Kennarabragur

eftir Árna Helgason, Stykkishólmi

Skamma leið frá Hótelinu er skólinn okkar hér,
og skruggufullt af dyravörðum eins og maður sér.
Lúðvíg stjórnar kennurunum – Lúðvíg spilar golf
þegar Lúðvíg spilar golfið fer allt saman á hvolf.

Viðlag:    Er þetta ekki satt – jú það er alveg satt
Þetta segja allir, svo það er alveg satt.

Þó geispað sé í tímunum, er gaman fyrir það.
Gunnar niðrí Settuhöll með hjarta á réttum stað.
Hann baðar alla krakkana upp í sundlaug sérhvern dag
og síðan verður Haddi að koma skólanum í lag

Kristján fast í tímum í borðið okkar ber
bara svo að krakkarnir, þeir taki eftir sér.
Svona tækni í vetur hefur blákalt verið beitt
og borðin læra dálítið, en krakkar ekki neitt

Þá er hér hún Ingibjörg við alltaf sama trog,
aðeins sér hún Breiðablik og máske Kópavog.
Hún er full af bröndurum og börnin læra þá
og brýtur síðan prikið sem að taflan á að fá.

Sólrún er með allra bestu hesta hér í heim,
hún segir að kennararnir geti lært af þeim.
Kennir best með skrokknum, er skelfing brosleit þá
og skiljanlega erfitt út af lagi hana að slá.

Eyþór talar mikið þó hann hafi ekki hátt
hrotufullur bekkurinn er alveg uppá gátt.
Dottandi svo nemendurnir alveg kinn við kinn
en keppast við og sperrast, þegar Gunnar veður inn.

María á fullu spani í íþróttunum er
æfir líka í rúminu – það Óli segir mér.
Baráttan við krítina er hennar þyngsta þraut
þá er líka skólinn þessi fína hlaupabraut.

Í handavinnutímum hér enginn stormur er
Unnur er sú rólegasta, sem að betur fer.
Nemendurnir grallarar og gera marga þraut
hún getur varla leiðbeint þeim að sjóða hafragraut.

Gunni er mikill teiknari og tákn á himni sér
teiknar allan sólarhringinn ef út í þetta fer.
Segir ótal brandara – í hamsi verður heitt
og hneykslast á þeim nemendum sem geta ekki neitt.

Gústi er alveg draumur og sögur segir hann
svaðalega mikið úr fortíðinni kann.
Ákafinn svo mikill að hann gleymir stund og stað
og stundum sér í tímunum – en ekki meir um það.

Svona er nú skólinn okkar skýr á alla lund
og skemmtilegir kennararnir oft í kennslustund.
Úrvalslið og nemendurnir bestu hér í heim,
ég held við ættum öllsömul að klappa fyrir þeim.

Árni Helgason – Stykkishólmi

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu