Afmæli eða hvað

Afmæli eða hvað?

Í byrjun maímánuðar 2006 bað vinkona mín, Ásta B. Gunnlaugsdóttir, mig um að vera veislustjóri í 45 ára afmæli sínu. Eins og ávallt þá tók ég því prúðmannlega og vel en eitthvað renndi mig í grun um að ekki væri allt í felldu með þetta ógurlega afmæli. Í fyrsta lagi þá hélt konan ekki uppá 40 ára afmælið sitt. Í öðru lagi þá átti þetta í byrjun að vera lítið og létt afmæli (til hvers þá að hafa veislustjóra?). Í þriðja lagi þá fór hún að ræða gestalistann við mig og var farin að telja upp frænkur og frænd lengst aftur í ættir og inn á milli þá kom alltaf að einhver Samma megin þyrfti að fá boð fyrst einhver hennar megin fékk boð. Ég er svo sjálfselsk að mér hefði ekki dottið í hug að það væri svona mikið mál að verða 45 ára og að það þyrfti að ríkja einhver jöfnuður milli sambýlisfólks þó annað þeirra héldi uppá afmælið SITT! Því fór mig að gruna að eitthvað fleira lægi að baki heldur en afmælið eitt og sér.

Úr varð að ég samdi textann hér fyrir neðan og við Sigfríður vinkona mín (mest Siffa þó þegar upp var staðið) sungum þennan texta, við lagið Ef þú giftist, Ástu til heiðurs á 45 ára afmælinu hennar …

Ásta þú ert undarleg
og alltaf pínu furðuleg
því þú hefur, því þú ekki hefur
fundið eiginmann.

Þú getur sparkað bolta fast
og laus ert við allt ljóð og last
samt þú hefur, samt þú ekki hefur
fundið eiginmann.

Þú kannt að elda góðan mat
og fær’ann uppá vaskafat
samt þú hefur, samt þú ekki hefur
fundið eiginmann.

Þú hefur eignast dætur tvær
sem líkjast þér frá topp’í tær
samt þú hefur, samt þú ekki hefur
fundið eiginmann.

Við höfum allt það sagt með sann
og viljum finna þér eiginmann
því þú verður, því þú bara verður
að hlusta ofsa vel.

Við viljum verða brúðarmær
því við erum báðar sætar tvær
við viljum kjóla, viljum bleika kjóla
að klæðast hér í dag.

Svo við fórum inní þvottahús
og fundum þar einn sykursnúð
sem þú giftist, sem þú bara giftist
sem þú giftist strax.

Svo hér er Íslands eina von
Samúel Örn Erlingsson
sem þú giftist, sem þú bara giftist
sem þú giftist strax.

Svona er þetta … og viti menn. Það birtist prestur á mótorhjóli og svörtum leðurgalla með hempuna í bakpoka og úr varð þetta fína brúðkaup!!!

Ertu sátt? Segðu frá Dollý á þinni síðu