#MeToo kvenna í réttarvörslukerfinu

Sögur kvenna úr réttarvörslukerfinu
Orð eru til alls fyrst – hlustum, ræðum, breytum!
#þögnin rofin #metoo #höfumhátt

1. Var tiltölulega nýútskrifuð úr lagadeild og var að stíga mín fyrst skref í málflutningi
sem sækjandi í opinberum málum. Var komin 5-6 mánuði á leið og það var aðeins
farið að sjá á mér. Þegar ég hafði lokið málflutningsræðu tók verjandi, miðaldra karl,
til máls og sagði glottandi í upphafi sinnar ræðu. “Ég vek athygli réttarins á því að
ákæruvaldið er ófrískt.” Þar með var athygli sakbornings, dómarans og allra
viðstaddra á maganum á mér í miðju réttarhaldi. Þetta var óþægilegt og auðvitað gert
til að slá mig út af laginu. Ég lét sem ekkert væri og hélt bara áfram. Núna öllum
þessum árum síðar man ég í smáatriðum hvernig ég var klædd í þessu réttarhaldi en
ég man ekkert slíkt úr öðrum málflutningum. Þetta var fjandi óþægileg aðstaða sem
ég var sett í – eingöngu á grundvelli kynferðis.

2. Einn úr hópi okkar lögfræðinga heilsaði mér – og örugglega fleiri konum “Hvernig ertu
í henni?” Ég var orðin svo samdauna þessu að ég áttaði mig eiginlega ekki á því fyrr
en kollegi minn (kona) varð vitni að þessu og átti ekki orð. Þá fyrst sá ég þetta í réttu
ljósi, þ.e. hve óviðeigandi þetta væri. Ég var svo vön þessu. En, ég varð alltaf
vandræðaleg. Reyndi að “djóka mig” í gegnum það fyrst en svo lét ég eins og ég
heyrði þetta ekki.

3. Eitt atvik sem ég man alltaf ljóslifandi úr lagadeildinni, en þá sátu nokkrir skólafélagar
okkar (allir kk) fyrir utan lesstofuna og voru að rökræða einhvern dóm eða eitthvað.
Ég fer að blanda mér í umræðuna og eftir einhverja stund legg eitthvað til málanna
sem strákunum þótti erfitt að svara svo viðbrögðin voru orðrétt; “Æji, þarft þú ekki
bara að fara heim að elda eða eitthvað?“

4. Eitt atvik situr í mér úr tíma í réttarfari í lagadeildinni þegar tiltekinn nafntogaður
lögmaður sem nú situr á þingi var fenginn til að fabúlera við okkur um lögmannsstarfið
og hafði frammi mörg niðrandi orð um “þessar vælandi kjellingar í Stígamótum” og
fleira sem tengdist “veseninu” varðandi öll þessi kynferðisbrot.
Þegar hann mætti gagnrýni þá fékk ég t.d. þá gusu yfir mig að það væri “augljóst
hvaða klúbbi ég tilheyrði” og svo uppskar hann hlátur óharðnaðra samnemenda
minna, fyrst og fremst kk sem sáu ekki sólina fyrir þessum snjalla og “orðheppna”
lögmanni.

5. Þessi sami lögmaður kom einmitt í tíma að deila reynslusögum og talaði m.a. um
mansal, hvað það væri nú tilgangslaust femínistaröfl að vera að taka það eitthvað
sérstaklega fyrir (um það leyti sem ,,fyrsta” mansalsfórnarlambið var í fréttum). Það
fauk svo í mig að ég tjáði mig eitthvað, bara til að það kæmi fram eitthvað um mansal,
annað en þessi fullkomlega illa upplýsta skoðun frá honum.

6. Ég sat við hliðina á yfirmanni mínum í hádegismat, á vinnustað þar sem ég var að
sækja um “starfið mitt” á, þ.e.a.s. um áframhald. Yfirmaðurinn hafði alltaf verið
tiltölulega óviðeigandi við mig og aðrar konur, bæði á þessum vinnustað og ég hafði
heyrt sögur frá hans fyrri vinnustöðum. Hann hafði margoft tjáð mér hvað honum
þætti ég myndarleg, opnað fyrir mér hurðir á smeðjulegan hátt og sagt óviðeigandi
brandara. Það sem tók steininn úr var þegar hann, í þessum hádegismat, strauk mér
yfir bakið með þvalri hendi og spurði hvort ég væri ekki örugglega búin að sækja um.
Þetta sagði hann og gerði fyrir allra augum og ég skammaðist mín einhverra hluta
vegna ofan í tær. Mér fannst hann vera að ýja að því að ég væri einhvernveginn hans
viðfang, og að starfsframi minn væri undir því kominn hvort ég leyfði honum að káfa á
mér eða ekki. Ég náði að stama upp að jú, vissulega væri ég búin að því en hef svo
margoft farið í gegnum þessa senu í huganum og langað að svara á svona 100 aðra
vegu.

7. Sem starfsmaður lögreglunnar hef ég setið í kaffitíma á meðan karl vísaði ítrekað til
kvenna í hvorugkyni. Að hans sögn þurfti að ,,passa þetta”, ,,þetta gat ekki unnið” og
,,þetta voru gagnslausir lögreglumenn” og þar fram eftir götunum. Sama hvað ég
leiðrétti hann oft. Einnig var okkur tilkynnt sem heild að við værum síður greindar en
karlar, reglulega með kaffinu. Auk þess að vera nokkrum sinnum strokið um bakið og
axlirnar af mönnum sem ég þekki lítið sem ekkert til.
Í lagadeildinni hef ég ekki verið áreitt en það hefur verið litið fram hjá mér, ekki tekið
undir svörin mín fyrr en strákur sagði það sama og spurningunum mínum vísað frá
sem kennarinn ræddi svo við kennaraborðið með strákunum eftir tímann. Vart er þarft
að nefna að þegar svo bar undir var það ekki í kennslustund hjá konu.

8. Tvítug byrjaði ég í lögreglunni og hef starfað þar í tæp 40 ár. Að hugsa til baka og það
sem maður lét yfir sig ganga án þess að þora að mótmæla er varla rithæft.
Kynferðisleg áreitni var „daglegt brauð“ og bjó maður sig undir það, eins og hægt var,
áður en mætt var á vaktina.
Verst var þegar maður var skráður ein í lögreglubíl með einhverjum sem ítrekað
reyndi að kyssa mann þrátt fyrir mótmæli.
Ég man að ég óskaði eftir því að vera ekki skráð með ákveðnum tæplega miðaldra
manni þar sem hann gekk mjög langt og fékk ég að heyra að konum væri ekki
treystandi í lögreglu. Því var snúið þannig við að ég sem lögreglukona treysti mér ekki
að fara í útköll, það var ekki hlustað á mig þegar ég sagði hvað hafði gerst.
Kynferðisleg áreitni var ekki talin stórmál og mætti ég búast við slíku þar sem ég kaus
að vera innan um alla þessa karlmenn.
Er afar þakklát umræðunni í dag.

9. Löggan er eini staðurinn þar sem ég varð ítrekað fyrir kynferðislegri áreitni á
vinnustað… en lét sem ekkert væri, sló öllu upp í grín og svaraði reyndar stundum
fyrir mig með því að rífa kjaft!

10. Þegar maður lítur yfir farinn veg sér maður hve marg marg oft maður hefur reynt að
bjarga sér út úr óviðurkvæmilegum aðstæðum með því að taka kynferðislegum
athugasemdum eða snertingum og snúa þeim upp í grín. Þetta er sjálfsbjargarviðleitni
en ekki samþykki, þó þeir sem hafa hegðað sér svona hafi örugglega litið þannig á.

11. Þegar ég var í laganámi fórum við í vísindaferð til Sýslumanns á landsbyggðinni.
Áhugaverð ferð. Það var kennari með í för.
Að lokinni vísindaferðinni var haldið á bar í borginni, kennarinn fór með. Ég fór
snemma heim en frétti af því strax eftir helgina að skólasystir mín hafði verið áreitt
illilega af kennaranum. M.a. fór hann með hendurnar inn á hana með aggressífum
hætti. Á barnum, fyrir framan aðra nemendur.
Hún var mjög slegin þegar hún sagði mér frá þessu. Svo slegin að hún gat ekki mætt
í skólann, enda átti hún að sitja undir fræðslu þessa kennara um lögfræðileg álitaefni.
Hún fór heim.
… Hún snéri aldrei til baka.
Ég og fleiri samnemendur fórum fleiri ferðir til skrifstofustjóra deildarinnar og reyndum
að fá fram réttlæti fyrir skólasystur okkar en allt kom fyrir ekki. Þeirra afstaða: Orð á
móti orði getur aldrei leitt til refsingar fyrir kennarann …
Ég verð enn reið þegar ég sé nafni kennarans bregða fyrir einhvers staðar og veit
ekki hvort ég gæti haldið “kúlinu” ef ég mætti honum á förnum vegi. Það hefur aldrei
reynt á það.
. … kannski sem betur fer …

12. Þegar ég var laganemi bauðst mér einu sinni góð einkunn í valnámskeiði af kennara
sem var einnig starfandi í einkageiranum. Árangurinn myndi nást með “einkatímum”.
Þáði ekki boðið og tók ekki námskeiðið svo það reyndi aldrei á hvort að það væri
alvara á bak við tilboðið þó það hafi síðar verið ítrekað. Hef oft velt fyrir mér hvort ég
hafi verið sú eina.

13. Ég, eins og því miður allt of stór hluti kvenna, á því miður of margar sögur að segja.
Deili þó einni þar sem ég var ein þriggja verjenda í máli er fór í ráðgefandi álit
alþjóðlegs dómstóls og ég var eina konan í teyminu. Við verjendurnir unnum eðlilega
nokkuð saman og tók ég meðal annars að mér hluta verkefnisins sem var á mínu
sérsviði. Það kom skýrt fram á tímaskýrslum. Einn verjendanna ákvað að fara ekki til
Lux í málflutninginn. Er dómur féll ákvað dómarinn málsvarnarlaun og kostnað
verjendanna. Einn verjandinn fékk 1.700.000, ég 1.200.000 og verjandinn sem ekki
fór út 1.100.000. Ég fór fram á skýringu á mismunandi þóknun til okkar hjá
dómaranum og hún var eins einföld og frekast var. „Nú, þú ert kona“.

14. Ég vann í einu ráðuneytanna fyrir nokkrum árum og eitt sinn var ég að vinna við erindi
frá undirstofnun ráðuneytisins og þurfti að leita aðstoðar þáverandi skrifstofustjóra
rekstrarskrifstofu ráðuneytisins. Hann gaf nú ekki mikið út á þetta erindi og sagði:
,,Hva, skrifaðu bara eitthvað einfalt svar, þú ert nú ljóshærð, þú ættir að geta skrifað
ljóskusvar”.

15. “Ég get ekki bara sent einhverjar litlar stelpur til að díla við þá”… Kk skrifstofustjóri um
samskipti við forstöðumenn nokkurra ríkisstofnana. “Litlu stelpurnar” voru tveir
lögfræðingar með 4 og 6 ára starfsreynslu í ráðuneytinu.

16. Skammast mín fyrir lögbundna skylduaðild mína að LMFÍ því þar með er ég neydd til
að vera í sama félagi og ákv. karllögmaður sem kemur við sögu í frétt Stundarinnar
26. október 2015, DV 18. febrúar 2016 og Vísis 27. september 2014. „Lögmanni ber
að efla rétt og hrinda órétti. Hann skal gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í
lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.“ Af hverju halda svona kónar
lögmannsréttindum? Treystir LMFÍ þeim til að efla rétt og hrinda órétti og gæta
réttinda minnimáttar? Greinilega, þessi er a.m.k. enn með réttindi.

17. Þegar ég var laganemi fékk ég vinnu á lögmannsstofu í Reykjavík. Þar viðgekkst
ótrúleg kvenfyrirlitning og áreiti af hálfu kk eigenda stofunnar gagnvart kvk
laganemum og fulltrúum. Einu sinni vorum við tvær, önnur stúlka sem einnig var
laganemi, á kaffistofunni þegar tveir eigendur (10 og 30 árum eldri en við) vinda sér
upp að okkur og gefa sig á tal við okkur. Þeir standa þannig að þeir varna okkur
útgöngu úr eldhúsinu – þeir höfðu nefnilega mikinn áhuga á að vita hvaða kk á
stofunni við myndum helst vilja ríða ef við gætum valið.
Annar eigandi bað mig alltaf að vera í samskiptum við ákveðinn kúnna stofunnar.
Þegar ég náði árangri sagði hann alltaf að það væri vegna þess að ég væri svo sæt.
Hann bað mig einnig oft að erindast fyrir sig og mæta á fundi og annað slíkt vegna
þess að ég væri svo sæt. Annar laganemi hafði á yngri árum tekið þátt í
fegurðarsamkeppni. Það var alltaf bara talað um hana og við hana sem “drottningin”.

18. Í boðum hjá ríkisstofnun áreitti skrifstofustjóri (lögfræðingur) mig ítrekað. Eitt sinn
króaði hann mig af úti í horni og greip hann í klofið á mér. Í annað sinn sagði hann yfir
hóp að ég væri annað hvort kynköld eða lesbísk (af því ég vildi hann ekki). Ekki það
að honum eða öðrum kemur ekki við hvort ég er kynköld, lesbísk eða annað. En ungri
konu fannst þetta vont, mjög vont.

19. Af svo mörgu að taka … eigum við að minnast á háttsetta lögfræðinginn sem talaði
kerfisbundið um konur sem “tæfur”?
Á lögfræðiráðstefnuna þar sem skipuleggjandinn var svo líkamlega ágengur að aðrir
fyrirlesarar breyttu sætaskipan þannig að ég væri skermuð frá honum? Um kvöldið
voru svo kommentin frá viðkomandi þannig og umræðan yfirleitt að ég ákvað að fara
úr ráðstefnudinnernum (þar sem ég var eina konan). Skipuleggjandinn elti. Ég var að
færast úr vanlíðan yfir í að verða logandi hrædd þegar dyravörður á veitingastaðnum
steig inn í og lofaði að halda honum inni í 10 mín. svo ég gæti komið mér (ímyndið
ykkur samtalið : « ég er lögfræðingur, þú getur ekkert haldið mér… » ).
Eða seminarið þar sem ég var eina konan og tveir ungir háskólamenn endurtóku allt
sem ég sagði og töldu það góðar hugmyndir frá karlmönnunum sitt hvorum megin við
mig. Reynd kempa (kk) í norrænni lögfræði leiðrétti þá hins vegar nokkrum sinnum og
endaði á að spyrja af hverju þeir rétt « feðruðu » allar hugmyndir nema þær sem
kæmu frá konunni á staðnum… Þetta var ekki ómeðvitaðra en svo að þá snarhætti
þetta! Ég var orðin svo samdauna að ég gnísti tönnum en leiðrétti ekki. Ég geri það
hins vegar síðan.

20. Ung kona, hæfileikarík og metnaðarfull, nýútskrifuð úr laganámi, ræður sig til starfa
hjá stórri lögmannsstofu í Reykjavík. Starfsmaður á stofunni áreitir hana ítrekað
kynferðislega og gengur mjög langt í þeim efnum. Hún reyndi að höndla, vera töff og
vera ein af strákunum fyrst um sinn, en alltaf gekk þetta lengra og lengra.
Ég fékk sjálf sjokk þegar þessi maður stakk tungunni upp í eyrað á henni og greip í
brjóstin á henni fyrir framan mig, allt samt svona “djók”. Hún fékk loksins nóg þegar
hann skellti henni á skrifborðið hjá sér og ætlaðist til þess að hún svæfi hjá sér.
Hennar viðbrögð fyrir utan sjokkið var að tala við sinn yfirmann sem var kona og
greina frá áreitninni. Nokkru seinna var hún kölluð inn á fund nokkurra eigenda þar
sem henni var sagt upp störfum. En ekki leið á löngu þar til svipaðar sögur heyrðust
af sama manni og öðrum starfsmönnum af stofunni. Það sem var hvað sárast í þessu
öllu var að karlmenn úr stéttinni, menn sem við höfðum talið vini okkar, gerðu lítið úr
henni, sögðu hana athyglissjúka og ljúga og því miður voru það ekki bara menn því
þó nokkrar konur sögðu það sama þrátt fyrir að þessi maður væri þekktur fyrir svona
háttsemi.
Það fór að halla mjög undan fæti hjá konunni fljótlega eftir þetta og hún byrjar í óreglu
og berst við kvíða og þunglyndi. Konan lést ung að aldri og það er sláandi að lesa
eftirfarandi úr minningargrein um hana:
„Kannski lagðir þú of mikið á þig, því að loknu lögfræðináminu fór að halla undan fæti
og því fór sem fór.“

21. “Já, ertu að vinna á svona kvennalögmannsstofu” – held ég hafi verið spurð að þessu
svona milljón sinnum. Efast um að allir þeir karlar sem starfa á stofum sem eingöngu
innihalda karlkyns lögmenn fái nokkru sinni þessa spurningu.

22. Mér finnst eiginlega sorglegast hvað maður er búinn að reyna að aðlagast þessu í
langan tíma og um leið verða hálf dofin yfir virðingarleysinu og hrokanum. Þannig að
þetta er ekki síst til að vekja konur og efla. Mjög frískandi að upplifa kraftinn sem
gengur um alla kvenveröld.

23. Á fundi í dag í vinnunni.
Samstarfskona við mig: “töff jakki“.
Miðaldra samstarfsmaður: “Já ég má víst ekki segja að þú sért fín, það er víst
kynferðisleg áreitni”. Ungur samstarfsmaður: “Já nákvæmlega, þetta er gengið allt of
langt – *hnussar*”.
Ég er nú yfirleitt með munninn fyrir neðan nefið en ég var svo kjaftstopp þarna að ég
fattaði ekki einu sinni að benda á að það væri eitthvað mikið að ef fólk sæi ekki
muninn á hrósi og kynferðislegri áreitni.

24. Ég var í aðalmeðferð í stóru sakamáli sem skipaður réttargæslumaður. Á meðan við
biðum eftir að dómarar létu sjá sig fór karlverjandinn mikinn um tilgangsleysi
réttargæslumannsins. Karlsaksóknarinn hafði gaman af þessu sem og ákærði sem
einnig sat við hlið verjandans. Var umræðuefnið hversu léttvægt hlutverk
réttargæslumannsins væri, hversu lítið hann þyrfti að vera á staðnum og að
viðkomandi hefði átt að taka með sér tölvuna til að geta lagt kapal á meðan beðið
væri eftir málflutningnum, ef málflutning skyldi kalla í svona smávægilegu erindi
réttargæslumannsins. Sama hvað ég reyndi að benda karlverjandanum á að það væri
augljóslega ekki sama hver sinnti þessu hlutverki því ég kannaðist ekki við svona
tilgangsleysi réttargæslumannsins, þá gerði hann sig endalaust breiðari á kostnað
mín í salnum án þess að saksóknaranum þætti ástæða til að koma mér til varnar.

25. Starfandi kk lögmaður sem kennari í refsirétti: „Við sleppum að fjalla um hlutverk
réttargæslumanns, enda óþarft hlutverk og kellingastarf“.

26. Þegar við mættum fjórar úr lagadeildinni til starfa í lögreglunni sumarið x. Man þegar
ég mætti á fyrstu vaktina og samstarfsmaður sagði elskulega að ég liti út eins og
flugfreyja í búningnum. Man þegar ég valdi ekki að taka slaginn við varðstjórann sem
fól mér að standa eina vakt í kaffistofu lögreglumanna og uppvarta samstarfsmenn
mína í forföllum konunnar sem starfaði í eldhúsinu. Þeir tóku bakföll af hlátri
karlbekkjarfélagar mínir úr lagadeildinni sem voru með mér á vaktinni. Þeir nutu þess
að biðja mig um kaffi. Man eftir sumarlögreglumanninum sem var alltaf að spyrja
hvort ég væri kynköld af því ég hafði ekki áhuga á honum. Hann var í sálfræðinámi og
fræddi mig á því að rannsóknir hefðu sýnt að karlar sem ná langt væru alltaf með
mörgum konum. Þetta er auðvitað rétt hjá honum og er að koma á daginn um allan
heim. Þetta var auðvitað líka réttlæting fyrir hann þar sem hann bjó sjálfur með konu
og barni. Man eftir eldri lögreglumanni sem vildi endilega bjóða mér á árshátíð
frímúrara. Man vaktafélaga sem neituðu, og komust upp með það, að vera einir í bíl
með konu af ótta ef til átaka kæmi. Man líka lögreglumenn sem sýndu okkur
lögreglukonum sömu virðingu og öðrum. Menn sem voru líka mjög flínkir í erfiðum
aðstæðum á vettvangi. Menn sem aldrei fuku upp og fóru aldrei offari.

27. Með því að tala um þetta saman, konur og karlar, þá mun eitthvað breytast vona ég.
Að við verðum öll meðvitaðri um að kynbundið ofbeldi er bannað! Að kynbundin
áreitni og smættun, t.d. á fundum eða á kaffistofum er ekki í boði. Að þegar við
verðum vör við þetta þá bregðumst við við því en sitjum ekki hjá. Þegar ég varð síðast
vör við slíka hegðun á fundi þá gerði ég ekkert og skammast mín enn fyrir að hafa
bara talað við þolandann eftir fundinn en ekki stoppað atvik þegar það gekk á fyrir
framan fullan sal af fólki. Maður á ekki von á þessu og bregst því síður við en þegar
maður hefur undirbúið viðbragð í undirmeðvitundinni, öll sem eitt, er líklegra að við
sitjum ekki hjá heldur bregðumst til varnar.

28. Ég starfaði sem fangavörður í fangelsi eitt sumar með laganáminu.
Samstarfsmennirnir voru 95% karlmenn og fangarnir 100% karlmenn. Þegar ég kom
fyrst gerðu fangarnir að sjálfsögðu tilraun til að sjá hvað þeir kæmust langt með þessa
ungu konu, sem reyndist ekki vera millimeter, og eftir það ríkti almennt gagnkvæm
virðing og traust í okkar samskiptum. Ég varð aldrei fyrir beinu áreiti af hálfu fanga –
öðru en að sumir sáu sig knúna til að spyrja hvort ég ætti kærasta og bjóða mér í
heimsókn eftir innilokun (sem ég að sjálfsögðu svaraði ekki).
Ég elskaði þetta starf og þótti mjög áhugavert og skemmtilegt að eiga samskipti bæði
við fanga sem og við fangaverði. Ég átti marga vini þarna og þar á meðal var
varðstjóri sem var ca. 20 árum eldri en ég. Eitt kvöldið fórum við saman í lyfjagjöf, s.s.
rölt um alla gangana að gefa kvöldlyfin. Þegar við erum að koma inn í klefa eins
fangans finn ég að varðstjórinn klípur í rassinn á mér. Ég sneri mér við, því ég ætlaði
ekki að trúa því að þessi maður, sem ég taldi ágætis vin og kunningja, hafi gert þetta
og það innan um ca. 10 fanga. En jú þarna stóð hann glottandi. Mér brá þannig að ég
sagði við hann: “Hvað í andskotanum heldurðu að þú sért að gera? Þetta gerir þú
aldrei aftur!” Svo héldum við áfram að gefa lyfin.
Ég tilkynnti þetta aldrei til forstöðumanns fangelsisins. Ég veit ekki hver ástæðan var.
Annað hvort sú að mér fannst ég geta dílað við þetta sjálf – sem er að sjálfsögðu ekki
það sem maður á að gera. Eða það að stuttu áður en ég hóf þarna störf hafði
kvenkyns fangavörður kært samstarfsmann sinn fyrir kynferðislega áreitni og hún var
skulum við segja ekki hátt skrifuð hjá starfsmannahópnum eftir það.

29. Ég man þegar ég mætti á vakt í setustofu lögreglumanna í Reykjavík eitthvert
sumarið 1987-1989. Í setustofunni var sími í glæru plastboxi sem hægt var að ná í
okkur eða skilja eftir skilaboð. Þennan dag hékk miði við símann þar sem búið var að
teikna útglennta nakta konu. Á miðann var skrifað til nafngreinds lögreglumanns á
vaktinni að nafngreind lögreglukona hefði hringt í hann.

30. Ég hef unnið á tveimur vinnustöðum frá útskrift fyrir næstum aldarfjórðungi. Ég hef
almennt verið heppin að vinna með góðu fólki, konum og körlum, sem vill hvert öðru
vel þótt vissulega sé hitt líka til. Ég hef bæði gegnt störfum undir stjórn annarra og
verið stjórnandi sjálf. Ég get ekki sagt að ég hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni með
sama hætti og margar konur hafa lýst undanfarna daga, bæði í þessum hópi og
öðrum. Ég er satt að segja orðlaus yfir því að konur verði fyrir áreiti af þessu tagi í
tengslum við störf sín og hve blygðunarlaust og óskammfeilið það er, samkvæmt
lýsingunum, af hálfu gerenda. Mig tekur það sárt að heyra af þessu. Ég kannast hins
vegar mætavel við virðingarleysi gagnvart mér af hálfu hins kynsins í starfi; að talað
sé niður til mín, t.d. út frá aldri, látið sem ég sé ekki á staðnum, athugasemdir um útlit
hafa fallið og jafnvel óviðeigandi “tilboð” um eitthvað sem ég kærði mig ekkert um.
Þó ég hafi ekki beint dvalið mikið við þessi atvik, sem kannski segir eitthvað um
hversu viðtekinn og samþykktur þessi kúltúr er í samfélaginu og af okkur sjálfum líka,
hafa þau rifjast upp fyrir mér undanfarið og eru því greinilega ekki alveg gleymd. Hér
eru nokkur dæmi:
Nokkur ár eru liðin frá útskrift og ég er á fundi með lögmanni sem átti þá að baki
áratugi í lögmennsku. Við erum að ræða mál þar sem reynir á lög um réttindi og
skyldur starfsmanna ríkisins. Ég geri grein fyrir mínu áliti á lögunum og túlkun á þeim
og þegar ég er búin að því segir lögmaðurinn við mig að það sé ekki von að ég sé
með túlkun þeirra á hreinu, því ég sé of ung til að þekkja gömlu starfsmannalögin og
skilji þess vegna ekki samhengi nýju laganna við þau gömlu. – Eins og ég sé alveg
ófær um að kynna mér þau. Naga mig enn í handarbökin fyrir að hafa ekki svarað
manninum, en svona var virðing mín fyrir aldurs- og reynslumun okkar tveggja þá –
sem sennilega staðfesti fyrir lögmanninum að það væri allt í lagi að setja hlutina
svona fram.
Ég starfaði í nokkur ár erlendis á vegum vinnuveitanda míns. Frábær reynsla og mjög
áhugavert starf, kynntist mikið af góðu fólki frá ýmsum heimshornum og held
sambandi við suma enn þann dag í dag. Meðal erlendra kollega minna var maður
sem ég spjallaði oft við þegar við hittumst. Eitt sinn hafði hann samband við mig og
bað mig að hitta sig í kaffi, sem var bara sjálfsagt af minni hálfu enda alvanalegt að
hitta kollegana í kaffi eða hádegismat og ræða vinnutengd mál – það var bara partur
af starfinu. Alla vega, ég hitti hann á kaffihúsi og erindi hans var aldeilis ekki
vinnutengt, hann vildi taka upp kynferðislegt samband við mig. Og orðaði þetta bara
sisona, eins og hann væri að tala um veðrið. Mér krossbrá, var mjög misboðið og
fann fyrir skömminni. Hvers vegna ég skammaðist mín veit ég ekki. Ég brást þó
snöggt við, sagði honum að þetta kæmi ekki til greina og benti honum á að ég væri í
hjónabandi sem hann vissi reyndar. Honum þótti það ekki skipta máli, það væri allt í
lagi hans vegna. Ég sleit fundi okkar og gekk á braut í leiðslu, spurði sjálfa mig hvort
þetta hefði raunverulega gerst. Það er rúmur áratugur síðan þetta gerðist og ég hef
aldrei sagt frá þessu fyrr en nú.
Fyrsta starf mitt eftir útskrift var starf fulltrúa sýslumanns úti á landi. Yndislegur
vinnustaður með góðu samstarfsfólki. Ég starfaði þar í 4 ár og þegar starfslok mín
nálguðust stóð þannig á að sýslumaðurinn lét einnig af störfum nokkrum mánuðum á
undan mér. Ég var því settur sýslumaður í stuttan tíma þar til næsti tók við. Af því
tilefni þótti bæjarblaðinu á staðnum tilefni til að taka við mig viðtal. Það kom til mín
blaðamaður á skrifstofuna og tók hann langt viðtal við mig. Ég fékk svo viðtalið sent til
að lesa yfir áður en það yrði birt. Fyrsta málsgreinin var 10-12 línur og hún snérist að
mestu leyti um útlit mitt. Það fauk í mig, ég krassaði hressilega yfir málsgreinina og
skrifaði stórum stöfum á spássíuna: „ÞETTA FER ÚT“. Blaðamaðurinn hlýddi. Velti
því fyrir mér hvort karlmaður hefði fengið sams konar umfjöllun um útlit sitt hefði hann
verið settur sýslumaður. Efast um það.
Hef líka oft upplifað ýmsa vanvirðandi framkomu, í orðum og gjörðum. Átti einu sinni
fund með forstöðumanni ríkisstofnunar. Þegar ég hafði svarað spurningu hans um
gildandi reglur um auglýsingar á lausum störfum hjá ríkinu, horfði hann á mig um
stund og sagði svo: „Þú ert bara algjör eintrjáningur“. Það var auðsæilegt að honum
hafði ekki líkað svarið sem ég gaf honum um auglýsingar starfa og þetta var svar
hans við því – ekkert málefnalegt, engar röksemdir, ekkert uppbyggilegt. Kollegi minn,
sem var með okkur á fundinum, sagði mér síðar að forstöðumaðurinn hefði séð eftir
orðum sínum. Hann sagði það hins vegar aldrei við mig og það er það sem ég man. –
Svipaða aðferð viðhafði annar forstöðumaður fyrir mörgum árum, þegar hann gaf mér
„hárblásarann“ vegna frumvarps sem ég var að skrifa og honum líkaði ekki. Hann ku
hafa skammast sín og sagði það við undirmann sinn sem sagði það tveimur
samstarfskonum mínum sem komu og sögðu mér frá því. Hann sagði mér það aldrei í
eigin persónu. Sömuleiðis geymt en ekki gleymt. – Nýlega hitti ég háttsettan
starfsmann alþjóðastofnunar sem var í heimsókn hér á landi, hann fundaði með mér
og fleirum á vinnustaðnum mínum. Þegar fundinum lauk og hann kvaddi þá sem hann
hafði fundað með, ætlaði hann að ganga framhjá mér án þess að kveðja mig. Ég
þurfti að stíga skref til hans og ávarpa hann til að „bjarga“ honum frá eigin „faux pas“.
Ég bjóst við öðru af manni í hans stöðu. – Mér virðist sem vanvirðandi framkomu sé
jafnt beitt óháð stöðu þess sem fyrir henni verður; þótt kona nái árangri og fái
framgang á sínum starfsferli, þá er þessi kúltúr alltaf til staðar. Endurspeglar
sennilega að karlar upplifa framgang kvenna sem ógnun við sína stöðu.
Svo er það tilvikið þegar ég sprakk og svaraði hátt! Gerðist fyrir mjög mörgum árum.
Vegna verkefnis í vinnunni fékk ég alloft símtal frá manni sem kallaði mig í sífellu
„elskuna“ og „vinuna“. Ég þekkti manninn ekkert, hafði aldrei séð hann eða talað við
hann nema í gegnum síma. Þegar ég var búin að hlusta á þetta þvaður í nokkur
skipti, fékk ég nóg og urraði á hann að ég væri „hvorki elskan hans né vinan, hann
skyldi ávarpa mig með nafninu mínu hér eftir“. Það reyndi raunar aldrei á það, hann
varð mjög hvumsa og hringdi ekki aftur.

31. Ég vann hjá ríkisstofnun með laganáminu, byrjaði á öðru ári, vann sumarið milli
bekkja, með þriðja ári og sumarið eftir þriðja ár. Það sumar hóf störf á sama stað
bekkjarbróðir minn í lagadeildinni. Hann hafði ekki unnið nein lögfræðitengd störf
áður.
Þegar kom að fyrstu útborgun erum við eitthvað að fíflast með hvað launin
(kúrsuslaun) séu lág. Ég segi “já, maður verður að passa sig að eyða ekki öllum 62
þúsund kallinum í einhverja vitleysu”. Þá hváir hann og segir mér að hann hafi fengið
85 þúsund.
Ég fór strax til starfsmannastjórans sem fer að tala um reynslu hans af
lögfræðistörfum. Þegar ég hrakti það þá talaði hann um einkunnir. Þegar ég hrakti
það sagði hann að viðkomandi hefði fyrir fjölskyldu að sjá. Þegar ég benti honum á að
viðkomandi byggi hjá foreldrum sínum en ég og maðurinn minn hefðum verið að
kaupa okkur íbúð, þá féllst hann á, með semingi, að hækka mig upp í hans laun. Það
var ekki sjens að ég fengi hærra þrátt fyrir reynslu, hærri einkunnir eða annað.

32. Ég starfaði sem fulltrúi hjá Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Ég var búin að vera
á vinnustaðnum í ca. 2-3 vikur og var rétt að kynnast starfsfólkinu, verkefnunum og
vinnustaðnum. Aðstoðarlögreglustjóri, sem þá var einnig yfirmaður ákærusviðs bað
mig að taka mál tiltekins brotamanns, útbúa ákæru og koma því í birtingu og í dóm.
Þá greindi hann mér frá því að gögnin um þennan tilekna brotamann væru á skrifstofu
hans og þangað ætti ég að sækja þau. Ég gerði nákvæmlega það. Fer upp á
skrifstofu hans og sé þar kassa með gögnum, mál brotamannsins var í kassanum
ásamt gögnum um aðra brotamenn og ætlaða refsiverða verknaði. Að sjálfsögðu tók
ég mál þess aðila sem mér var falið að ákæra og skyldi hitt eftir enda ekki mitt
hlutverk að taka fram fyrir hendurnar á aðstoðarlögreglustjóra og yfirmanni
ákærusviðs og gefa út ákærur hægri vinstri á hina og þessa. Daginn eftir kemur
einstaklingur sem þá var titlaður einhverskonar verkefnastjóri á ákærusviði inn á
skrifstofuna mína þar sem ég var djúpt sokkin í Afbrot og refsiábyrð II eftir Jónatan
Þórmundsson. Hann fleygði kassanum á borðið og öskraði á mig hvað í andskotanum
væri í gangi og öskraði og gargaði á mig eins og göltur á leið í geldingu, rauður af
reiði. Hann jós yfir mig ógeðinu, hvað í andskotanum ég væri að gera og af hverju ég
væri ekki búin að afgreiða málin sem voru í þessum kassa. Yfirlesturinn tók um 10-15
mínútur og ég sat í stólnum eins og illa gerður hlutur og spennan og gleðin yfir nýja
starfinu mínu á sviði refsiréttar hjaðnaði með hverri þeirri mínútu sem maðurinn
öskraði á mig og jós yfir mig svívirðingunum … Ég ákvað að leita til
aðstoðarlögreglustjóra, þessa ágæta manns sem þá var einnig titlaður yfirmaður
ákærusviðs, með von um að tekið yrði á málinu, maðurinn fengi áminningu eða hið
minnsta tiltal fyrir hegðun sína … en NEI, í lok samtals míns við hinn ágæta
aðstoðarlögreglustjóra, spurði hann mig hvort ekki væri nú bara best að ég myndi
flytja mig á hina starfsstöð ákærusviðsins! Þannig var málið afgreitt, ég var tekin úr
aðstæðunum en maðurinn látinn óáreittur og eftir því sem ég best veit, er hann enn í
dag óáreittur og hefur meira að segja fengið nokkurn framgang á sviði
refsivörslunnar. Daginn eftir, sem var laugardagur, fór maðurinn minn með mér á
starfsstöðina mína, hjálpaði mér að pakka niður dótinu mínu og á mánudag mætti ég
á starfsstöðina sem mér var gert að fara á. Nokkrum dögum síðar var hringt í mig og
ég spurð hvort ég væri tilbúin að stýra starfi vistheimilanefndar um könnun á starfsemi
Breiðavíkurheimilisins. Ég þyrfti þá að fá leyfi frá lögreglustjóra á meðan verkefnið
væri í gangi. Ég hef aldrei á ævinni verið eins fegin, að komast út úr þessu. Ég hóf
störf í forsætisráðuneytinu við könnun á starfsemi vistheimila og var þar í rúm sex ár.
Eftir því sem ég best veit er ég enn skráð sem starfsmaður lögreglustjóra í leyfi, á
líklega inni einhvern laun þar einnig en FOKK IT!!!

33. Mér sýnist íslenska dómskerfið sterkasta karlaveldið á Íslandi. Kerfisbundnir fordómar
og vanvirðing við konur innan þess birtast með ýmsum hætti. Jafnréttislögin hafa svo
árum skiptir verið virt að vettugi en höfuðpaurar dómsvaldsins komast upp með það
vegna þess að lögbundinn rammi um dómsvaldið er lokuð geðþóttaregla þar sem
stjórnendur geta komist upp með misbeitingu valds þar sem grundvallarreglur
stjórnsýsluréttar eru virtar að vettugi án eftirlits og ábyrgðar. Við slíkar aðstæður er
ekki óhætt að tala opinskátt, s.s. um það þegar dómstjóri gaf tveimur gjörólíkum
kvendómurum, sameiginlega og samskonar yfirborðskennda umsögn þegar þær sóttu
um embætti hæstaréttardómara árið 2010. Þetta þótti sérstakt og var rætt í
bakherbergjum í héraðsdómi Reykjavíkur árið 2010 en aldrei á neinum formlegum
vettvangi. Það er eins og ein fyrrum samstarfskona (kvendómari) sagði við mig og
aðra á svipuðum tíma þegar ég lagði til við hana og aðrar samstarfskonur að við
skyldum reyna að byrja að ræða ýmis mál og það sem betur gæti farið á formlegum
vettvangi í stað þess að eyða tíma í kvart í bakherbergjum. Við gætum t.d. byrjað að
ræða þessi mál á dómarafundi á dómstólnum. Hún sá engan flöt á því. “Það er ekki
sama hver segir það.” Svo rétt hjá henni!

34. Ég var að mæta á fund hjá ríkisstofnun þar sem ég var að taka sæti í stjórn
stofnunarinnar. Á fundinum var bæði fráfarandi stjórn og þeir sem voru að taka við.
Á fundinum tek ég eftir því að fráfarandi stjórnarformaður horfði mjög óþægilega á
mig allan tímann en talaði þó aldrei við mig. Á leiðinni heim af fundinum fæ ég svo
sms frá manninum þar sem stendur “falleg” og ekkert meira. Skilaboðin verða svo
fleiri í framhaldinu og þónokkuð grófari. Ég segi mínum næsta yfirmanni frá
skilaboðunum og hann leggur til að við tölum við framkvæmdastjóra stofnunarinnar
um hvernig við eigum að bregðast við þessu. Skilaboðin sem ég fékk til baka voru
þau að þetta væri nú ekki mjög alvarlegt og við vissum nú öll að ungar konur þyrftu nú
að þola ýmislegt.

35. Ég man þegar dómstólaráð (yfirstjórn héraðsdómstólanna) gekk fram hjá mjög
hæfum kvendómara með áratuga reynslu af dómstörfum þegar hún sótti um starf
dómstjóra við Héraðsdóm Vesturlands. Ákvörðun dómstólaráðs var án faglegra raka
og í andstöðu við jafnréttislögin. Samkvæmt fundargerð dómstólaráðs voru skiptar
skoðanir innan ráðsins til umsókna hennar og karlsins, bæði héraðsdómarar í
Reykjavík. Kvendómarinn hafði m.a. umfram karlinn áralanga reynslu sem dómstjóri
við Héraðsdóm Vesturlands áður en hún varð dómari við við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Meiri hluti ráðsins (dómskarlarnir) taldi að dómskarlinn ætti „rétt á að skipta um
starfsvettvang“ þar sem hann ætti lengri starfsaldur við Héraðsdóm Reykjavíkur en
einn ráðsmanna (dómskona) taldi að velja ætti konuna út frá sjónarmiðum um
jafnrétti. Ekki var minnst á hæfni samkvæmt bókun í fundargerð. Enda átti hann jú
“rétt” á starfinu að mati karlkolleganna. Þeir töldu sig kannski líka eiga eitthvað undir
karlumsækjandum sem sat í dómaravalnefndinni tilnefndur af dómstólaráði. Kurr var
um þetta á bak við luktar dyr í dóminum en fór ekki lengra. Venja stendur til þess
innan íslenska dómskerfisins að kvendómarar sleikja sárin í hljóði eða í besta falli í
lokuðum hópi samstarfskvenna. Ekki fallið til vinsælda og áhrifa fyrir konur innan
dómskerfisins að hafa hátt. Þær þurfa að velja sína slagi enda eiga þær framgang
sinn undir dómskörlum.

36. Ég byrjaði að vinna á lítilli en virtri stofu strax að loknu námi. Í fyrsta starfsviðtalinu
mínu þá sátu tveir kk eigendur á móti mér og lýstu því yfir hvað þeir væru svakalega
ánægðir með störf mín. Þannig að ég fór að ræða launahækkun. Þá sagði annar
þeirra: en þú þarft enga launahækkun, maðurinn þinn ( sem er xxxx menntaður) er
með svo há laun!

37. Ég var með umbjóðanda sem var að standa í erfiðum skilnaði og forsjármáli. Fulltrúi
sýslumanns var kk og skólabróðir minn úr laganámi. Þegar ég hitti þessa konu (þegar
ég var búin að vinna í svolítinn tíma fyrir hana) fer hún að tala um hvaða starfi
maðurinn minn gegnir og hálf partinn í gríni að segja að ég ætti nú bara að vera fín
frú og hvað ég væri nú eiginlega að gera á vinnumarkaði og fleira í þeim dúr. Fyrst
leiddi ég þetta hjá mér og svo spurði ég hana á endanum (þar sem þetta var orðið
verulega óþægilegt) hvort hún þekkti manninn minn? Nei það gerði hún ekki en kk
skólabróðir minn hjá Sýslumanni var búinn að segja henni allt um hvaða starfi
maðurinn minn gegndi og hann talaði svona við mig líka þegar ég þurfti að hafa
samskipti við hann …

38. Ég man í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar löglærðir kvenaðstoðarmenn leystu ítrekað
af í afgreiðslu dómsins a.m.k. hér áður fyrr. Aldrei löglærðir karlaðstoðarmenn. “Ekki
treyst til þess” heyrði ég eitt skiptið sem skýringu. Man líka karlaborðið í kaffistofunni.
Man eitt skiptið í hádeginu þegar ég sat við það ásamt nokkrum dómskörlum og
karldómari á besta aldri settist hjá okkur. Hann var í miklu uppnámi; pirraður og
reiður. Nýkominn af fundi þar sem hann hafði haldið erindi ásamt konu sem fór
svakalega í taugarnar á honum. Ætli hún hafi ekki verið ósammála honum. Hann
uppnefndi hana stjórnmálafræðipíkuna! Ég spurði þá hvers vegna karlar uppnefndu
iðulega konur með kynfæraheitum. Nokkur umræða fór fram og niðurstaða þeirra var
að ástæðan væri sú að karlar væru alltaf að hugsa um kynlíf. Man ekki hvort það var
á 2ja sekúndna eða mínútna fresti – skiptir heldur ekki höfuðmáli.

39. Ég man þegar ég og annar kvendómari buðum okkur fram ásamt fjórum sitjandi
stjórnarmönnum í fimm manna stjórn Dómarafélags Íslands. Af þessum fjórum sitjandi
voru tveir karldómstjórar og verðandi karldómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur. Að boði
þeirra gerði dómarinn sem stýrði fundinum það að tillögu á fundinum að sitjandi
stjórnarmenn skyldu klappaðir upp og kosið á milli mín og hins kvendómarans! Um
skýrt brot á samþykktum félagsins var að ræða og meginreglum félagaréttar. Þar sem
ég og þrír karldómarar andmæltum tillögunni féllu sitjandi stjórnarmenn frá tillögu sinni
og samþykktu að kosið yrði um þá líka. Þegar einn fundarmanna krafðist skriflegra
kosninga þurfti að gera hlé til að sitjandi stjórnarmenn gætu skrifað nöfnin sín á
kjörseðlana þar sem tilbúnu forprentuðu kjörseðlarnir voru bara með nöfnum okkar
tveggja kvenframbjóðendanna, sem sátum ekki fyrir í stjórninni. Í hléinu heyrði ég
samstarfskonu mína í Héraðsdómi Reykjavíkur segja við einn af stjórnarmönnunum,
karlkollega okkar í Reykjavík: “Ég var búin að segja þér að þetta gengi ekki!” Man líka
þegar þegar ég sagði karllögmanni frá þessu skömmu seinna og hann svaraði um
hæl: “Heldurðu að þeim hefði dottið þetta í hug ef þetta hefðu verið tveir karldómarar
sem hefðu verið að bjóða sig fram?” Þá var ég ekki einu sinni sjálf búin að fatta þann
flöt á farsanum.

40. Ég er einnig meðlimur í #metoo grúppum tónlistarkvenna og kvikmyndakvenna og er
sá bransi afar harður og talsverð valdbeiting, óheilbrigð samkeppni og þöggun á sér
þar stað.
Ég verð þó að viðurkenna að ein helsta kynjabundna vanvirðing sem ég finn í mínu
starfi hefur orðið á sviði mínu sem lögfræðingur. Hvergi finnst mér vera meiri
mansplaning, besservisseraháttur og kynjabundinn yfirgangur. Í deildinni og svo
seinna í starfinu lærði maður að það eina til að komast áfram væri að svara í sömu
mynt, og að reyna að vera jafnvel með enn meiri besservisseragang og yfirgang. If
you can´t beat them then join them … Ekki misskilja mig, ég hef unnið með
stórkostlegum karlmönnum sem allir hafa marga kosti að bera, en yfirleitt blundar
niðri einhver vanvirðing og stutt er í yfirganginn.
Ég er orðin svo langþreytt á slíkum samskiptum að ég hef margoft íhugað að hverfa
alveg af braut lögfræðinnar og snúa mér alfarið að kvikmyndum og tónlist, sem er afar
írónískt, þar sem þessir tveir heimar ættu í raun að vera enn harðari!
Í ljósi #metoo byltingarinnar vona ég þó innilega að eitthvað breytist og að konur í
réttarvörslukerfinu stígi loks fram. Ég fæ a.m.k. von í hjarta mér að ég geti aftur farið
að starfa við námssvið mitt með hjarta og elju. Þó við séum kannski flestar orðnar afar
samdauna ástandinu (a.m.k. hvað varðar kynjabundið ójafnrétti, hér er ég ekki að tala
um kynferðislega áreitni) þá hljótum við að geta verið sammála um það að það geri
alls ekkert betra að svara í sömu mynt, eða verða jafnvel enn harðari, slá viðkomandi
utan undir o.s.frv. Best er bara að þessu ójafnrétti linni alfarið og að við getum öll farið
að sinna starfi okkar og hugsjón af hjarta og heilindum og með virðingu fyrir
skoðunum, reynslu, starfi og hjarta annarra.
Hér deili ég þremur sögum sem ég hef fundið fyrir í starfi mínu, en þær eru í raun
óteljandi og þetta er bara það fyrsta sem kemur upp í huga mér:
Ég var á þriðja ári í laganáminu og hafði fengið mánaðar lærlingsstöðu í ráðuneytinu
X. Síðar í mánuðinum hóf einnig karlmaður þar starfsnám, þá á 1. ári í lagadeildinni
og því yngri en ég. Við vorum með skrifstofur beint á móti hvort öðru. Hann var hinn
viðkunnanlegasti, en hafði ekki mikla þekkingu á lögfræði, enda einungis á 1. ári.
Flest verkefni enduðu því hjá mér og ég reyndi að klára þau eftir bestu getu og tók
aldrei sérstakan heiður af. Það brást ekki að þegar lögfræðingar deildarinnar og
annarra deilda, sem og ritarar og aðrir starfsmenn ráðuneytisins þurftu að vita hvar
eitthvað mál væri statt, að þau gengu inn ganginn, litu til vinstri (og sáu mig á minni
skrifstofu) og svo til hægri (þar sem KK laganeminn sat) og án þess að hika gengu
þau inn á skrifstofu til KK laganemans og spurðu um hitt og þetta. Hann svaraði þeim
alltaf og klóraði einhvern veginn í bakkann, og aldrei beindi hann þeim til mín til að fá
svör. Eftir að starfsmaðurinn var farinn af skrifstofunni kom hann svo yfir til mín og
spurði mig um málin sem ég svaraði og leiðbeindi honum í gegnum, þó ég hafi
auðvitað ekki verið með mikla reynslu sjálf. Ég man hvað það var farið að sjóða í mér
við lok starfsnámsins, og það var í raun ekkert við hann að sakast, heldur starfsmenn
ráðuneytisins, sem augljóslega gerðu bara ráð fyrir að hann væri betri til svara en ég.
Í óteljandi skipti hef ég verið kölluð “vinan” og “elskan” á fundum, af karlmanns
kollegum mínum, með yfirlætisfullu attitude-i og viðmóti. Yfirleitt læt ég það bara
viðgangast og læt sem ekkert sé og reyni að halda mínu striki.
Einu sinni var sussað á mig á fundi. Mér brá svo mikið að ég varð kjaftstopp, en sem
betur fer tók samstarfskonan mín upp hanskann fyrir mig og setti hnefann í borðið (í
orðsins fyllstu merkingu) og lagði línurnar fyrir viðkomandi, sem þó skammaðist sín
nokkuð eftir það.

41. Ég var á málþingi lögmannafélagsins sem ungur héraðsdómslögmaður og þar voru
margir eldri lögmenn sem höfðu mikinn áhuga á að spjalla við okkur ungu konurnar
sem voru nýkomnar í stéttina. Þegar ég hafði orð á því að mig langaði til útlanda í
framhaldsnám sagði einn við mig «hvers vegna í ósköpunum? Þú þarft að finna þér
mann og menn vilja ekki að konurnar þeirra séu betur menntaðar»

42. Ég var á bar ásamt vinum þegar ég hitti dómara sem ég var málkunnug. Hann var
nokkuð hress og vildi mikið spjalla, aðalega um málflutning í máli sem hann hafði séð
og taldi mig hafa leyst vel úr hendi. Ég var nokkuð upp með mér yfir að dómari í svo
hárri stöðu hefði svona mikið álit á mér. Síðan fer ég á barinn til að sækja mér drykk
og þá er allt í einu þessi dómari kominn fyrir aftan mig og búinn að setja hendur sínar
á brjóst mér. Ég tæklaði þetta eins og ég hafði lært í gegnum tíðina, með því að hlæja
og segja honum að láta brjóstin á mér vera. Síðar hefur leitað á mig spurningin, ef ég
þarf að flytja mál fyrir þessum dómara, væri hann þá hugsanlega vanhæfur?

43. Þegar ég var í lagadeild þá bar mikið á því að sumir af prófessorunum héldu upp á
suma karlnemendurna og fólu þeim alls kyns verkefni fyrir sig. Oftar en ekki vegna
þess að sömu nemendur sóttu í að verða vinir prófessoranna. En við stelpurnar
vissum að við gætum aldrei keppt við þá – því ef við færum að gera okkur jafnt dælt
við einhverja kennara, þá myndu strax fara á kreik sögur um að að við værum bara
að sofa hjá þeim.

44. Ég hef í fjölmörg skipti verið áreitt kynferðislega og vegna kynferðis, bæði sem
almennur starfsmaður og sem stjórnandi innan lögreglu og ákæruvalds. Sú
kynbundna áreitni sem hefur haft mestu áhrifin á mig innan lögreglu var af hálfu
stjórnanda. Áreitnin var ítrekuð og fólst í því að gera lítið úr athugasemdum mínum á
fundum, setja út á klæðaburð minn, mér var líkt við vændiskonu, hann vitnaði til þess
að til væru dónapóstar um mig og fleira í þeim dúr. Það versta var að allir þessir
atburðir gerðust í áheyrn annarra stjórnenda, oft á tíðum á fjölmennum fundum og
það án þess að nokkuð væri að gert, enginn sagði neitt og viðkomandi átti marga
viðhlægjendur.
4

5. Þá hef ég líka þurft að þola kynferðislega áreitni af hálfu lögmanna sem hafa starfað
sem verjendur í málum sem ég hef sótt. Áreitni eins lögmanns gekk svo langt að
margir á vinnustaðnum vissu af því og var svo komið að samstarfsmenn gættu þess
að gefa honum ekki samband við mig ef hann kom eða hringdi á skrifstofuna.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu