Dollý spáir fyrir árinu 2011
Alþingishúsið stendur í ljósum logum
– Dollý spáir í árið 2011, atburði, fólk og fleira skemmtilegt
Það var næstum því vor í lofti í lok desember þegar ég skottaðist heim til Dollýjar vinkonu minnar. Hún hafði hringt í mig þremur dögum fyrr og spurt hvort ég ætlaði ekki að líta við fljótlega, hún hefði nokkuð að segja mér.
Dollý býr enn á sama stað og opnaði dyrnar um leið og ég renndi í hlað. „Ósköp er gaman að sjá þig, gakktu í bæinn ljúfan mín,“ sagði hún.
Ég var hreint ekki viss um að ég hefði séð þessa hlið á henni áður. Það var einstaklega bjart yfir henni, kannski var hárgreiðslan önnur en áður, háraliturinn, ég gat ekki sett fingur á það.
„Má bjóða þér kaffi,“ spurði hún og bauð mér til sætis í stofunni. „Ha, jú takk ég held ég þiggi sopa hjá þér,“ svaraði ég en sá samstundis eftir því minnug þess hvernig kaffið var hjá henni í fyrra. Þegar ég bragða á kaffinu finn ég að hún hefur tekið stórstígum framförum í kaffigerð og ég drekk kaffið með mikilli ánægju.
Síðasta spá gekk vel eftir
„Jæja ljúfan, hvað segir þú, hvernig gekk mér í síðustu spá?“
Ég varð hálf hissa við spurninguna, hún hafði til þessa ekki skipt sér mikið af því. „Þér gekk bara ágætlega. Ákærur vegna hrunsins urðu færri en margir vildu og Jóhanna situr enn sem fastast þó að henni hafi verið sótt. Það voru sannarlega náttúruhamfarir fyrir austan eins og þú spáðir og þær voru okkur ekki léttbærar. Þú spáðir mjög góðu sumri og það gekk eftir og ferðaþjónustan blómstraði sem aldrei fyrr. Það er kominn nýr meirihluti í Reykjavík og Gunnari var hafnað en hann hefur sótt fram að nýju í Kópavogi þó úr honum sé allur kraftur og siðbótin náði inní sveitarstjórnirnar. Þú hafðir rétt fyrir þér þegar þú nefndir að fimleikarnir yrðu stolt okkar á alþjóðavettvangi og að æska landsins muni verða í fararbroddi í íþróttalífinu. Baltasar Kormákur kom fram með athyglisverða kvikmynd, Inhale.
Auðvitað var eitthvað sem ekki gekk eftir krónan styrktist t.d. nokkuð á árinu, útrásarvíkingarnir eru ennþá í útlöndum. Þá hefur ekki enn verið skipt um þjóðhöfðingja í Bretlandi og Vilhjálmur barnlausi mun kvænast á árinu 2011.“
Icesave til þjóðarinnar
Vinkonan stundi og sagði svo stundarhátt „Ohhhh, bíddu bara þessi drengur, sonur Vilhjálms, kemur í leitirnar þó síðar verði!“
Dollý stökk skyndilega á fætur og gekk að skáp í stofunni þegar hún opnaði hann sá ég að þar inni var að finna ýmsar tegundir af vínflöskum. Hún dró eina fjólubláa fram og skellti slurk út í kaffið sitt. „Jæja, eigum við ekki að drífa í þessu?“
„Jú, er það ekki bara,“ sagði ég og kveikti á upptökutækinu.
„Ætli ég byrji ekki á því að segja þér að fyrsta barn nýs árs verður stúlka,“ sagði Dollý og ég sá glettnisglampa í augum hennar. „En að alvöru málsins þá verður árið 2011 nokkuð gott ár, í heildina litið. Það verður gríðarlega mikið fréttaár og átakaár þar sem menn munu halda áfram að kljást um Icesave og eftirmála hrunsins. Forsetinn mun vísa nýjum Icesave sáttmála til þjóðarinnar, en mér finnst eins og þjóðin sé búin að fá nóg. Það verður lítil þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni og stjórnarliðar munu reyna að smala fólki á kjörstað í þetta sinn. Það verður mjótt á munum en ég held að þjóðin muni segja „já, við erum búin að fá nóg!“ Hvort það þýði að lögin verði samþykkt eða ekki er ég ekki viss um en þjóðin er í það minnsta búin að fá nóg. Eins og laxfiskar á stöng Eins og fyrr verða höfundar hrunsins í sviðsljósinu á árinu, ákærur verða gefnar út á hendur bankastjórunum og eigendum bankanna en skilanefndunum gengur afar illa að hafa uppá fjármunum sem hægt verður að taka uppí skuld þeirra við þjóðina. Eitthvað mun þó finnast í erlendum bönkum en ekki næstum því allt. Víkingarnir munu engjast eins og laxfiskar á flugustöng og sumir munu ná að rífa sig lausa, líklega þeir allra stærstu. Slyngir laxveiðimenn eins og Bubbi munu ekki ná að leggja fyrir þá rétta beitu en ég hygg að þeir muni engja fyrir hann og hann kokgleypa agnið. Blessaður drengurinn, hann þolir illa að eldast.“
„Hver?“ spyr ég.
„Nú Bubbi, fylgstu með kona,“ hvæsir Dollý á mig og það er kominn skrýtinn glampi í augun á henni. „Æ þetta verður erfitt – það er svo mikil breyting í vændum – breyting sem verður erfitt fyrir marga að sætta sig við. Ég þori varla að segja það en mér finnst eins og Alþingishúsið standi í ljósum logum. Erjur þar innanhúss verða meiri og persónulegri en oft áður og utandyra standa menn sem sjá tækifæri til að fá skemmdarfýsn og ólátalöngun sinni fullnægt. Ég trúi því þó tæplega að húsið standi bókstaflega í ljósum logum en ólgan er mikil þarna.
Breytingar á ríkisstjórninni
Mér sýnist að Jóhanna haldi áfram að vera forsætisráðherra en ég sé Steingrím ekki með henni, við hlið hennar er yngri persóna, kona að mér finnst. Steingrímur á erfitt með að hemja sitt lið sem er klofið í herðar niður. Jóhanna mun þurfa að leita á önnur mið til þess að ljúka því verki sem hún tók að sér. Ég hef sagt þér það áður að hún gengur ekki frá hálfkláruðu verki konan sú.“
Dollý lítur upp og horfir djúpt í augu mér „þú hefur mikinn áhuga á framsóknarmönnum, er það ekki?“
„Jú, ég get ekki neitað því,“ svaraði ég.
„Mig minnti það, þeir láta lítið fyrir sér fara framan af ári en þegar líður að sumri verður eins og þeir vakni úr dvala og láta meira að sér kveða. Ég sagði þér í fyrra að ættstór maður muni taka við keflinu, það gengur eftir nokkuð átakalaust. Sjálfstæðismennirnir eru líka í vandræðum, þeir eru ekki á eitt sáttir og þeir sem vilja uppgjör við fortíðina sjá meiri tækifæri í því að leita á ný mið, í þennan nýja flokk sem er í burðarliðnum. Svarthöfði mun ekki láta það óátalið og fylgisveinninn hans mun æpa og emja sem aldrei fyrr,“ segir Dollý og sýpur duglega af kaffinu.
Salomónsdómur yfir Geir
„Bókin sem Davíð hefur verið að skrifa hlýtur að koma út á árinu, hann getur ekki látið það bíða mikið lengur. Þeir hafa verið að úttala sig Árni, Björgvin, Bjarni og hvað þeir nú heita allir og Davíð hefur legið undir miklu ámæli. Hann mun svara fyrir sig drengurinn sá og það verður ekkert hallelúja í þeirri bók. Í kjölfarið munu þau Geir og Ingibjörg gefa út sameiginlega yfirlýsingu sem verður ekki stuttorð en líklega verður það þó ekki fyrr en á árinu 2012. Geir mun ganga vel að verja sig gagnvart landsdómi og hann mun ekki verða dæmdur sekur – það verður kveðinn upp yfir honum Salomónsdómur sem flestir munu geta sætt sig við. Auðvitað verða einhverjir sem ekki verða sáttir en þjóðin verður sátt við niðurstöðuna og það er fyrir mestu. Þeir sem ákváðu að draga hann einan fyrir dóm munu í framhaldinu liggja undir miklu ámæli og hrekjast af þingi, einn af öðrum.“
Mér finnst eins og Dollý sé djúpt hugsi yfir þessu öllu og sé alls ekki sátt við það sem hún sér og finnur á sér. „Verður þingárið okkur til vansa, sem þjóð?“ spyr ég.
„Æ, þetta þras verður okkur ekki til hagsbóta svo mikið er víst. Við munum ekki njóta virðingar á alþjóðavettvangi fyrr en við komumst upp úr þeim djúpu hjólförum sem við lentum í við hrunið.
Þurfum að horfa fram á veginn
Við verðum að fara að hefja okkur upp úr því, fara að horfa fram á veginn en ekki í baksýnisspegilinn. Íslendingar verða að átta sig á því að möguleikar okkar til bjartrar framtíðar er mikil og góð. Svo þurfum við líka að átta okkur á því að peningar eru ekki allt en því miður skipa þeir alltof stóran sess í lífi alltof margra. Í fyrra gaus í Eyjafjallajökli og þá hélt ég að menn myndu skilja að peningar skipta engu máli ef menn halda heilsu og lifi í tiltölulega öruggu samfélagi. Við getum alltaf náð tökum á fjármálunum með samstilltu átaki en náttúran er óútreiknanleg og það munum við finna enn á ný á nýju ári,“ segir Dollý og það dimmir yfir henni.
Umbrot nærri höfuðborgarsvæðinu
„Hvaða hamfarir dynja á okkur?“
„Þarf ég að segja það?“ spyr Dollý og ég kýs að svara henni með þögninni. „Það sem á okkur dynur mun hafa meiri áhrif á þá sem búa hér á höfuðborgarsvæðinu en áður hefur gerst. Það verða umbrot sem okkur órar ekki fyrir, en mér finnst þó að okkur muni líða eins og við höfum sloppið með skrekkinn að þessu sinni. Þetta verður þó til þess að menn fara að sjá það sem raunverulega skiptir máli, sem er eitthvað allt annað en Icesave og útrásarvíkingar. Það gerir þjóðinni á endanum gott, menn átta sig á hvað það er sem raunverulega skiptir máli,“ segir Dollý og sýpur á bollanum sínum.
Ég gef henni færi á að rýna í kristalskúluna sína í nokkra stund áður en ég ber upp næstu spurningu. „Hvað með Kötlu, lætur hún á sér kræla?“
Dollý hugsar sig vel um og horfir djúpt í kúluna sína, „Katla er þarna, og hún hristir sig eitthvað, en mér finnst þó að hún muni ekki láta vaða á næsta ári, nei ég er ekki viss um það. Suðurlandið er búið að fá nóg í bili. En ég sé enn og aftur hamfarir fyrir austan, það er svo sem flestallt fyrir austan okkur og ég hef fengið háðsglósur vegna þess, en ef ég færi að nefna nákvæmari staðsetningu yrði ég sökuð um að hræða líftóruna úr fólki. Þess vegna er bara gott að segja fyrir austan.
Það er svo skrýtið veðurfarið hjá okkur, við höfum haft það virkilega gott hér á suðvesturhorninu en það er ekki sjálfgefið að svo verði áfram. Í mars mun gera hér mikið áhlaup sem setur samgöngur úr skorðum um stundarsakir en við erum þrátt fyrir allt ýmsu vön og munum ekki þurfa að loka flugvöllum og fleiru vegna snjóalaga eins og þeir í Evrópu. Blessað fólkið þarna suðurfrá veit ekkert hvernig á að bregðast við svona veðurfari. Flóð halda áfram að hrekkja Evrópubúa og austur í henni Asíu munu verða hamfarir enn á ný sem skekja heimsbyggðina,“ segir Dollý og er greinilega komin í heimsreisu.
„Obama mun verða farsæll í starfi sínu en það eru margir sem vilja ganga að honum dauðum í bókstaflegri merkingu. Það verður að honum sótt en hann verður vel varinn og sleppur úr þeim hildarleik. Í Bandaríkjunum mun rísa upp ný hreyfing sem síðar mun láta mikið að sér kveða á stjórnmálavettvangi. Þessi hreyfing mun berjast fyrir bættu og betra samfélagi og vill draga úr hernaðarbrölti þeirra. Þeir munu ekki hljóta mikla athygli til að byrja með en þeir munu engu að síður ná að vekja mikla athygli og hafa áhrif á umræður um fjárlög næstu ára.
Í Þýskalandi verður þetta erfitt ár, þeir berjast við sífellt aukinn fjölda innflytjenda og þar í landi er einhverra hluta vegna mjög frjór akur fyrir allskyns öfgahópa. Þeir munu láta mikið að sér kveða og valda ótta og skelfingu langt út fyrir sitt heimaland.
Bretar fara á annan endann vegna brúðkaups þeirra Vilhjálms og Katrínar og margir munu telja að þau álög sem Villi lagði á Kötu með því að gefa henni trúlofunarhring móður sinnar verði Kötu þungbær þegar upp er staðið. Hún mun verða í stöðugum samanburði við látna tengdamóður sína og Beta mun ekki taka hana fullkomlega í sátt fyrr en hún hefur fært heimsveldinu erfingja af réttu kyni. Það getur hins vegar reynst henni erfitt að stjórna því en þau munu eignast saman þrjár stúlkur þegar fram í sækir. Launsonur Vilhjálms er þó alltaf til staðar og mér finnst eins og Beta viti af honum nú þegar og líki vel ætterni hans og ættgöfgi.“
Það er ekki laust við að ég sjái stríðnisglampa í augum Dollýjar þegar hér er komið við sögu. Er hún bara að ljúga að mér, hugsa ég, en hristi þó þá tilfinningu af mér í snarhasti.
„Hvað með íþróttirnar?“ spyr ég.
„Já, erum við ekki alltaf mest og best – Íslendingar?“ spyr Dollý en ætlast greinilega ekki til þess að fá svar. Hún snýr kúlunni sinni tvívegis og segir svo „Þetta verður gott íþróttaár. Handboltastrákarnir okkar munu standa sig prýðilega á HM í Svíþjóð í upphafi árs, og ungu drengirnir okkar í fótboltanum verða okkur til sóma. Þeir munu þó ekki ná því takmarki sem þeir setja sér piltarnir en margir þeirra munu vekja gríðarlega mikla athygli og fjármunir munu streyma hingað til lands í kjölfar keppninnar. Hér heima verður árið rólegt á íþróttasviðinu og ósköp fátt um fína drætti. Marga dreymir um að ná titlum í hús en aðeins einn verður útvalinn, það verður ekki skráð nýtt nafn á stóru bikarana hér heima en mér sýnist að gömul stórveldi munu lúta í lægra haldi fyrir þeim sem yngri eru. Erlendis er ljóst að lið Barcelona verður Spánarmeistari og vinnur Meistaradeild Evrópu, þá verður Messi kjörinn knattspyrnumaður ársins. Já og Eiður mun ekki spila meira með landsliðinu í knattspyrnu, hann er mjög ósáttur vegna slæmrar umfjöllunar fjölmiðla hér heima,“ segir Dollý og lítur skyndilega upp.
„Jæja ljúfan mín, fer þetta ekki að verða gott?“ spyr hún.
„Jú þetta er ágætt en viltu ekki líta einu sinni enn í kúluna þína fyrir mig,“ segi ég í veikri von um að hún muni sjá eitthvað skemmtilegt í lokin.
Dollý verður við bón minni, dregur djúpt andann og á hana kemur undarlegur svipur. „Ja hérna,“ segir hún eftir dágóða stund. „Það er eitthvað hér sem ég hef ekki séð fyrr. Þetta er undarlegt, stórundarlegt,“ hún lítur upp og horfir í augu mér.
Ég bíð spennt eftir því sem hún ætlar að segja mér en þá stendur hún skyndilega á fætur, sækir sér meira kaffi í bollann sinn og bragðbætir.
Þegar hún sest niður aftur rýnir hún aftur í kúluna sína, sýpur á kaffinu og segir: „Það verða kosningar. Já auðvitað verður kosið. Það verður jafnvel kosið tvisvar sinnum, svei mér þá, ef það verður ekki bara kosið tvisvar sinnum – um Icesave – og nýja stjórnarskrá. Samt sé ég ekki miklar breytingar, eiginlega fáránlega litlar breytingar. Ég var búin að segja þér frá Steingrími, já ég held það. Hann þarf líka að kjósa, ætlar hann að vera með eða ekki. Hann á erfitt blessaður drengurinn. Hann er orðinn mjög þreyttur, en það á raunar við um marga fleiri sem bera ábyrgð á þessu landi. Það finnst mörgum eins og þeir njóti lítils stuðnings útá við, það gerir menn dálítið áttavillta. En Steingrímur mun kjósa, þó hann telji sig eiga erfitt val fyrir höndum, þá mun hann kjósa að láta þjóðina njóta vafans og forgangs.
Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki leysast upp eins og líkur eru til nú um stundir. Þeir munu standa þetta af sér enda mun ættarklíkan þar á bæ ekki láta menn komast upp með neinn moðreyk. Það var nú einhver að gantast með það um daginn að e.t.v. myndi flokkurinn sá draga á flot stríðshetjur eins og Davíð og Gunnar, en það verður nú ekki skal ég segja þér, það verður ekki. Þeir munu þó eiga erfitt með að sitja á strák sínum og tala sína meiningu, þó það nú væri.“
Dollý hallar sér aftur í stólnum sínum, horfir á sprungu í loftinu hjá sér og segir svo stundarhátt. „Evróvisíon mun verða eitt allsherjar grín hjá okkur. En ég er ekki viss um hvort við munum hlægja af gleði eða sorg – hallast þó frekar að því að við munum hverfa úr þessari söngvakeppni með sorg í hjartanu og finnast eins og það sé verið að refsa okkur enn á ný í Evrópu. Ítalía mun hins vegar koma til baka, sjá og sigra í keppninni. Það er öruggt!
Jón Gnarr mun njóta áður óþekktrar virðingar vegna óhefðbundinna aðferða sinna við að stýra borginni og Dagur mun njóta góðs af þessum vinsældum Gnarrs. Styrkur borgarmeirihlutans mun verða meiri en nokkur reiknaði með. Dagur á hins vegar í erfiðleikum innan síns eigin flokks – nokkuð sem kemur honum og forystu flokksins mjög á óvart og menn munu styðja hann í æðstu lögum flokksins, það dugar hins vegar ekki þeim sem finnst hann ekki standa sig í því verkefni sem hann hefur tekið að sér.
Það verða stöðuveitingar víða um þjóðfélagið sem mun valda pirringi og svo virðist sem ráðamenn hafi ekki enn áttað sig á því að fólk vill miklu opnari og gegnsærri stjórnsýslu en áður.
Já og svo mun Spaugstofan hætta, þeir hafa lokið sínu starfi í sjónvarpinu drengirnir. En þeir koma þó aftur síðar, það er ég nokkuð viss um,“ hér lítur Dollý upp og horfir á mig.
„Ertu ekki ennþá að vinna á sama stað?“
„Jú,“ svara ég um hæl. „Það fæðast tvö börn á vinnustaðnum þínum, eða í nánasta umhverfi þínu, mér sýnist þó ekki í fjölskyldunni. Líklega í vinnunni þinni, tvö myndarleg börn,“ segir Dollý og ég sé á henni að hún er búin að fá nóg í bili. Ég slekk því á upptökutækinu og stend upp.
„Viltu ekki sitja hérna hjá mér smástund ljúfan mín,“ segir Dollý. Ég sest niður aftur og við spjöllum saman fram undir kvöld. Svei mér ef þetta er ekki ein besta kvöldstund sem ég hef átt í langan tíma.
Dollý er góð kona.