljós. Svíar eru hins vegar heilir í því sem þeir taka sér fyrir hendur og bera vel þá ábyrgð sem á þá er lögð.
Frakkar standa á krossgötum. Þeir eru að leita að lausn á þeim gríðarlega miklu vandamálum sem þeir standa frammi fyrir og er einfaldlega arfleið nýlendustefnu þeirra á síðustu öldum. Lausn mun finnast og eins og svo oft áður í peningum og hvernig þeim er skipt innan samfélagsins. Úr þessari eldskírn munu Frakkar ná stöðugleika sem á engan sinn líka í sögu þeirra.
Í henni Ameríku mun margt ganga á á árinu 2020. Trump er á fullu að undirbúa kosningarnar 2021 og hann mun ekki draga af sér í neinu. En Bandaríkjamenn eru sjálfum sér líkir og mun Trump njóta meiri vinsælda en nokkru sinni. Gjöf sem hann þáði frá Pútín eftir kosningarnar 2017 mun þó draga dilk á eftir sér og erfiðleikar hans í kjölfarið verða til þess að hann mun eiga fullt í fangi með að vera útnefndur forseta efni Repúblikanaflokksins. Kona mun verða rísandi stjarna innan bandarískra stjórnvalda og árið 2020 verður upphaf mikilla breytingar þar í landi
Liverpool verður enskur meistari með fáheyrðum yfirburðum og stuðningsmannasveitin hér heima mun tryllast af gleði. Það sama verður ekki sagt um stuðningsmenn fornu stórliðanna Manchester United, Arsenal og Tottenham sem eru í sárum nú þegar.
Íþróttaliðin hér heima munu standa sig vel og keppni í deild þeirra bestu verður meira spennandi en nokkru sinni, á það við um knattspyrnu, handknattleik og körfuknattleik já bæði meðal karla og kvenna. Það er græn slikja yfir þessu öllu, þú ættir að kætast við það, en kannski er það bara vegna þess að nú er farið að setja grænt gúmmí á gervigrasvellina.“ Hér hætti Dollý um stund og skellti hressilega uppúr.

Aldrei þessu vant var ég búin að fá nóg, kvaddi vinkonu mína og óskaði henni gleðilegs nýs árs um leið og smellti kossi á kinn hennar.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu