Jæja elskan mín – hvernig gekk mér í fyrra?
– Bara vel, sagði ég og brosti. Þú spáðir fyrir um alþingiskosningar, sagðir að Trump yrði næsti forseti Bandaríkjanna, Baltasar Kormákur myndi slá í gegn einu sinni enn og að Breiðablik yrði Íslandsmeistari í fótbolta. Það er bara nokkuð gott verð ég að segja.
Kristrún Frostadóttir er orðinn forsætisráðherra og með henni dansa Flokkur fólksins og Viðreisn (sem var næstum því allt rétt hjá þér). Það er hart sótt að Bjarna Benediktssyni innan Sjálfstæðisflokksins, Gísli Þorgeir var kjörinn íþróttamaður ársins 2023.
Fólk á flótta er orðið að miklu bitbeini í hinum vestræna heimi og hefur litað kosningar hér og þar á árinu. Það er ekki langt í að Gasa verði hernumið að fullu og í Úkraínu hefur ástandið versnað til muna með tilkomu Norður Kóreanskra hermanna.
Það gaus sannarlega á Reykjanesi árinu en ekki víðar því ekki hóstaði Hekla mikið þetta árið. Það féllu snjóflóð í byggð þar sem ekki varð manntjón og sannarlega hafa alltof margir kvatt þessa jarðvist vegna umferðarslysa á árinu 2024.
Svo talaðir þú í lokin um að Covid myndi láta að sér kveða á árinu með nýju afbrigði. Þeir voru að taka upp grímuskyldu á Landspítalanum undir lok árs út af Covid og RS veiru þannig að þú hafðir rétt fyrir þér þar. Svo er það upphefðin mín. Jú ég fór á eftirlaun og fór niður í 6,3 í forgjöf í golfhermi. Það má kalla það upphefð að vera eftirlaunaþegi!
Það sem þú getur talað kona, sagði Dollý eftir þessa langloku og ég er nokkuð viss um að ég hafi sé bros færast yfir hana eftir því sem ég talaði lengur. Ætlar þú ekki að færa mér einhverja hressingu mín kæra?
– Hvað má bjóða þér? Bjór, hvítt, rautt, freyðivín, portvín, viský … nefndu það?
Hver drekkur rauðvín? Kona fær bara helvítis hausverk af slíku sulli. Færðu mér smá freyðivín mín kæra, ég held ég eigi það skilið eftir síðustu spá!
Dollý fór að leggja niður spilin sín en kristalskúlan hennar var enn undir flauelsdúk alskreyttum fagurlegum útsaumi og semelíusteinum. Ég ætlaði að spyrja um kúluna þegar hún sagði um leið og hún tók drjúgan sopa af freyðivíninu: „Ætli það sé ekki best að byrja á pólitíkinni hér heima!“
Stjórnmálin
Þetta verður ekki einfalt hjá valkyrjunum þremur. En þær eru konur og vanar að þurfa að eiga við málamiðlanir í heimilishaldi og barnauppeldi þannig að þær munu klárlega klára þetta ár með stæl. Ríkisstjórnarflokkar fyrri ára, sem enn eiga fulltrúa á Alþingi, munu eiga í stökustu vandræðum með að gagnrýna þær því þrátt fyrir allt er Alþingi bundið af fjárlögum sem Sigurður Ingi og Bjarni Benediktsson mótuðu og bjuggu til. Áferð Valkyrjustjórnarinnar mun ekki koma fyllilega í ljós fyrr en á haustdögum 2025. Það er góð ára yfir þessum konum öllum og ég sé ekki mörg stór mál sem munu þvælast fyrir þeim. Ef það verður eitthvað þá mun það tengjast kjarasamningum en þar fer Flokkur fólksins fram af miklu afli og mun verða dálítið erfitt fyrir Ingu mína Sæland að syngja Ragnar Þór í svefn þannig að stjórnin haldi. Það vill hún umfram allt annað enda er hún engin ósannindamanneskja hún Inga mín. Við höfum nú fengið okkur einn eða tvo saman skal ég segja þér – skemmtilegri partý konu er erfitt að finna, en hún er plássfrek þessi elska og er lík mér að því leyti að hún hugsar ekki alltaf áður en hún syngur.
Það er hins vegar þyngri ára yfir honum Bjarna Benediktssyni, ég sagði þér í fyrr að hann myndi segja af sér á árinu 2024 (sem hann gerði svo sem að einhverju marki þó það hafi ekki verið sem formaður heldur sem forsætisráðherra) en árið 2025 verður klárlega endastöðin hans. Og stundin sú verður í febrúar. Í hans stað mun Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir taka við og hún er svo heppin að vera í stjórnarandstöðu þannig að hún mun fá meira frelsi (er það ekki það sem íhaldið vill – frelsi?) til að móta stefnu flokksins í hinum ýmsu málum sem hafa verið ansi íhaldssöm til þessa. Ég nefni til dæmis ást þeirra á því að styðja við stórfyrirtæki eins og Hval hf. Það verður sögulegur viðskilnaður þar!
Það verður búinn til nýr flokkur á rústum Pírata og Vinstri grænna. Báðir flokkar eru stórskuldugir og enginn áhugi fyrir því að viðhalda þeim nöfnum. Nýi flokkurinn mun heita Náttúruvinir nema þeir taki yfir flokkinn Græningja sem stofnaður var á dögunum. Annars er ég stundum svo upptekin af því að finna upp nöfn á alls konar að ég get alveg gleymt mér. Ég lofa þér því samt að flokkurinn mun ekki fá nafn nema með mínu samþykki og Braga Valdimars (sem mun koma með brjálæðislega skemmtilegan sumarsmell á árinu 2025).
Almannaheill og náttúran
Enn á ný mun heimurinn berjast við sjúkdóm sem er að hluta til eða að öllu leyti mannanna verk. Að þessu sinni eru það fuglar sem mun dreifa alls kyns leiðindum í mannfólkið sem gætir ekki að sér frekar en fyrri daginn og virðist aldrei læra að ganga um náttúruna eins og það vill að gengið sé um heima hjá þeim (sem er auðvitað misjaft, það er ágætt hér hjá þér en ráðskonan sér um að þrífa hjá mér). Árið verður ólgusamt hjá mörgum og víða um heim verður gripið til alls kyns ráðstafana til að koma í veg fyrir faraldur líkan þeim sem gekk yfir veröldina 2020 með Covid 19.
Náttúruhamfarir munu verða fjölmargar um heiminn og margar eða jafnvel flestar þeirra verða líka mannanna verk. Við höfum ekki gætt okkar nægilega vel þegar kemur að loftslagsbreytingum og því fylgja afleiðingar sem við ráðum hreinlega ekki við. Það verður uppskerubrestur á hrísgrjónum og korni sem mun leiða til hungursneiðar víða. Vöruverð mun hækka um allan heim og eins og alltaf verða þeir fátæku fátækari og þeir ríku finna alltaf einhverja leið til að svindla á millistéttinni og verða ríkari og ríkari (helvítis beinin).
Hér tók Dollý sér loksins örstutta hvíld, rétti mér glasið og bað um áfyllingu. Svo horfði hún djúpt í augun á mér um leið og hún sagði: Veistu við erum ekki á réttri leið! Ég horfði á hana í forundran og skili ekkert. Hún dæsti og fékk sér annan sopa.
Annars er tæknin orðin þannig að við ættum nánast að hætta að hafa áhyggjur af náttúruhamförum.
Hér fékk ég hóstakast og frussaði smá bjór yfir Dollý sem varð brjáluð yfir trufluninni. Ég bað hana innilegrar afsökunar, þerraði dropana sem lent höfðu á henni, og spurði um leið af hverju eigum við að hafa áhyggjur af tækninni?
Nú tæknin gerir vondu fólki kleift að skipuleggja netárásir og dreifa falsfréttum. Af hverju heldur þú að Trump sé að taka aftur við sem forseti í Bandaríkjunum? Svo er það flóttamannastraumurinn og „óttinn“ við innflytjendur. Helvítis popúlisminn er að tröllríða öllu og þó við höfum sloppið fyrir horn í síðustu Alþingiskosningum þá munum við sitja í popúlistasúpunni fyrr en við viljum vita!
Á Íslandi mun halda áfram að gjósa á Reykjanesi og Bláa lónið mun mögulega verða fyrir skaða – eða kannski er það virkjunin. Það verður a.m.k. ekki alltaf hægt að hækka varnargarðana endalaust.
Jörð mun skjálfa á Suðurlandi og á Vestfjörðum verður því miður leiðinda flóð sem mun stoppa meira en einn lækni á leið í skötu. Það er alveg klárt. Það hafa verið að berast fyrirspurnir í pósthólfið mitt á Eyrarbakka um það hvort sumarið verði ekki gott og veistu það að ég get fullyrt að það verður gott. En hvar það verður gott er aðeins meiri óvissa. Og svo er það alltaf spurningin – hvað er gott? Það sem einum finnst gott þykir öðrum kannski ömó. Mér finnst rauðvín ekki gott en drekk það þegar annað er ekki til. Ég þykist vita að þú farir út í golf þegar það rignir ef það blæs ekki mikið. Svona er þetta. Sumarið verður gott.
Útlönd … hefðarfólk og frægir
Við skulum bara byrja á Englandi, þau hafa sannarlega átt erfitt á árinu 2024 og trúðu mér 2025 verður í sjálfu sér ekki mikið betra fyrir þau. Ástæðan er einföld. Kalli kóngur er orðinn veikur og þreyttur, jafnvel elliær (eins og það var kallað á mínum unglingsárum). Vesalings karlinn hefur þurft að henda bróður sínum út úr krúnunni og hans „eigin“ sonur er ekki endilega í betri stöðu með bandaríska „svarta ekkju“ upp á arminn. Elsku kúturinn minn – mér þykir svo vænt um hann Harry minn. Hann getur ekkert að því gert að vera ekki sonur pabba síns – þeir eru sko margir þannig skal ég segja þér!
Í Danmörku gengur klukkan sinn vanagang. Danir eru enda varir því að láta ekkert trufla sig og þeir taka sér pásu þegar þeim hentar og fá sér einn öl. Værir þú ekki til í að færa mér einn slíkan?
– Viltu Jóla Tuborg? spurði ég
Auðvitað – en ekki hvað! var svarið og ég hlýddi að sjálfsögðu. Hún fékk sér sopa og sagði „Det er så godt!¨
Hvar var ég! Já danska konungsfjölskyldan. Þau munu ganga í gegnum ýmislegt, rétt eins og sú norska. Hvaða rugl er þetta með stjúpsoninn, Marius. Sá verður dæmdur í fangelsi fyrir fíkniefnamisnotkun og ofbeldisbrot. Hann er til háborinnar skammar en mun ekki læra neitt af því að dvelja í fangaklefa eina nótt, því það er allt sem hann þarf að sitja af sér. Annars munu Norðmenn, svona yfirleitt, eiga dálítið erfitt ár fram undan. Olíuauðurinn þeirra verður til vandræða og margir ásælast hann. Þeir hins vegar, verandi Norðmenn, munu ekki sleppa neinu af þeim aurum út í hagkerfið og verða harðlega gagnrýndir fyrir vikið. Ástæðan – óttinn við innflytjendur!
Svíar eru að venjast því að vera ekki lengur hlutlausir og munu finna fyrir því, bæði á Eystrasalti og í norður Svíþjóð að Rússarnir eru ekki langt undan. Það verður enn og aftur klippt á sæstreng hjá þeim sem mun valda nokkrum skaða án þess þó að taka kerfin þeirra alveg niður.
Katrín Jakobsdóttir tekur við sendiherrastöðu. Hún á það skilið að komast í þægilega innivinnu. Hún skrifar líka nýja glæpasögu sem mun gerast í Vesturbænum í Reykjavík, á Hagamel ef mér skjátlast ekki. Þar verður karlmaður myrtur og sökudólgurinn er kona sem engan grunar að geti framið slíkan glæp.
Svo verð ég að nefna hana Ásdís Rán mína, elsku drottninguna. Hún er enn á spena hjá honum Ástþóri vini okkar allra og mun, öllum að óvörum, slá bara vel í gegn á árinu. Ekki í Búlgaríu heldur í nágrannalandinu Rúmeníu. Táknrænt kannski en ekki lesa of mikið í þetta.
Tæknin
Ég hef talað fullt um tæknina hér að framan enda mun tæknin verða það orð sem mest verður notað á árinu 2025 ásamt orðum eins og gervigreind. Tæknin er nefnilega að verða okkar helsta vandamál um leið og tæknin er það sem leysir flest okkar vandamál. Fjarheilsugæslu verður t.a.m. komið upp á afskekktari byggðum á Íslandi sem þó eru ekki endilega svo afskekkt. Ég er að tala um Djúpavog, Vík, Þórshöfn og Drangsnes. Hversu afskekktar eru þessar byggðir í raun?
En tæknin verður okkur líka fjötur um fót. Allt of mikið af falsfréttum mun fara á kreik á Íslandi og við munum eiga erfitt með að greina á milli hvað er satt og hvað er logið. Sjáðu til dæmis þessa bráðfínu mynd af mér. Ég get svo svarið það ég lít svona út þegar ég horfi í spegilinn!
Íþróttir
Af hverju þarftu alltaf að vera að spyrja mig um þessar íþróttir? Andskotakornið kona það er ekki hægt að spá neinu fyrir um það. Ef svo væri þá væri ég milljarða mæringur og þyrfti ekki að vera að hitta þig einu sinni á ári. Það er þrennt sem ég ætla að segja um íþróttir.
Í fyrsta lagi þá verður Glódís Perla verður kjörinn Íþróttakona ársins 2024. Á sama tíma verð ég bara að segja að það er hneysa og hneyksli að Thelma Aðalsteinsdóttir hafi ekki verið á topp tíu listanum. Sennilega er hún að líða fyrir það að vera kona því það verður auðvitað að gæta að því að þar séu ekki of margar konur á listanum.
Í öðru lagi þá mun karla landsliðinu í handbolta ganga vel á EM í janúar og mér finnst ég sjá medalíu um hálsinn á þeim drengjum.
Í þriðja lagi mun íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu komast upp úr riðli sínum í Sviss og sækja mögulega einn sigur í viðbót eftir það.
Spurningarnar stóru
Nú sá ég að það var aðeins farið að draga af minni konu þrátt fyrir að hún Ella mín hafi gefið henni tvær tartalettur með dýrindis hangikjöti sem hafði verið vel fituhreinsað og plokkað.
– Elsku Dollý, takk fyrir þessa fallegu spá en ég bauð nokkrum æstum aðdáendum að spyrja þig spurninga. Ertu til að svara þeim?
Allt fyrir aðdáendur, svaraði Dollý um hæl. Allt fyrir aðdáendur.
- Lilla spyr hvort hún muni fara í ferðalag með góðum vinkonum sínum í sumar?
Já auðvitað – þið farið saman á Vestfirði því þar er lognið mest og best.
- Karólína spyr hvernig sumarið 2025 verður?
Segðu henni Karólínu vinkonu þinni að lesa spána.
- Anna Ósk spyr hvernig 2025 verði?
Hvað heldur Anna Ósk að ég hafi verið að gera síðustu þrjá klukkutímana. Klóra mér í kollinum. Lestu spána kona!
Ég minni Dollý á að vera kurteisa og almennilega við aðdáendur en jólaölið er komið í mín konu og hún fussar bara og sveiar.
- Þorgerður spyr um golfsumarið?
Ég geri ráð fyrir því að hún sé að velta fyrir sér sumrinu hér í nafla alheimsins? Það verður ágætt forgjöfin hennar mun ekki lækka að ráði og þín bendir til þess að þú eigir að spila golf á veturna. Veðrið verður hins vegar ágætt til golfiðkunar fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu og næg tilefni verða til útiveru.
- Gunni Gunn og Guðrún Erna spyrja um lottótölur í janúar? Ég beygði mig niður tilbúin að fá í mig glas eða bauk af bjór en mér að óvörum sagði Dollý.
Segðu þeim að hugsa hlýtt til Stykkishólms, tölur eins og 1, 3, 8, 9, 27 og 40 munu merkja alls konar fyrir þau. Svo er talan 2 aldrei langt undan.
Hér teygaði Dollý síðasta dropann af Jólabjórnum – brosti til mín og sagði. Ég held ég haski mér. Þetta er orðið gott. Ég ætla að koma við hjá Landsbjörgu og kaupa mér neyðarblys. Held það veiti ekki af eftir þessa spá. Það toppar ekkert árið 2024.
Gleðilegt ár elskan og skilaðu kveðju til Ellu. Maturinn var góður.
Óvænt viðbót
Er búið að loka? æpti Dollý á mig í símanum í morgunsárið 30. desember.
– Nei við lokum ekki spánni fyrr en á miðnætti 31. desember, svaraði ég og var dálítið hissa að heyra í vinkonu minni fyrir hádegi á mánudegi!
Ég lagði nokkur spil í gærkvöldi og sá þá dálítið sem ég sá ekki þegar ég kom til þín um daginn. Það er nefnilega þannig að Liverpool verður enskur meistari í fótbolta, Breiðablik heldur titlinum í knattspyrnu kvenna og HK fer aftur upp í efstu deildina.
Svo merkilegt sem það er þá þoli ég ekki íþróttir og skil ekki af hverju ég þurfti að koma þessu til þín.
Söngvakeppnin
Svo hef ég verið að lesa hvað kollegar mínir í spádómsfræðum hafa verið að skrifa og bullið sem vellur upp úr þeim er með ólíkindum. Að halda því til dæmis fram að Söngvakeppnin súrni er þvílík vitleysa. Það er ekki til merkilegri keppni en Júróvisjón og hana nú. Ég sé okkar framlag ná langt og við munum enda í fimmta sæti í keppninni með taktföstu og bráð fallegu lagi sem verður sungið af ungum karlmanni.
Forsetinn
Svo hefur verið vinsælt að tala um forsetana okkar. Hann Guðni á eftir að koma sér vel fyrir í Garðabænum og leggja stund á fræðimennsku. Elísa mun vera við hlið hans hér eftir sem hingað til sama hvað Gróa á Leiti kemur til með að segja. Auðvitað geta komið brestir í hjónabönd þeirra sem alltaf eru í sviðsljósinu. En ég sé ekkert sem bendir til þess að þau fari í sitt hvora áttina, nema þá í mesta lagi um stundarsakir þegar Elísa fer erlendis í stórt verkefni.
Halla mín góða vinkona vex inn í nýtt hlutverk. Hún þarf að læra á allt það sem þarf að gera sem þjóðhöfðingi, t.d. að bera borða eins og fegurðardrottning og svo verður hann Björn minn aldeilis góður við hliðina á henni. Hann nýtur athyglinnar sem hann fær og á eftir að gefa út matreiðslubókina Ofurfæði á Álftanesi sem mun slá í gegn.
Leikhúsið
Í leikhúsinu er byrjað að skrifa söngleik eftir lögum Magnúsar Eiríkssonar og Gunnars Þórðarssonar, þó fyrr hefði verið. Lögin þeirra munu kallast á í sýningunni og þar verður heilmikið drama! Söngleikurinn mun ganga í mörg ár og slá út bæði Bubba og Ellý. Kannski verður frumsýnt 1. janúar 2026 en mér finnst eins og þetta verði vinsælasta jólagjöfin 2025.
Konurnar
Á árinu 2025 eru fimmtíu ár frá kvennadeginum 1975 og mikið er það viðeigandi að hafa allar þessar konur við völd á landinu okkar góða. En það eru alltaf til úrtölufólk sem finnur lífinu allt til foráttu og ég sé sérstaklega einn slíkan aðila hafa sig verulega í frammi. Sá er fallin “stjarna” – karl sem er kominn af miðjum aldri og getur ekki sætt sig við að hafa ekki bæði tögl og haldir í samfélaginu lengur. Eins og alltaf munu virkir í athugasemdum taka undir með viðkomandi og flestar ef ekki allar konurnar í stjórnunarstöðunum hæstu munu fá yfir sig sinn skammt af hatursorðræðu og ógeði. Ein þeirra verður fyrir sérlega ógeðfeldri atlögu sem verður til þess að öryggisgæsla í kringum þær verður efld til mikilla muna.
Veðrið
Já og veðrið – ég sá það í snjókomunni í morgun að sumarið á höfuðborgarsvæðinu verður í júlí, ágúst, september og fram í október. Júní verður æðislegur á Vestfjörðum og Vesturlandi. Austurlandið mun samt toppa allt og ná sér í maí og verður gott fram í ágúst. Sumarfrí á Austurlandi ætti því að vera nokkuð örugglega í góðu veðri.
Þetta var allt elskuleg, ég hringi fyrir 1. janúar ef það kemur eitthvað fleira til mín. Farðu varlega.