Dollý spáir fyrir árinu 2026
Það var óvenju hlýtt úti þegar ég knúði dyra hjá Dollý vinkonu minni. Hún var nýlega flutt í elliblokk í Kópavoginum og bað mig um að kippa með mér fjórum kippum af bjór þegar ég kæmi. Ástæðan er að nágrannavarslan var farin að líta hana hornauga þegar hún kom klyfjuð úr Smáríkinu.
Ég hringdi dyrabjöllu og tók lyftu upp á fimmtu hæð með stórkostlegu útsýni í suðvestur yfir Reykjanesið og sjálfri mér til mikillar furðu, yfir golfvöllinn í GKG! Hver hefði trúað því að Dollý ætti heima nærri íþróttasvæði?
Íbúðin var smekklega innréttuð og snyrtileg, aðeins öðru vísi en gamla íbúðin hennar. „Þær voru að fara þrifakonurnar,“ sagði Dollý eins og hún læsi hugann minn. „Hvar er bjórinn? Fékkstu Jóla?“ spyr hún mig og tekur af mér þungan pokann eins og hann innihaldin fjóra fjaðurkodda.
Hún skellir pokanum á svalirnar, opnar sér bauk og sýpur hressilega á. „Velkomin!“ sagði hún og sælusvipur kom á andlitið á henni. „Skoðaðu þig endilega um, allt sem þér líkar vil ég heyra, mér er alveg sama ef þú ert ekki sátt.“ Hreinskilnin var söm við sig hjá vinkonu minni, en satt best að segja líkaði mér ákaflega vel við íbúðina alla og sagði henni það. Brosið sem kom á andlitið a henni var eins og vorið, hlýtt og bjart.
„Hvernig gekk mér í fyrra?“ spurði hún og saup á ölinu. „Þér gekk óvenjuvel. Reyndar svo vel að ég er næstum farin að trúa því að þú sért í alvöru spákona!“ Vorið breyttist í rigningarsudda að hausti á örskotsstundu! „Hvurslags … auðvitað er ég spákona, þú hefur komið hingað í 20 ár og ert að átta þig núna á því að ég sé spákona! Ja hérna hér – hvers konar six seven er þetta kona!“
Það datt af mér andlitið og ég frussaði örlitlu af vatninu sem hún hafði fært mér. Hún fylgdist svona vel með fréttum þessi elska – hver var ég eiginlega?
„Þú þarft ekki að segja mér hvernig mér gekk – ég les fréttir. Þetta var ágætt hjá mér!“
Enn á ný sótti að mér smávegis hóstakast en náði að stynja „Viltu þá ekki bara byrja?“
„Hverskonar dónaskapur er þetta eiginlega – leyfðu mér að gera mig tilbúna ég segi þér að kveikja þegar allt er orðið eins og það á að vera.“
Ég settist á svalirnar og naut útsýnisins um stund og laumaðist í einn öl hjá vinkonu minni. Nóg var til. Það var næstum hægt að vera dáleiddur af þessu útsýni og mér brá dálítið þegar hún kallaði á mig „Komdu, ég er tilbúin!“
Hún hafði sett dúk á lítið hringlótt borð á því var kristalskúlan hennar og nokkur spáspil sem hún fletti í öðru hvoru. Á höfði var hún með köflóttan klút með kögri og það hringlaði í einhverju sem hún hafði í vasanum.
Stjórnmálin
„Ertu búin að kveikja?“ – jú ég setti símann á borðið og hún byrjaði á að ræða um stjórnmálin.
„Það verða sveitarstjórnarkosningar í vor og þær verða sögulegar í meira lagi. Hægriöfgaflokkar munu njóta mikilla vinsælda og það eru líkur á því að Miðflokkurinn verði í meirihluta í nokkrum stórum sveitarfélögum á Íslandi. Góða fólkið mun fara á límingunum hvað eftir annað og samfélagsmiðlar loga eins og áramótabrenna í aðdraganda kosninga. Það verða óeirðir hér og þar um landið, mér finnst ég sjá vandræði í Reykjavík, Keflavík og Hafnarfirði þar sem andstæðar fylkingar munu takast á. Fólk er mjög fljótt að taka það persónulega sem stjórnmálamenn segja og gera í hita kosninga. Það er bara þannig, og hefur alltaf verið, að stjórnmálamenn segja það sem fókið vill heyra – sérstaklega í kosningabaráttu.
Það verða mikil vandræði í Reykjavík og þó Samfylkingin muni fá ágæta kosningu í borginni sé ég ekki að þau verði í meirihluta. Það vill enginn vinna með forystunni þar. Sjálfstæðisflokkurinn mun vaxa talsvert frá síðustu kosningum – þau tala inn í hægri öfgana og talsmáti þeirra mun jaðra við rasisma. Það mun fara afar illa í marga og orðræðan í aðdraganda verður engri annarri lík! Margir munu taka sér langt frí frá samfélagsmiðlum enda munu falsfréttir og lygar leika um samfélagið sem aldrei fyrr!
Samfylkingin er í stökustu vandræðum í borginni þó flokkurinn mælist með himinskautum á landsvísu. Það er einhver óára yfir forystunni í borginni og formaður flokksins á í stökustu vandræðum með að finna einhvern sem getur hægt og örugglega ýtt borgarstjóranum út í horn.
Í Ölfusi mun Elliði ná hreinum meirihluta og reyndar svo miklum meirihluta að það nálgast einræði. Hann er líka ansi öflugur kappinn og það verður að viðurkennast að Ölfusið er ágætlega rekið. Það sama má segja um aðal bæjarstjórann hann Kidda minn í Óló – hann hefur aldeilis staðið sig vel, enda hefur hann mikið leitað til mín og beðið mig um að spá fyrir um helstu hagtölur. Ég hef ekkert vit á efnahagsmálum og þekki ekki mun á debit og kredit en Kiddi er bara svo skemmtilegur að ég get ekki annað en hjálpað þessum öðlingi. Hann er hins vegar að fara að hætta og það verður mikil eftirsjá að honum. Mér finnst eins og hann segi þetta gott í vor og fari í það sem honum finnst skemmtilegast, að eltast við skjátur.
Það verður ýmislegt gert til að sameina vinstri vænginn en ef það á að verða þurfa þau að koma sér saman um eitthvað annað en verndun íslenskrar náttúru, samfélagsleg verkefni og móttöku flóttafólks. Allt eru þetta góð og gild verkefni en í einstaklingshyggju nútímans þá vill fólk eitthvað sem það sjálft nýtur góðs af og það strax. S.s. betri samgöngur, eflingu heilbrigðisþjónustu og betri skóla. En hvað veit ég um pólitík? Ekki neitt!
Færðu mér einn öl elskan, hann er þarna úti á svölum, það er svo ljómandi svalt þarna úti núna!“
Dollý tók sér stutta stund og ég hélt að nú væri komið nóg af pólitík – en ég vissi greinilega ekki neitt.
„Í mínu sveitarfélagi, Kópavogi, mun Sjálfstæðisflokkurinn fá hreinan meirihluta, aðallega af því að það nennir ekki neitt almennilegt fólk að fara í þessa ormagryfju sem stjórnmálin eru. Annars er hún Ásdís mín hér hjá mér á næstum hverjum degi. Þegar hún kom fyrst sagðist hún alltaf heilsa upp á nýja Kópavogsbúa, þá benti ég henni á að ég hefði búið hér frá fæðingu. Þá fór hún að rúnta hér fram hjá með vinum sínum og alltaf var hún að banka upp á með þeim og kynnti mig sem sinn helsta stuðningsmann!“ Hér skellti Dollý uppúr og sagði „Ég hef aldrei kosið hana – og ætla ekki – sama hvað hún suðar mikið! Hún kemur hins vegar með ágætt fólk með sér þannig að mér er alveg sama sko.
Valkyrjurnar
Valkyrjurnar munu halda áfram að standa sig vel. Hún Inga þykir vera til vandræða en það er ekki hún, það eru þeir sem eru með henni í flokki sem eru stundum smá vandamál. Þær Inga, Togga og Krissa eru ákveðnar í að láta þetta samband ganga og það tekst hjá þeim. Það er alveg sama hvað þeir engjast um strákarnir og hún Guðrún okkar allra á í stökustu vandræðum með að halda sínu fólki í flokknum. Alþingi mun verða sér til skammar a.m.k. einu sinni á árinu og góða fólkið á samfélagsmiðlunum mun fara hamförum í gagnrýni sinni á það sem þar gengur á.

Það verður reyndar breyting á ríkisstjórninni strax í byrjun árs þegar Guðmundur Ingi hættir sem ráðherra og þingmaður seinna og hún Ásthildur Lóa tekur aftur við barnamálaráðuneytinu. Og hvers vegna ekki? Af hverju má konan ekki sinna þessu verkefni þó hún hafi sofið hjá smástrák fyrir 35 árum síðan?“ spurði Dollý og frussaði smá af vanþóknun.
„Í útlöndum munu hægri öfgaflokkar ná miklum styrk og þar fer fremstur í flokki forseti Bandaríkja Norður Ameríku. Dónald Jón Trumppp…“ Dollý frussaði þegar hún sagði nafnið og bætti við „Hann ætti frekar að heita Dónald Duck jafnvel Jóakin Aðalönd hugsar bara um eigin hag og það að reyna að græða sem mest.
Trump er enn að reyna að ná yfirráðum á Grænlandi og gerir það bæði fyrir opnum tjöldum og í alls kyns baktjaldamakki. Danir geta hins vegar verið harðir í horn að taka þegar sá gállinn er á þeim og þeir munu verja Grænland með kjafti og klóm.

Ameríka er á hraðri leið með að missa sinn stað sem eitt af þeim ríkjum heims sem heimurinn lítur upp til. Land hinna frjálsu, heimili hinna hugrökku er algjörlega ekki staðan núna. Núna þegja hinir hugrökku þunnu hljóði af ótta við forsetann eða um að þeir missi frelsi sitt. Málfrelsið er stórkostlega heft og falsfréttir fara um þennan heimshluta sem aldrei fyrr.
Ég vil ekki bara færa þér leiðindafréttir mín kæra en mitt í þessu öllu mun koma fram einstaklingur sem þorir, getur og vill og ég er ekki frá því að það sé kona. Nafn Michelle Obama kemur til mín aftur og aftur en ég tilfinningin er að það sé ekki hún en konan verður dyggilega studd af Obama hjónunum. Trump gerir allt sem hann getur til að þagga niður í henni en hún hefur svo stóran fylgjendahóp á samfélagsmiðlunum og mikið af fólki í kringum sig að hann nær ekki höggi á hana og verður vitaskuld alveg brjálaður fyrir vikið.
Grínarar um allan heim fara á kostum þegar þeir gera gys að Trump og það leggst ekki vel í kappann. Morð á þekktum andstæðingi Trumps mun vekja upp ótta um að hann sé að nota leyniþjónustuna til að ganga til bols og höfuðs á andstæðingum sínum en hann sver það algjörlega af sér. Hins vegar mun Melania kona hans fara í langt „frí“ frá sviðsljósinu og Hvíta húsinu. Ástæðan er sögð vera heilsufar hennar og orðræða um anorexíu og slíka sjúkdóma mun fljúga hátt. Hún er hins vegar bara orðin hrædd um eigið líf og orðspor og dregur sig í hlé. Hún mun þó taka þátt í mikilvægum viðburðum s.s. þegar Trump opnar austur álmuna við Hvíta húsið og þegar Trump sendir geimskip af stað til Tunglsins með óbreytta túrista innanborðs. Allir koma þeir aftur og enginn þeirra deyr, eins og segir í kvæðinu, en það verður þó bara farin ein ferð þetta árið.
Í Rússlandi mun Pútín taka sótt og að honum verður sótt. Ég sé hann ekki allan en hann mun missa völd til einhvers ólígarka sem er ekki nægilega vel við aðra þjóðarleiðtoga og einangrar Rússa til mikilla muna. Sá mun að lokum innlima Úkraínu og mun Evrópa sitja hjá í þeim átökum þar sem þau vita ekki hvar þau hafa nýja leiðtogann og hætta ekki á þriðju heimstyrjöldina.
Í Kína munu yfirvöld innlima Tævan og það án mikilla afskipta annarra ríkja. Það leggur enginn í kínverska björninn og smátt og smátt er Kína að færa sig upp á skaftið í Asíu. Það er ekki það allra vesta sem hefur komið fyrir veröldina því þrátt fyrir allt þá eru Kínverjar leiðandi í tækni og vísindum og eru óhræddir við að beita öllum brögðum til að búa til nýjungar sem heimsbyggðin ánetjast. Það verður ekkert six seven hjá þeim. Meira svona Jiǔ Shí – eða níu tíu.
Fræga fólkið

Shakespeare sagði að það væri eitthvað rotið í Danaveldi. Ja, ég get sagt þér að það er eitthvað alvarlega rotið í Bretaveldi. Eftir að Elísabet vinkona mín féll frá hefur allt farið á hliðina í fjölskyldunni sem getur farið á hliðina. Ekki aðeins hefur Kalli kóngur hent litla bróður sínum, uppáhaldi Elísabetar, fyrir ljónin, heldur er Villi tilvonandi kóngur gert ýmislegt til að gera stjúpu sinni lífið leitt. Svo er það auðvitað varahluturinn, hann Harrý minn, sem lifir ekki eins flottu lífi í USA og hann hefði viljað. Hákarlinn hún Meghan er að fara illa með hann og smátt og smátt er hann að átta sig á að jafnvel þar var hann bara leikmunur, varahlutur, sem hún getur kastað frá sér þegar henni hentar. Hann Harrý mun ná sáttum við karl föður sinn og Karl verður mjög ánægður með að fá að hitta barnabörnin sín í mýflugumynd á árinu.
Morgan minn Freeman fellur frá á árinu eftir áralanga baráttu við margskonar veikindi og sára verki eftir bílslysið sem hann lenti í um árið. Þá kveður hann Bruce minn Willis einnig seint á árinu, eða snemma árs 2027 eftir baráttu við Alzheimers. Þeir deyja sannarlega ungir sem guðirnir elska.
Það eru nokkur dauðsföll enn sem sjást hér í kúlunni minni en ég vil bara ekki segja frá því en íslenska ríkið mun í það minnsta efna til einnar opinberrar útfarar á árinu, ef ekki tveggja. Sú útför mun minna landa okkar á mennskuna og kærleikann sem viðkomandi sýndi í gegnum tíðina þannig að dauði viðkomandi mun ekki verða til einskins.
Hann Jökull í Kaleo efnir aftur til tónleika á Íslandi – það verða svokallaðir „pop up“ tónleikar sem munu koma ansi mörgum á óvart. Við elskum öll hann Jökul og Klaki litli hefur svo mikla tilfinningu fyrir Íslandinu sínu. Hann gleymir okkur ekki.

Friðrik Ómar mun finna ástina á árinu – á óvæntum stað – Akureyri og flytur aftur til heimahaganna. Kannski ekki árið 2026 en fljótlega eftir það. Hann elskar húsið sitt í Borgarnesi en kostnaðurinn við hótelgistingu í Reykjavík er jafnvel of mikil fyrir svona snilling eins og hann. Hann er svo mikil dúlla hann Frissi minn – og á allt gott skilið.
Katla Njálsdóttir finnur líka ástina á árinu og hún verður mjög áberandi í leikhúslífinu næstu fimm árin. Hún mun landa stóru hlutverki og verður eftirsótt víða um heim eftir það enda mun túlkun hennar í hlutverkinu vera algjörlega stórkostleg.
Það verða einhverjir skilnaðir á árinu hjá fræga fólkinu en ég er bara orðin svo gömul að ég veit ekki alltaf hver er frægur og hver ekki. Steindi Júníor kemur upp í hugann og Saga Garðars. Kannski byrja þau saman – það væri fyndið,“ sagði Dollý og skellti hressilega uppúr.
Náttúran
Náttúran verður blíð við okkur hér á norðurhveli á árinu, eða það finnst okkur. Það er samt ekkert eðlilegt við það að hitastig í desember nái nærri 20 gráðum í plús. Það segir okkur bara að við séum að skemma eitthvað í vistkerfinu okkar sem gerir heiminn að lífvænlegum stað.
Flóð, hvirfilbylir og skyndileg ofsaveður munu verða nánast að daglegum fréttum um allan heim. Við veltum því ekki fyrir okkur þó þúsund manneskjur deyi í Kína en ef fjórar gefa upp öndina í Þýskalandi þá verður okkur um og ó. Við erum komin að þeim stað að það er of seint að snúa við, það eina sem við getum gert héðan af er að reyna að hægja á breytingunum. Hvernig er hins vegar annað mál og þar komum við aftur að Kínverjunum sem munu finna leið en heimurinn treystir þeim ekki og hlustar ekki.

Á Íslandi munu náttúruöflin vera þokkalega góð við okkur, en þau minna samt á sig með reglulegu millibili. Það mun skjálfa á Suðurlandi og enn og aftur er ótti við að Katla fari að hrista sig, það styttist í hana, en mér finnst hún muni sleppa sér lausri á oddatöluári. Það kemur ein gusa enn á Reykjanesi en svo hægir á gosunum þar. Það sem hins vegar er að gerast er að hættan er að færast austar og nær höfuðborginni og ákveðinn ótti mun grípa um sig. Eldarnir hennar Sigríðar Hagalín eru hins vegar ekki alveg á næsta leyti, ekki næstu 20 árin sýnist mér, en við verðum að bregðast við og hefja undirbúning fyrir það fyrr en síðar.
Upphaf ársins 2027 verður snjóþungt og erfitt fyrir marga en skíðafólk gleðst yfir góðu færi í fjöllunum og á skíðasvæðum. Veðrið verður líka með ágætum að öðru leyti, stöku lægð sem verður til vandræða en háþrýstisvæði sem er venjulega yfir Grænlandi er komið yfir á Grænlandssund og við njótum þess á meðan Færeyjar og Englendingar sitja í rigingarsúpunni.
Það verður slegið hitamet á suðausturlandi á árinu en þar um slóðir verður líka best að vera næsta sumar þannig að þið skuluð endilega bóka bústaðina ykkar þar í sumarfríinu.
Íþróttir
Æ af hverju ertu alltaf að spyrja mig um þessar íþróttir?“ stundi Dollý þegar ég spurði hvort hún væri ekki tilbúin að spá einhverju um íþróttirnar. „Ég spurði gervigreindina um fótboltamótið í sumar og fékk þetta svar „Það er ómögulegt að segja með vissu hvaða þjóð verður heimsmeistari í fótbolta árið 2026, þar sem úrslit keppninnar ráðast af mörgum breytilegum þáttum og óvæntum atburðum á mótinu sjálfu. Þó eru þjóðir eins og Brasilía, Argentína, Frakkland og Þýskaland jafnan taldar líklegar til afreka, enda hafa þær sterka hefð fyrir góðum árangri á heimsmeistaramótum. Eins og sagt er: „Boltinn er kringlóttur og allt getur gerst.““
Er þetta ekki ágætt svar um það,“ Dollý hló svo mikið að ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið.

„Boltinn er kringlóttur og allt getur gerst! – hverskonar rugludalla svar er það! Engin nema gervigreindin gæti komið með svona rugl. Þetta verður áhugavert heimsmeistaramót vegna þess að í Bandaríkjunum mun það snúast meira um Trump en fótboltann þegar líður á keppnina. Það verður líka mikill miðasöluskandall í kringum mótið sem FIFA mun eiga erfitt með að vinda ofan af. Í Kanada og Mexíkó verður allt með kyrrum kjörum en það verður vandræði með þá riðla sem leika yfir landamæri.
Íslenska handboltalandsliðið fer á EM í janúar og ég er ekki viss um að þú viljir að ég spái þeim góðu gengi, mér gengur svo illa að spá fyrir um þessi mót! Það eru litlar væntingar fyrir mótið 2027 og þá getur allt gerst án þess að þjóðin fari á límingunum.
Árið verður samt gott fyrir marga íþróttamenn. Lyftingakona mun ná frábærum árangri og einstaklingur í frjálsíþróttum sömuleiðis. Ég er ekki frá því að græna liðið þitt verði líka í sviðsljósinu, bæði stelpurnar og strákarnir. Það er eitthvað sem við Kópavogsbúarnir erum að gera rétt.“
„En hvað með mig?“ spurði ég – lækkar forgjöfin? „Lækkar forgjöfin, nei þú verður ekkert betri í golfi þó ég búi við golfvöllinn. Eina leiðin til að þú lækkir forgjöfina er að þú æfir þig – en því nennir þú ekki! En þú átt eftir að eiga marga ágæta hringi í sumar og mögulega vinnur þú eitt eða tvö mót. Þú mátt bara ekki verða gráðug!“
Nú stóð vinkona mín upp – bað mig um að fara og læsti á eftir mér. Sagði hvorki bless né gleðilegt nýtt ár. En spáin er komin í hús og það skiptir öllu.
Gleðilegt ár til þín!


