Ég man eftir afa

Ég man eftir afa á gamlárskvöld þegar hann stóð upp, gekk á bakvið sjónvarpið til að gá hvort forsætisráðherra væri með handskrifaða ræðu.

Ég man þegar afi kenndi mér að keyra bíl á Rauðavatni. Það var erfiðast að taka af stað í brekkunni upp að bústað.

Stundum sagði afi við mig, „Ingó, þú keyrir eins og fantur.“ Ég hélt að ég keyrði of hratt, en þá sagði amma, þar sem hún sat í aftursætinu. „Hann meinar að þú keyrir vel,“ og afi brosti í sætinu við hliðina á mér.

Ég man eftir því hvað afi var hjátrúarfullur. Það mátti aldrei byrja á neinu á mánudegi. Ég fylgi þessu ennþá og þegar ég réði mig síðst í vinnu kom fyrsti vinnudagur upp á mánudegi . . . ég byrjaði á þriðjudegi.

Ég man eftir því að fara með afa og ömmu í kirkju á gamlárskvöld. Við fórum alltaf í Hallgrímskirkju, sátum framarlega og sungum hástöfum, öll nema afi!

Ég man eftir bílunum hans afa. Hann átti glæsilega rússneska Moskvitcha, hann átti eldrauðan Wartburg, sem hann kallaði Vassbúrg og hann átti Cortínu.

Ég man þegar afi og amma komu keyrandi til okkar á Strandirnar. Ég lá útí glugga og beið eftir því að sjá afa og ömmu koma til okkar. Það var ekki mikil bílaumferð, en þeir sem fóru framhjá keyrðu hratt, nema einn . . . það var afi.

Ég man eftir því þegar afi átti afmæli. Þá fór ég með Auði uppí móa og kenndi henni að reykja.

Ég man eftir sögu af afa á Keflavíkurveginum. Hann keyrði hægt. Þegar hann þurfti að pissa stoppaði hann, sneri sér uppí vindinn og umferðina svo amma og Binna gætu ekki séð hann.

Ég man eftir því þegar afi keyrði Hafnarfjarðarveginn, vitlausu megin.

Ég man eftir afa í Hinnabúð. Hann sat inni á lager, braut saman kassa og hnýtti þá saman í einn stóran bunka.

Ég man eftir afa á gamlárskvöld, þegar Sirkusinn kom á skjáinn sagði afi hvað eftir annað. „Þetta er bara blöff“.

Ég man eftir afa, órökuðum, alltaf dálítið hrjúfum og stingandi á kinninni, en samt svo mjúkum.

Ég man eftir afa í Skaftahlíðinni, þar sem hann passaði uppá kökurnar sem amma var að baka. Hann sat fyrir framan ofninn og horfði inní hann þangað til kökurnar voru fullbakaðar.

Ég man eftir afa í Skaftahlíðinni, það voru alltaf pönnukökur og kakó á borðum. Ég fékk mér oftast eina með rjóma og tvær upprúllaðar með sykri.

Ég man eftir afa að spila. Hann svindlaði stundum.

Ég man að afi vann í Pétri Snæland, einu sinni hrundi hann niður í lyftunni og þurfti að fara á spítala, ég held það hafi komið mynd af honum í blöðunum – það var merkilegt.

Ég man eftir sögunni af afa þar sem hann sat í neðstu tröppunum á Álfhólsvegi og passaði að enginn færi uppá loft. Siggi var uppi á lofti, fullur í fyrsta sinn.

Ég man ekki eftir því að afi hafi einhvern tímann skipt skapi. Hann var aldrei reiður.

Ég man ekki eftir því að hafa séð afa gráta.

Ég man ekki eftir því að afi hafi nokkru sinni kvartað.

Afi var eins og afar eiga að vera, afi var góður.

Samið í samstarfi við systur mínar í tilefni af 100 ára árstíð afa okkar heitins
Lárusar Kirstins Hinrikssonar bílstjóra, árið 2002.

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu